Hér er gott að vinna og búa

Fjölskyldan samankomin í myndatöku. Aftasta röð. Synirnir Daniel og Axel Allan. Iris er á milli þeirra.  Miðröð. Dóttirin Alexandra Jóna og tengdasonurinn Gunnar Örn Gíslason. Fremsta röð. Ömmubörnin.  Aníta Rós 5 ára og Gísli Hrafn 3 mánaða. Mynd: Erling Ó. Aðalsteinsson.

“Viltu mjólk í kaffið,” spyr Iris Gústafsdóttir sem hefur starfrækt hársnyrtistofuna Salon Nes frá árinu 2005 að hún festi kaup á stofunni, þegar tíðindamann Nesfréttar bar að garði. Hún hefur haldið á skærum í um fjóra áratugi. Einnig valið, kynnt og selt hársnyrtivörur af ýmsum gerðum auk starfa á líkamsræktarstöð um tíma. Hún lauk hársnyrtinámi árið 1980 og hefur vart fallið verk úr hendi síðan. Þau eru mörg höfuðin sem hún hefur farið um með skærum og notið snyrtimeðferðar hjá henni. Hún kveðst hafa klippt heilu fjölskyldurnar og fastir viðskiptavinir séu henni tryggir því öllu máli skipti að fólks sé ánægt með þjónustuna. Hún segir að til að byrja með hafi konur einkum sótt hársnyrtistofuna en nú hafi kynjahlutfallið jafnast. “Í dag klippi ég konur til jafns við karla. Jafnréttinu er náð,” segir þessi hressa kona og bætir við að tíðindamaðurinn fái enga mjólk í kaffið.

Iris er ættuð af Skaganum. Fædd á Akranesi 24. september 1960. Hún ólst þar upp með foreldrum sínum fyrstu sjö ár ævinnar en fjölskyldan fluttist til höfuðborgarinnar í júní 1967. Móðir Irisar var Jóna Alla Axelsdóttir frá Akranesi fædd 1937 og dáin 1996. Faðir hennar var Gústaf Þór Einarsson. Reykvíkingur fæddur 1936 og fallinn frá 2013. Iris segist tilbúin að verða fjörgömul ef börnin þoli sig svo lengi. “Í mars á þessu ári náði ég sama aldri og mamma var þegar hún féll frá. Ég ætti að vera þakklát fyrir það en ég held að ég eigi mikið eftir,” segir Iris og hlær. Börnin sem hún vill að þoli hana í áratugi í viðbót eru dóttirin Alexandra fædd 1994 og svo bræðurnir Daniel og Axel Allan sem eru fæddir 2004 og 2005.

Í bárujárnshúsi við Þórsgötu

“Pabbi var smiður. Hann fór að byggja yfir okkur Látraströnd 12 sem er raðhús á Seltjarnarnesi og varð æskuheimili mitt. Hann taldi hentugra að búa hér syðra en upp á Skaga. Þetta var löngu fyrir tíma Hvalfjarðarganganna og því þó nokkur leið fyrir Hvalfjörð sem fara þurfti á milli eða þá að sigla með Akraborginni. Nokkurn tíma tók að byggja og á meðan bjuggum við í pínulitlu bárujárnsklæddu húsi efst við Þórsgötuna – nánar tiltekið númer 24. Þar vorum við í um eitt ár frá júní 1967 til júní 1968 en gátum þá flutt á Látraströndina. Á þessum tíma var verið að byggja Hallgrímskirkju og margt var öðruvísi í umhverfinu en nú er orðið. Þórsgata er til dæmis löngu orðin svonefnd vistgata – sú fyrsta sem skipulögð var með þeim hætti í Reykjavík.”

Fjaran var leiksvæði 

Hvernig var að koma á Látrastöndina? Iris er fljót til svars. “Gott og gaman að segja frá því að þarna voru byggð sjö raðhús eða sjö íbúðarhús í röð. Þegar við komum  þangað var aðeins búið að byggja húsin númer tvö og fjögur á öðrum endanum og 12 og 14 á hinum. Það vantaði númer sex, átta og tíu en þau hús komu fljótlega. Gatan fyrir neðan var ekki komin og þetta var ævintýrasvæði fyrir átta ára barn sem var alið upp á Akranesi. Fjaran var aðal leiksvæði okkar krakkanna og útiveran mikil. Við bjuggum þarna í 16 ár. Frá því ég var átta ára til 24 ára. Foreldrar mínir skyldu og ég flutti með mömmu út á Tjarnarból. Þá var ég að bíða eftir íbúð sem ég var búin að festa kaup á hjá Byggung við Austurströnd. Ég þurfti að bíða eftir íbúðinni í þrjú og hálft ár því húsin voru lengi í byggingu. Ég skrifaði undir kaupsamninginn í apríl 1982 og flutti inn 6. desember 1985. Þetta voru mörg hús og ekki rifin upp á hálfu ári eins og gert er í dag.”

