Af fólki er fór utan leiðar í Vesturbæ og víðar

Læknanemar við líkskurð um 1890. Myndin er trúlega erlend en oft var fjör þegar þeir söfnuðust saman til að krukka í lík og veigar voru hafðar um hönd. 

Neðst við Vesturgötuna á horni Aðalstrætis og Vesturgötu og upp að Garðastræti og einnig inn í Suðurgötu bjó um aldamótin 1900 fólk sem sumt hvert gekk nokkuð utan alfaraleiðar. Var eftirtektarvert fyrir ýmissa hluta sakir. Framkomu, klæðaburð og öðru sem daglegu líferni horfir. Oft átti þetta fólk við einhverskonar veikindi að stríða sem almenningur bar takmarkað skynbragð á. Þetta fólk vakti athygli. Stundum fundu rithöfundar og listamenn í því fyrirmyndir til verka sinna.

Þegar Halldór Laxnes skrifaði Brekkukotsannál mun hann hafa horft til fólks sem bjó þar sem nú er neðsti hluti Suðurgötu og tengdist einnig neðsta hluta Vesturgötunnar. Magnús í Melkoti er talin fyrirmynd að Birni í Brekkukoti en kona hans var ömmusystir Halldórs. Melkots er ekki getið í heimildum frá 1703 en finna má fyrstu heimildir um það á síðari hluta 18. aldar. Melkot var rifið árið 1915 og mun hafa verið búið þar í um 200 ár.  

Kaptein Hogesen

Að minnsta kosti ein önnur persóna í Brekkukotsannál mun eiga upptök sín neðst í gamla Vesturbænum á svæðinu á milli Hlíðarhúsa og Aðalstrætis. Í Dúkskoti var til húsa eldri maður hjá Jóni hafnsögumanni sem þar bjó. Að sögn hávaxinn en nokkuð lotinn í herðum með sítt grátt hár og gisið kragaskegg. Útlit hans vakti athygli því hann var jafnan klæddur hálfsíðum klæðisfrakka en ekki vaðmálsflík eins og algengast var með gylltum hnöppum. Var nokkuð keikur í göngulagi og ljóst að hann fann talsvert til sín. Þessi roskni maður kallaði sig jafnan Hogesen en hét Kristján Hákonarson. Hann kvaðst hafa fengið Hogesensnafnið og frakkann hjá útendum skipstjóra vegna starfs síns sem hafnsögumaður við að koma skipi hans heilu í höfn. Kristján mun jafnan hafa verið drjúgur yfir þessu afreki þótt óvíst megi telja að hann hafði unnið til þess á nokkurn hátt. Fremur var talið að erlendir menn hefði gefið honum frakkann og uppnefnd hann á dönsku til að draga dár að honum. Fullvíst er talið að Kristján sé fyrirmynd Halldórs Laxness að Kaftein Hogesen í Brekkukotsannál. Í skáldlegum meðförum Laxness hafði Hogesen hlotið nokkra upphefð. Hann hafði verið leiðsögumaður danskra sjómælingamanna á Breiðafirði stað þangað sem hann hafði trúlega aldrei komið. Í Brekkukotsannál er einnig sagt frá því að Hogesen hafi farið á hverjum nýársdegi upp í Næpu á fund landshöfðingja til að fara með bænaskrá fyrir Íslands hönd og þiggja staup af brennivíni. Landshöfðingi á þá að hafa sagt við hann að hann væri nú eini íslenski sjóherinn.

Melkot sem talin er fyrirmynd að Brekkukoti Halldórs Laxness.

Eiríkur frá Brúnum

Fleiri kynlegir kvistir bjuggu á þessum slóðum. Einn þeirra var Eiríkur Ólafsson oftast kallaður Eiríkur frá Brúnum. Hann bjó að Brúnum undir Eyjafjöllum í 23 ár en fór þá til Kaupmannahafnar. Eiríkur fór síðan til Utah í Bandaríkjunum árið 1881 og dvaldi þar í átta ár. Gerðist mormóni en gekk síðan af trúnni. Kom heim og dvaldist í Reykjavík til aldamótaársins 1900 er hann lést. Eiríkur er fyrirmynd Halldórs Laxness að Steinari í Hlíðum undir Steinahlíðum í bókinni Paradísarheimt. Þórbergur Þórðarson fjallaði einnig um ævi Eiríks í kaflanum Bókfell aldanna. Eiríkur hafði einu sinni verið íbúi í Bergshúsi. Bergshús var aðeins ofar í reykvísku byggðinni. Það stóð þar sem Bergstaðastræti og Skólavörðustígur mætast. Alexíus Árnason lögregluþjónn reisti húsið í kringum 1865 en það var lengst kennt við Berg Þorleifsson söðlasmið sem átti það í næstum hálfa öld. Þar var Þórbergur leigjandi um tíma og mun hafa kynnst Eiríki.

