Öryggi þjóðar frá vöggu til grafar

– ný bók eftir Sigurð heitinn Guðmundsson fyrrum framkvæmdastjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins og Breiðholtsbúa –

Þann 2. nóvember 2016 var haldið upp á 60 ára afmæli opinberra íbúðalána á Íslandi. Þar var rifjuð upp sagan og áfangasigrar í húsnæðismálum þjóðarinnar. Þar var hrókur alls fagnaðar Sigurður E. Guðmundsson, fyrrum forstjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins og aldursforseti í hópnum sem stundaði sagnfræðinám og rannsóknir á sögu og þróun velferðarlausna. 
Mynd Arnþór Birkisson.

Út er komin bókin Öryggi þjóðar frá vöggu til grafar eftir Sigurð E. Guðmundsson fyrrverandi framkvæmdastjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins og íbúa í Breiðholtinu til margra ára. Sigurður eyddi meirihluta ævi sinnar í störf og rannsóknir í þágu húsnæðis- og velferðarmála. Hann var skrifstofustjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins frá árinu 1965 og framkvæmdastjóri sömu stofnunar frá 1971 til 1998 eða í 27 ár. Á síðari árum lagði hann stund á nám í sagnfræði og vann að rannsóknarstörfum eftir starfslok. Hann hafði lagt drög að vörn og útgáfu doktorsritgerðar sinnar þegar hann lést á 87. aldursári 6. janúar 2019 eftir skammvinn veikindi. Bókin er byggð á doktorsritgerð Sigurðar.

Sigurður var fæddur í Reykjavík árið 1932 og ólst því upp á áratug kreppunnar miklu á síðustu öld. Foreldrar hans voru hjónin Guðrún Ástríður Elimundardóttir húsfreyja og Guðmundur Kristinsson verkamaður í Reykjavík. Hann kynntist af eigin raun í uppvextinum kjörum fátækrar verkamannafjölskyldu og húsnæðisskortinum sem alþýðufólk mátti búa við þá og á eftirstríðsárunum. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1952 hóf hann nám í læknisfræði við Háskóla Íslands en lauk ekki prófi. Eftir starfslok lauk hann sagnfræðinámi við Háskóla Íslands.

Bókin hápunktur á ævistarfi

Hugsjón hans var að efnalítið fólk ætti raunhæfan kost á góðu og öruggu húsnæði fyrir sig og sína og gætti þess í störfum hans í opinbera þágu. Hann lagði einnig mikla áherslu á gildi menntunar fyrir alla. Hann sýndi það á sjálfum sér í verki því eftir starfslok lét hann draum sinn rætast og settist að nýju á skólabekk við Háskóla Íslands. Sigurði var ómetanlegt að fá tækifæri til að stunda nám í sagnfræði þótt á eftirlaunaaldri væri. Hann lagði sig allan fram og naut þess til hins ítrasta. Ef kostur var á valdi hann sér verkefni sem sneru að kjörum og aðstæðum alþýðunnar og verkafólks á fyrri tíð og lokaritgerðir hans við skólann fjalla um slík efni. Bók sú sem hér kemur fyrir sjónir er því endapunktur, og um leið hápunkturinn, á lífi og ævistarfi hugsjónamanns.

Barátta fyrir félagstryggingum

Heiti bókarinnar er hið sama og heiti ritgerðar Sigurðar „Öryggi þjóðar frá vöggu til grafar. Þættir úr sögu velferðarmála 1889 til 1946.“ Þar rekur Sigurður þróun félagstrygginga og velferðarmála á Íslandi frá fyrstu settu félagstryggingarlögunum, allt frá Ellistyrktarsjóði alþýðu árið 1889, félagslegar umbætur og framfarir þar að lútandi fram til ársins 1947. Áherslan er á aðstöðu alþýðu manna, einkum við sjóinn, aðdraganda og baráttu fyrir félagstryggingum þeim til handa. Hann rekur einnig þróun í löggjöf um húsnæðismál og skipulagsmál. Í allri umfjöllun er dregin upp mynd af straumum, stefnum og lagasetningu erlendis frá og áhrifum þeirra hérlendis. Þar á meðal samskiptunum við Dani. Í upphafskafla bókarinnar dregur Sigurður upp mynd af hvernig himinn og haf hafi aðskilið sambandslöndin tvö, Danmörku og Ísland, í velferðarmálum um og eftir aldamótin 1900. Í Danmörku var það viðhorf ríkjandi að sú þjóð gæti ekki talist menningarþjóð sem ekki byði þegnum sínum almennt upp á viðunandi tryggingar á lífsleiðinni. Það sjónarmið var þá óþekkt á Íslandi.

Bjarndís Júlíusdóttir, Sigurður E. Guðmundsson og Kristrún Jónsdóttir. Þær Bjarndís og Kristrún voru samstarfskonur Sigurðar til margra ára.
Mynd Gísli Egill Hrafnsson.

