Ég loka engum dyrum

— segir Guðmundur Freyr Gíslason sem varð dúx FB —

Guðmundur Freyr Gíslason.

“Ég stefndi ekki á að taka dúxinn. Þetta var heppni,” segir Guðmundur Freyr Gíslason sem hlaut hæstu einkunn á stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti á þessu vori. “Ég vissi þó af því að þetta væri möguleiki en fleiri gátu alveg slegist í þann hóp og vil ég sérstaklega nefna Ástu Kristínu Marteinsdóttir sem var semídúx í því sambandi. Það var ekki svo mikill munur á okkur.” Guðmundur hvílir sig á skrifborði og tölvuskjá í sumar og stundar garðslátt og önnur garðyrkjustörf hjá fyrirtæki sem tengist fjölskyldu hans. Hann kveðst ánægður með að hafa fengið tækifæri til þess að vinna úti í sumar og ekki skemmi fyrir hversu veðrið hefur verið gott. “

Guðmundur hóf framhaldsskólanám í Verslunarskólanum en skipti yfir í FB eftir fyrstu önnina. “Það var stutt fyrir mig að fara í FB og ég var allan tímann mjög ánægður þar.” Guðmundur braut námsferilinn upp og fór í skiptinám til Spánar 2017 til 2018. Hann var fyrst í San Fernando eða síðari hlutann í bæ sem heitir Zafra. Þá var ég búinn með fyrstu tvö árin í framhaldsskóla og tók svo eitt ár ytra. Mig langaði að víkka sjóndeildarhringinn og ég sé ekki eftir því að hafa gert þetta. Ég held að ég hafi náð nokkuð góðum þroska á þessu ári ytra.”

Hefur áhuga á mörgum námsgreinum 

Guðmundur stundaði nám á náttúrufræðibraut í FB en áhuginn liggur víðar. “Ég hef mjög gaman af tungumálum en ég hef líka mikinn áhuga á heimspeki og líka gaman af því að stúdera eðlisfræði og önnur náttúruvísindi. En heimspekin er grunnurinn að bak við vísindin og spyr spurninga um hvernig komast megi að meiri þekkingu á umheiminum. “

Byrjar í hagnýtri stærðfræði 

En hvað ætlar Guðmundur að taka sér fyrir hendur að hausti. Hvernig hyggst hann fóðra fróðleiksfýsn sína. Er hann að velta verkfræði fyrir sér. “Ég ætla að byrja í hagnýtri stærðfræði í Háskóla Íslands í haust. Ég hef aðeins velt verkfræði og þá helst hugbúnaðarverkfræði fyrir mér en stærðfræðin nýtist hvort sem ég vel þá braut eða aðra. Ég er mjög opinn fyrir ýmsu og ekki vist hvar ég enda. Ég er enn nokkuð óviss um framtíðina. En þetta er alla vega byrjunin.”

Nauðsynlegt að víkka sjóndeildarhringinn 

“Ég veit ekki hvort það hefur áhrif á framtíðaráform mín að ég kem úr nokkuð sjálfstæðu umhverfi. Faðir minn rekur lítið fjölskyldufyrirtæki og hefur unnið mikið fyrir sjálfan sig. Má vera að uppeldið hafi mótað mig að því leyti að fara ekki í nám til þess að fara að því búnu beint inn í ákveðið starfssvið eða starf á vinnumarkaðnum heldur að leyfa sér að taka smá lykkjur á námsleiðina svona eins og þegar ég fór til Spánar sem skiptinemi. Ég held að það sé nauðsynlegt að gera það til þess að auka víðsýni sína og þroska. Ég held að ef maður einblínir á eitt fag þá verði maður fljótlega fastur í því og eigi erfitt með að líta út fyrir rammann. Ég hef ekki myndað mér ákveðnar skoðanir á öllu. Ég er líka tilbúinn að íhuga mín sjónarmið og jafnvel breyta skoðunum ef ég læri eða uppgötva eitthvað sem mér lýst betur á eða reynist sannara.”

Mér fannst gott að alast upp í Breiðholti

“Já – ég er upprunnin úr Breiðholtinu og hafði ekki þekkti neitt annað þegar ég fór til Spánar. Ég var í Ölduselsskóla og flutti 14 ára um nokkra metra í Seljahverfinu. Ég hef einnig búið svolítið hjá ömmu og afa sem eru í Efra Breiðholti. Ég var líka dálítið í fótbolta hjá ÍR enda alin upp við bæjardyrnar hjá félaginu. Ég hef þó ekki verið að stunda hann sem keppni en hef gaman af honum. Þetta er heimilislegt umhverfi og ég er alls ekki með nein áform að flytja þaðan. Ég get þó alveg hugsað mér að dvelja eitthvað erlendis. Einkum til þess að bæta enskuna vegna þess að ég einbeitti mér að spænsku árið á Spáni. Hugsanlega er hægt að komast í samband við aðra háskóla í gegnum Háskóla Íslands. Ég er ekki að segja að ég sé fullnuma í spænsku. Maður er fljótur að stirðna ef maður notar málið ekki og ég hringi stundum út til þess að halda sambandi við fólk sem ég kynntist og æfa mig í að viðhalda málinu. En – ég ætla að byrja í hagnýtu stærðfræðinni í haust og svo verður maður bara að sjá til. Ég loka engum dyrum.”

You may also like...