Ástarsorgin mikla

Sæfinnur með sextán skó. Þekktastur vatnsberanna og bugaður af ástarsorg.

Fyrir daga vatnsveitu í Reykjavík var hópur sem nefndist vatnsberar. Þeir höfðu þann starfa að sækja vatn í svokallaða vatnspósta sem settir höfðu verið upp við brunna. Einn þeirra var nefndur Ingólfsbrunnur við Aðalstræti. Ingólfsbrunnur var á milli húsanna Aðalstrætis 7 og 9 og var eitt aðalvatnsból Reykjavíkur um langt skeið. Í liði vatnsberanna var margt sérkennilegt fólk karlar og konur. Sumt af þessu fólki var bæði vanheilt og þroskaskert og hafði ýmsa kæki, sem gerði það öðruvísi en aðra. Flestir vatnsberarnir voru nefndir styttum nöfnum og án föðurnafns, en höfðu í þess stað auknefni eða kenningarnöfn. Sæfinnur Hannesson eða Sæfinnur með sextán skó var einn þeirra þekktastur. Sæfinnur fæddist að Björk í Flóa hinn 1. júní 1826 og var fyrsta barn hjónanna Guðlaugar Sæfinnsdóttur og Hannesar Guðmundssonar. Hann ólst upp í föðurhúsum til 18 ára aldurs. Sæfinnur var sagður hafa verið venjulegur unglingur, vel gefinn og myndarlegur. Hvað svo gerðist veit ef til vill enginn. Sagan segir að stóra ástin í lífi hans hafi svikið hann í tryggðum. Sæfinnur gat ekki horfst í augu við staðreyndir og beið þess allt sitt líf að hún kæmi til baka. Hann fór til Reykjavíkur. Stundaði vatnsburð og safnaði að sér nokkru drasli. Viðurnefnið fékk hann af því að hann klæddist oft flíkun utan yfir aðrar flíkur og skó utan yfir skó. Sæfinnur bjó í útihúsi við Glasgow-verslunina þangað sem hann dró að ýmsa muni. Hann vildi vera viðbúinn ef ástin hans kæmi til baka og búa henni heimili. Þegar Þórður Guðmundsson frá Engey keypti húsið vildi hann koma Sæfinni burt enda þótti lítill þrifnaður af vatnsberanum og slæman þef leggja frá vistarveru hans. Sæfinnur þráaðist við og fór svo að lokum að Þórður kærði hann fyrir Halldóri Daníelssyni bæjarfógeta. Halldór fékk nokkra menn til að rífa niður ruslahauginn í klefa Sæfinns og flytja bústang hans niður í sjó. Hann brotnaði endanlega þegar fleti hans og eigum var hent í nærliggjandi fjöru 10. júlí 1890. Eftir það sást til hans í fjörunni við að reyna að tína saman leifar af dóti sínu enn með hugann við að unnustan myndi koma til hans. Sæfinnur lést árið 1896.

Loff Malakoff

Þórður Árnason var einn af þeim kynlegu kvistum sem héldu til á mörkum Mið- og Vesturbæjarins. Hann var jafnan auðkenndur með heitinu Almala. Margar sögur gengu manna á meðal um afreksverk hans á blómaskeiði ævinnar. Hann var nokkuð ölkær og tíður gestur í þeirri veitingastofu gömlu húsanna við Aðalstræti sem almenningur kallaði Svínastíu. Hugmyndir um vínbann á Íslandi mun eiga rætur til drykkjusiða landans á þessari alræmdu krá. Árið 1904 ákvað bæjarstjórnin í Reykjavík að Læknaskólinn fengi að nota lík fátæklinga í bænum til krufninga í kennslu. Vandræði urðu þó fljótt að fá lík til krufningar. Fólk vildi ekki leyfa læknavísindunum að krukka í ástvini sína látna. Læknar gerðu þá samning við Þórð um að þeir fengju að kryfja hann að honum látnum í staðinn fyrir brennivínsflösku. Dag nokkurn fréttist af Þórði dauðum í verslun í bænum. Læknar þustu niður eftir til að sækja hann. En þá reis hann upp. Hafði bara verið brennivínsdauður. Þá orti Björn M. Ólsen síðar rektor Menntaskólans kvæðið Loff Malakoff. Þórður dó 1897 og var krufinn í líkhúsinu. Fyrsta erindi kvæðis Björns er á þessa leið.