Tengsl við Evrópu 

Sjálfur lýsti Sigurður rannsókn sinni og viðfangsefni. Sagði hana fjalla um mikilvægan hluta af íslenskri þjóðfélagsþróun en er jafnframt í tengslum við kenningar og rannsóknir erlendra vísindamanna og fræðimanna, bæði norrænna, þýzkra og engilsaxneskra, sem og vísindamanna af ýmsu öðru þjóðerni. Hann tiltekur ýmsar lagasetningar í Evrópu er haft hafi áhrif í þá átt að auka öryggi og lífsgæði fólks. Hann bendir á að Velferðarþróun hérlendis á fyrri hluta 20. aldar og segir hana hafa verið í hugmyndafræðilegum tengslum við evrópskar kenninga- og lagasmíð. Hann greinir einnig frá lagasetningu hér á landi á fyrri hluta liðinnar aldar, sem sett var almenningi til hagsbóta og kryfjar hana til mergjar eftir því sem unnt er. Hann segir að margar af mikilvægustu greinum hennar, til dæmis varðandi svefnrétt togaraháseta eða vökulögin, slysa- og dánarbætur vinnandi fólks, framfærslueyri ekkna og föðurlausra barna, eftirlaun gamals fólks, húsnæðisbyltinguna 1928 til 1970, sjúkrahjálp, sjúkrasamlög og læknishjálp, og margt fleira hafa flest skipt sköpum fyrir allan almenning. Með allri þessari löggjöf hafi verið reistir þeir innviðir er síðan hafi verið burðarstólpar velferðar hérlendis.

Allir jafnir og snúi bökum saman

Í bókinni fjallar Sigurður meðal annars um boðskap Per Albin Hansson um þjóðarheimilið. Per Albin Hansson var forsætisráðherra Svíþjóðar, sem gerði hina víðkunnu og áhrifamiklu þjóðfélagshugsjón um ,,þjóðarheimilið“ – Folkhemmet Sverige að umtalsefni í frægri ræðu, sem hann hélt í sænska ríkisþinginu 18. janúar 1928. Hann líkti þjóðinni við fjölskyldu á stóru heimili, þar sem allir væru jafnir og allir sneru bökum saman. Per Albin sagði að grundvöllur heimilisins væri samstaðan og samkenndin. Á góðu heimili þekkust hvorki forréttindi né afskipti, engin dekurbörn eða stjúpbörn. Enginn líti niður á annan, enginn reyni að hagnast á kostnað annarra, hinn sterki beiti ekki afli og ræni ekki þann, sem er veikburða. Á góðu heimili er jafnrétti, umhyggja, samvinna og hjálpsemi alls ráðandi. Á hinu stóra heimili þjóðar og samborgara myndu þessi gildi brjóta niður alla þá félagslegu og efnahagslegu múra, sem nú skilja þegnana að í hópa þeirra, sem njóta forréttinda eða eru afskiptir, eru drottnandi eða öðrum háðir, í ríka og fátæka.

Stétt með stétt í sta stétt gegn stétt

Í bók Sigurðar kemur fram að þessi hugmyndafræði hafi ekki verið ný af nálinni í Svíþjóð, þótt Per Albin Hansson hafi gerst fremsti og áhrifamesti boðberi hennar á þriðja og fjórða áratugnum. Hún hafi áður náð fram í röðum hægri manna þar í landi snemma á öldinni. Þeir boðuðu stéttasamvinnu eða ,,stétt með stétt“ í stað stéttaátaka eða líkt og Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi boðaði á árum áður. Þetta var ákveðið andsvar við þjóðfélagsbaráttu og stéttastríði alþýðusamtakanna.

Meinsemdirnar fimm

Sigurður fjallar einnig rækilega um kenningar William Henry Beveridge í bókinni. Kjarninn í kenningum Beveridge var sá, að tryggja bæri bresku þjóðinni öryggi frá vöggu til grafar. Hún væri þjökuð af fimm alvarlegum meinsemdum, sem yrði að nema brott. Hin fyrsta væri skortur á lífsgæðum og hvers kyns nauðsynjum almennings, önnur væri sjúkdómar og skortur á heilsugæslu, hin þriðja menntunarskortur og fáfræði, sú fjórða volæði vegna ófremdarástands í húsnæðis- og skipulagsmálum og hin fimmta væri  atvinnuskortur. Beveridge kvað nauðsynlegt að útrýma meinsemdunum fimm til að tryggja velferð almennings og búa þjóðinni betri framtíð. Það yrði best gert með því að lögfesta öryggisáætlun þá, er hann hefði gert tillögur um, en grundvöllur hennar væri útrýming atvinnuleysis og tryggja atvinna öllum landsmönnum til handa. Það væri mikilvægasta, erfiðasta og um leið brýnasta úrlausnarefni samfélagsins, er stríðinu lyki, enda hvíldu allar aðrar endurbætur á því. Þegar allir hefðu nokkuð að iðja væri atvinnuleysið úr sögunni og fjárhagslegur grundvöllur jafnframt fenginn fyrir almennri læknisþjónustu og öflugri heilsugæslu, aukinni menntun og útrýming fáfræði, hærri skólaskyldualdri og fjölgun skóla, því að öllum börnum yrði að veita jöfn tækifæri til menntunar. Útgefandi bókarinnar er Hið íslenska bókmenntafélag.

You may also like...