Bókhaldslíf hefði orðið of svarthvítt

Eftirtektarvert er hversu vel Iris hefur allar dagsetningar og tölur á hreinu. Hefði hún ekki verið efni í bókhaldara eða endurskoðanda fremur en fara í hársnyrtinn? “Ég hef alltaf haft gaman af tölum og einhvern veginn hafa þessar ár- og dagsetningar sest fastar í hausnum á mér. Nei – ég held að ég hefði ekki orðið góður endurskoðandi eða notið mín við það þrátt fyrir að vera minnug á tölur. Ég held að bókhaldslíf og endurskoðun hefði orðið of svart hvítt líf fyrir mig. Ég hef þurft meiri fjölbreytileika og þá gefur hársnyrtingin ágæt tækifæri. Bæði við að kynnast straumum og stefnum, góðum snyrtivörum og síðast en ekki síst öllum þeim samskiptum við fólk sem starfið býður upp á. Þau hafa verið og eru mér mikils virði. Hluti af vinnunni er að eiga samskipti við fólk. Spjalla við það. Kynnast því og hafa gaman af.”  

Annaðist mömmu – álag en sé ekki eftir því

“Ég bjó  á Austurströnd 4 í áratug. Ég var ein fyrstu níu árin en svo fæddist dóttir  mín 1994 og við vorum tvær saman síðasta árið. Mamma var flutt á Eiðistorg 9. Hún greindist með MND sjúkdóm 1988. Hún þurfti mikla aðstoð síðustu árin og ég var mikið hjá henni með stelpuna. Ég man að ég keypti barnarúm áður en stelpan fæddist. Rúmið fór aldrei heim til mín heldur til mömmu því ég svaf heima hjá henni flestar nætur á bedda frá IKEA. Í nóvember 1995 keyptum við mæðgur saman íbúð á Eiðistorgi 5 en mamma var þá orðin rúmliggjandi vegna sjúkdómsins sem lagði hana á átta árum. Hún fékk ágæta aðstoð. Bæði frá heimahjúkruninni á Seltjarnarnesi og víðar. Það komu hjúkrunarkonur heim til hennar kvölds og morgna og hún fékk ákveðna dagþjónustu eftir að hún hafði tapað hreyfigetunni. Ég gat því unnið úti. Þetta var engu að síður ákveðið álag fyrir mig en ég sé ekki eftir einni mínútu af þeim tíma sem ég nýtti til að aðstoða hana og annast.” Iris er enn á Eiðistorginu. “Ég er búin að vera þar í 24 ár. Þannig er heimilisaga mín en ég neita því ekki að þegar ég frétti að æskuheimili mitt væri til sölu fór um mig fiðringur. Mig langaði til að eignast húsið aftur. Ég hef alltaf litið á Látraströnd 12 sem heimili mitt og sakna hússins. Þar eru rætur mínar og í mínum huga er mikið eftirsjá eftir æskuheimilinu. En að kaupa það hefði þýtt skuldbindingu sem ekki hefði verið nægilega skynsamleg af minni hálfu.”

Hjúkrun, flugfreyja eða hársnyrtir

Iris segist eiga hefðbundna skólasögu á Nesinu. “Ég fór í Mýró 1968 og Való þegar hann opnaði 1974. Útskrifaðist þaðan vorið 1977. Ég hugsaði mikið um hvað mig langaði til að gera. Ég hafði áhuga á hjúkrun og einnig kitlaði mig að verða flugfreyja. Ég er ekki fædd inn í hársnyrtinguna en mamma talaði oft um hversu gott væri að eiga dóttur sem væri hárgreiðslukona vegna þess að þá gat ég sinnt hári hennar þegar hún varð rúmliggjandi og komst ekki út. Þannig að hún var alltaf fín. Hún vildi að ég færi þá leið og ég hlýddi eins og góð dóttir. Mér sýnist af því að ég hljóti að hafa verið nokkuð meðfærilegur unglingur.” 