Þótt deyi aðrir dánumenn,

loff- Malakoff,

hann Þórður gamli þraukar enn.

Loff Malakoff – mala,

lifir enn hann Malakoff

þótt læknar vilji flensa’ í

Malakoff, koff, koff

Þá lifir Malakoff,

þá lifir Malakoff.

Kvæðið varð eins konar dægurlagavísa. Auknefni Þórðar breyttist í munni manna. Hann síðan nefndur: Þórður Malakoff. Kvæðið er með sama lagi og danska skopvísan: „Malabrock er död i Krigen”. Mun Malabrock þessi hafa verið pólskur eða rússneskur herforingi. Sagan segir að læknanemar hafi verið hátt á aðra viku að fást við skrokkinn af Þórði. Vínföng munu hafa verið borin upp í Líkhús og læknanemar héldu ræður yfir líkamspörtunum á allt að sjö tungumálum. Ingólfur Gíslason læknir segir í minningum sínum. „Við Jónas Kristjánsson kistulögðum svo leifar Þórðar Malakoff og vonum að hann rísi upp heill á himnum þótt hann væri nokkuð laus í böndunum er við sáum hann síðast.“

Séð til norðurs frá Tjörninni á dögum vatnsberanna. Dómkirkjan, Lærði skólinn nú MR og stjórnarráðshúsið eru á sínum stað. Dómkirkjan í Reykjavík var vígð árið 1796 og var fyrsta byggingin sem reist var sérstaklega með tilliti til þess að Reykjavík skyldi verða höfuðstaður landsins.

Rómanir í Reykjavík

Fólk af erlendum uppruna er ekki nýlunda hér á landi. Við Hlíðarhúsastíginn sem er neðsti hluti Vesturgötu var eitt af allra hrörlegustu kotunum í Vesturbænum og hét Helluland. Í þessu hreysi átti heima kona sem var kölluð Rómanía. Ekki er vitað til að hún hafi átt eiginmann eða börn. Hún var sögð nokkuð gild, lág vexti, dálítið lotin í herðum og með mikið hrafnsvart hár sem hélt litnum þrátt fyrir aldurinn. Augun voru móbrún og tinnuhvöss, og eins og gneistaði af þeim ef hún skipti skapi. Andlitið var kringluleitt og smáhrukkótt. Andlitslitur hennar var gulbrúnn. Hún gat tæpast verið af norrænu bergi brotin. Hún þótti skaphörð og óvægin í orðum og athöfnum. Margir trúðu því að Rómanía væri göldrótt og að bölbænir hennar yrðu að áhrínsorðum. Á þessum tíma kom önnur kona við og við í bæinn. Hún var kölluð Manga dauðablóð. Hún mun hafa verið á fimmtugsaldri með tinnusvart hár og skolbrúnt andlit. Ónorræn að útliti. Manga var í meðallagi á vöxt, beinvaxin og bar höfuðið hátt. Hún var skartgjörn. Hafði mikið dálæti á skærum litum, og notaði því marglitan höfuðklút, grænt slifsi og rauða svuntu. Hún mun hafa átt einhverja kunningja í bænum, sem hún heimsótti, því að aldrei sníkti hún í húsum eða á götum úti. Af lýsingum á þessum konum má draga þá ályktun að þær hafi verið af ættum rómafólks sem stundum hefur verið kallað sígaunar hér á landi. Rómanir hafa verið flökkuþjóð. Trúlega hafa menn af ættum rómana komið hingað til lands – hugsanlega með frönskum fiskiskipum og náð að kasta sæði í fróan veg á meðan skipin lágu við festu.

Vatnsberar í Reykjavík um aldamótin 1900. Vera má að þarna fari Gvendur Vísir og Álfrún vatnskerling. Sérkennilegt par eða ekki par.

