83 íbúðir á Byko-reitnum

Fjögur ný hús munu rísa á Steindórsreitnum við Hringbraut. Alls 9.184 fermetrar. Í húsunum verða 83 íbúðir. 
Tölvumynd/​Plúsarkitektar.

Borgarráð hefur samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir svokallaðan Bykoreit er áður var kenndur við Bílastöð Steindórs þar sem gömul verkstæðishús Steindórs standa enn á lóðinni. Reiturinn var síðar kenndur við byggingavöruverslun Byko sem hafði húsið á leigu til verslunarreksturs um tíma.

Sótt hefur verið um leyfi til að byggja fjögur tveggja til fimm hæða fjölbýlishús á reitnum þar sem gert er ráð fyrir 83 íbúðum, atvinnurýmum á götuhlið og bílakjallara fyrir 82 bíla. Erindinu var vísað til umsagnar verkefnisstjóra skipulagsfulltrúa og nýlega samþykkti byggingarfulltrúi niðurrif húsanna á reitnum. Helstu breytingar frá fyrra skipulagi eru þær að leyfðum íbúðum á reitnum verður fjölgað um 14 – fara úr 70 í 84. Íbúðirnar verða í þremur húsum. Hæst verða húsin fimm hæðir næst Hringbraut. Það telst til tíðinda að samkvæmt nýju tillögunni er fallið frá fyrri hugmyndum um að hluti nýrra bygginga verði nýttar sem hótel. Því verður eingöngu íbúðabyggð á reitnum. Hótelið sem endanlega hefur verið blásið af átti að vera í fimm hæða byggingu, alls 4.300 fermetrar. Eigandi reitsins er þróunarfélagið Kaldalón. Kaldalón keypti Bykoreitinn af félaginu K. Steindórsson ehf., sem er í eigu viðskiptafélaganna Hilmars Þórs Kristinssonar og Jóhanns G. Jóhannssonar. 

You may also like...