Var ein af þeim heppnu

Iris minnist starfskynningar í Való. “Síðasta veturinn minn í Való var starfskynning í skólanum. Þar á meðal var verið að kynna klippingu og hársnyrtingu. Ég spjallaði við fólkið sem kom til þess að kynna hana. Þau vöktu áhuga minn á faginu, sem endaði með því að ég sótti um nám í því. Alls sóttu um 150 manns um það ár og 50 komust að. Ég var ein af þeim og verð að teljast heppin. Á þeim tíma var námið enn tvískipt. Annars vegar rakaraiðn og svo dömuklippingar. Af þeim 50 sem komust þetta ár inn í skólann var einn strákur. Hann fór í rakarann. En nú er löngu búið að sameina námið í eina hársnyrtideild og kynjahlutfallið er nokkuð jafnt. Ég lærði síðan á stofu hjá Helgu Jóakimsdóttir. Hún var meistarinn minn.”

Til Nesodden 

Þegar hásnyrtináminu lauk lagði Iris lykkju á leið sína. Hún fór um tíma til Noregs. “Ég fór til Noregs. Til Nesodden sem er bær á tanga sem gengur norður eftir Óslóarfirðinum með tengingu við austurströnd hans. Þangað er um 20 mínútna sigling frá Ósló. Nesodden er vinabær Seltjarnarnesbæjar og pabbi þekkti Norðmenn þarna í gegnum Kiwanisstarfið. Ég hafði áður farið til Nesodden. Það var árið 1976. Þá fóru 16 krakkar af Seltjarnarnesi þangað og bjuggu á heimilum fólks í bænum. Konan sem ég bjó hjá hefði orðið 100 ára á þessu ári hefði hún lifað. Ég fór þangað aftur um vorið 1980 og starfaði þar í þrjá mánuði en kom svo til baka og fór aftur til starfa á stofunni hjá Helgu Jóakims. Nesodden er fallegur bær og mér fannst frábært að vera þar. Ég hef alltaf haldið góðu sambandi við fólkið sem ég bjó hjá þar ytra.”

Í tveimur vinnum

“Í maí 1982 þurfti ég að byrja að greiða inn á kaupsamninginn við Byggung og vantaði peninga. Á þessum tíma var ég farin að æfa líkamsrækt. Var búin að stunda æfingar í meira en eitt ár. Við tókum þátt í vaxtarræktarsýningu í Háskólabíó í nóvember 1981. Hún heppnaðist vel. Það var gaman og ákveðið var að halda keppni í vaxtarrækt árið eftir. Hún fór fram á Broadway í maí 1982. Eftir það var mér boðin vinna við Æfingastöðina við Engjahjalla í Kópavogi. Ég sló til og var þar í um tvö ár. Ég skyldi þó aldrei við hárið. Ég hélt mér við með því að vinna á stofu. Ég var eiginlega í tveimur vinnum þennan tíma. Eftir það fór ég aftur á fullt að klippa og snyrta hár. 

Ég fór að vinna á Salon Paris í Hafnarstræti 1984. Var þar í um þrjú og hálft ár þar til að ég opnaði mína eigin stofu í febrúar 1988. Hún var í Hafnarstræti 16 í liðlega 200 ára gömlu húsi með mikla sál en árið 1999 þurftum við að flytja. Þá greip ég til þess ráðs að leigja mér stól á stofu í Pósthússtrætinu. Ég var þar í 14 mánuði því mér fannst að ég þyrfti að vera í mið-bænum og vissulega var gaman að vinna þar. Um sumarið 2000 voru stöðumælasektir hækkaðar og þá fór maður að taka eftir að sumt fólk vildi forðast miðbæinn.”

Vann fyrir peningunum

Þá fórstu að horfa út á Nes – til heimkynnanna. “Þegar þarna er komið sögu var ég búin að vera ellefu og hálft ár í Hafnarstrætinu og og eitt og hálft í Pósthússtrætinu. Dóttir mín var orðin sex ára og byrjuð í skóla. Þá vildi ég færa vinnustofuna nær heimili mínu. Óskar Friðþjófsson var þá með stofu við Austurströnd númer 12. Ég hafði samband við hann um hvort ég gæti leigt pláss hjá honum. Hann vildi heldur fá mig í vinnu sem launþega. Ég hugsaði mig um. Á meðan fór hann til Flórída þar sem hann veiktist og féll frá aðeins 58 ára að aldri. Börn Óskars sáu um reksturinn til að byrja með. Það hentaði mér vel að vera svo skammt frá Eiðistorginu. Ekki síst út af stelpunni. Ég sló til og vann hjá þeim um tíma. Þau sáu um reksturinn en ég vann fyrir peningunum.”