Gvendur Vísir og Álfrún vatnskerling

Í næstvestasta Hlíðarhúsabænum sem var kallaður Sund bjuggu saman Gvendur Vísir og Álfrún vatnskerling. Vísis nafnið fékk Guðmundur vegna þess að hann var um tíma aðstoðarmaður hjá Skotfélagi Reykjavíkur. Hann þótti seinlátur og lítt vinnugefinn. Álfrún var grannholda og fremur lág vexti, kvik á fæti og hin mesta áhugamanneskja í starfi sínu. Hún stundaði vatnsburð frá Prentsmiðjupóstinum til margra heimila í Miðbænum og Grjótaþorpinu. Hún naut stundum aðstoðar Guðmundar þegar annasamt var. Gekk oftast á undan honum og leit oft við til þess að hvetja hann áfram. Hún kunni illa seinagangi hans. Ekki er vitað hvert sambúðarform þeirra var en ekki voru það eintóm ástarorð sem hún talaði til Guðmundar. Þau dugðu þó illa því að maðurinn var hinn mesti letingi.

Símon Dalaskáld

Símon Dalaskáld  svaraði yfirleitt fyrir sig þegar á hann var deilt. Hann freistast meira að segja til að svara eigin andlátsfregn.

Ýmsir fleiri sérlundaðir einstaklingar áttu sér dvalarstað á þessum slóðum um lengri eða skemmri tíma. Einn þeirra var Símon Bjarnason. Hann tók sér snemma kenningarnafnið Dalaskáld og kenndi sig við Skagafjarðardali. Hann var fæddur 1844 í Blönduhlíð og lifði til 1916. Símon var elstur af 13 systkinum. Hann fór að heiman fljótlega eftir fermingu og var í vinnumennsku í Skagafjarðardölum. Hann giftist og átti börn sem öll dóu ung nema eitt. Hann fékkst um tíma við búhokur en var þó mest í ferðalögum. Hann fór um allt land og seldi ritverk sín og fleira. Hann var ekki umrenningur eða betlari. Miklu fremur skemmtikraftur sem ferðaðist um og stytti fólki stundir. Hann hafði ekki fastan gistingarstað í Reykjavík en átti þó víða innhlaup hjá fornum kunningjum, eftir því sem honum sjálfum sagðist frá. Margar sögur eru til af Símoni. Ein er sú að eitt sinn mun hann hafa komið að morgni dags í Landsprentsmiðjuna við Aðalstræti þræl timbraður. Hann sagðist hafa skotist inn í hlöðuna hjá blessuninni honum séra Þórhalli í Laufási. Oft minntist hann á góðan viðurgerning við sig á Laufásheimilinu. Þennan morgunn þótti prentsmiðjumönnum Símon vera með einkennilegan trefil um hálsinn og spurðu hann hvar hann hefði fengið hann. Sagðist hann hafa gripið hann einhvers staðar þar sem hann hefði komið um kvöldið því að sér hefði verið orðið kalt. Rakti hann svo þetta af hálsinum og kom þá í ljós að það voru kvenbuxur úr rauðu flúneli. Kveðskapur Símonar fór fyrir brjóstið á sumum. “Landhreinsun mikil má það teljast í bókmenntum vorum, ef að það er sönn fregn, er oss hefir munnlega borizt, að ið alræmda leirskáld Símon Bjarnarson, er kallaði sig sjálfur „Dala-skáld,“ sé látinn.“ Á þessum orðum hóf Jón Ólafsson ritstjóri dánarfregn sem hann birti í blaði sínu Skuld þann 1. nóvember 1877. Þess má geta að Símon var um þrítugt og snarlifandi þegar þessu orð voru rituð. Ritháttur sem þessi varð ekki til með samfélagsmiðlum nútímans.

Svo tóku vistheimilin við

Hér er aðeins minnst á fáa af því sérkennilega fólki sem tengdist horninu á mótum Aðalstrætis og Vesturgötu með einhverju móti. Þetta sýnir að sumt fólk hefur alltaf haft tilhneigingu af ýmsum ástæðum til þess að fara utan alfaraleiðar. Þegar byggðin tók á sig meira borgarform þótti ýmum nauðsynlegt að fjarlægja þetta fólk úr húsaskrífum og af götum. Þá hófst saga vistheimilanna sem enn þann dag í dag eru að berast fregnir af hvernig farið var með fólk. Ef til vill leið því ekkert verr frjálsu á ráfi um götur bæjarins.

You may also like...