Tíu mánuðir á Spáni 

“Ég var búin að vinna hér á stofunni í tæp tvö ár þegar ég ákvað að taka nokkra lykkju á lífið. Breyta aðeins til. Upplifa eitthvað annað. Eitthvað meira framandi. Ég tók ákvörðun. Ég pakkaði heimilinu niður að öðru leyti en því sem ég gat sett í fimm ferðatöskur. Leigði íbúðina og hélt til Spánar með dóttur mína. Við fórum til Torremolinos sem er á Suður Spáni og vorum þar í tíu mánuði. Dóttir mín fór í skólann. Fór í þriðja bekk þar sem hún lærði spænsku. Við lifðum spart enda markmiðið að geta lifað af leigunni heima. Ég var 42 ára og búinn að starfa allan minn starfsaldur við hársnyrtingu. Ég tók að mér að gæta tveggja hunda sem voru í eigu íslenskrar konu á Torremolinos. Stundum fannst mér þetta óraunverulegt. Vaknaði á nóttunni og hugsaði um hvað ég væri að gera. En þetta varð ógleymanlegur tími. Svo komu jólin. Fjölskylda mín hér heimi vildi að við skryppum heim. Koma í hangikjötið og uppstúfið. Það var meðal annars stungið upp á því að í stað þess að gefa okkur mæðgum jólagjafir yrði safnaði í flugmiða fyrir okkur. Fram og til baka því ég ætlaði mér að vera lengur. Ég afþakkaði því ég vildi prufa að halda jól annars staðar fyrst ég var komin til annars lands. Ég neita því ekki að það var aðeins einmanalegt að halda jól víðs fjarri skyldfólki mínu. Við mæðgurnar höfðum bara hvor aðra. Ég hafði aldrei gert það og vissi ekki alveg hvað tilfinningar það myndi laða fram. Ég keypti svínahrygg og reyndi að matbúa hann samkvæmt íslenskum hefðum. Þetta varð ekki alvöru hamborgarhryggur eins og við vorum vanar að heiman en ágætismatur. Við höfðum það gott um jólin og ég dáðist dálítið að hugrekki mínu að vera ein með barnið. Ég var líka vör við að ættingjar mínir og kunningjafólk fannst ég vera hugrökk að gera þetta. Ekki bara að láta mig dreyma. Heldur að framkvæma drauminn. Ein með barnið. En þá voru aðrir tímar. Þetta hefði ekki þótt eins eftirtektarvert í dag. En var mjög gaman.”  

Með hálf spænskan dreng undir belti

Svo komstu heim? “Ég kom heim eftir tíu mánuðina. Ekki alveg ein því auk dóttur minnar bar ég lítinn hálfspænskan dreng undir belti sem ég fæddi í janúar 2004. Ekkert varð meira úr sambandi mínu við barnsföðurinn. Hann féll frá á besta aldri. Ég eignaðist annan son árið eftir í desember 2005. Var greinilega komin í barneignastuð á fimmtugsaldri.”  

Hér er gott að vinna og búa

Margir úr hópi viðskiptavina Irisar eru af Nesinu en þó nokkrir koma lengra að.  “Það fylgdu mér margir viðskiptavinir mér hingað á Nesið og koma enn á Salon Nes á Austurströnd 12. Að auki hafa margir nýir bæst í hópinn og koma til mín reglulega,“ segir Iris. Stofan hennar minnir á heimili. Jafnvel vinnustofu listamanns. “Ég kýs að hafa svolítið heimilislegt hér á stofunni minni. Bæði vegna þess að ég er hér allan daginn, en líka fyrir viðskiptavininn. Margir hafa líka haft orð á því hvað það sé notalegt að koma til mín í klippingu. Nú er dóttir mín að læra háriðn. Ef til vill eigum við eftir að starfa saman. Ég á þrjá bræður, þrjú börn tvö barnabörn. Ég kann best við mig ein að öðru leyti. Ég er eflaust svo sjálfstæð. En hér er bæði gott að vinna og gott að búa.”

You may also like...