Sjálfbærni í Samfélagshúsinu Aflagranda 40
Félagsstarf Samfélagshússins er að mestu sjálfbært, sem þýðir að fólkið sem sækir Samfélagshúsið fær hugmynd að starfi og heldur utan um það. Við bjóðum upp á margskonar starf fyrir alla hópa og erum alltaf opin fyrir nýjum hugmyndum og áskorunum. Ukulelehópurinn hennar Huldur Emils er gott dæmi um sjálfbært félagsstarf. Huldu langaði að stofna hér Ukulelehóp eins og hún hafði verið í á Hawaii og úr varð þessi flotti hópur sem æfir hér saman alla fimmtudagsmorgna opinn öllum. Hægt er að fá lánað hljóðfæri til að koma sér af stað.
Hér í húsi eru margir hópar eins og Ukulelehópurinn þar sem hugmynd kemur frá einstaklingi sem kemur starfinu af stað með aðstoð starfsfólks og eru svo einstaklingarnir í sjálfboðavinnu við að halda utan um starfið og halda því gangandi. Bókaspjall Hrafns Jökulssonar og Söngstund Helgu Gunnarsdóttur eru bæði sjálfbær, koma þau til okkar alla miðvikudaga og er alltaf jafn dásamlegt að fá þau í hús.
Foreldramorgnar í nokkur ár
Hér í húsi voru foreldramorgnar í nokkur ár og finnum við þörfina til að bjóða upp á þennan vettvang á ný. Nú ætlum við að bjóða í morgunkaffi þar sem allir eru velkomnir. Stefnan er að taka á móti nýjum íbúum í hverfinu okkar opnum örmum og sjáum fyrir okkur að Samfélagshús hverfisins sé kjörinn staður til hittinga. Morgunkaffið mun hefjast á næstu vikum og verður það auglýst á facebooksíðu Samfélagshússins.
Líf og skemmtilegheit alla daga
Félagsstarf Samfélagshússins er öflugt bæði á hefðbundnum opnunartíma milli kl. 9:00 og 15:45 en einnig iðar húsið af lífi eftir lokun þar sem meðal annars eru jógahópar, Dungens and dragons klúbbur, Leynileikhúsið og Spunahópur í húsinu. Alltaf má bæta við meira starfi og hvetjum við Vesturbæinga til að hafa samband, ef þið hafið starf í huga eða vantar húsnæði undir hópastarf. Við leggjum okkur allar fram við að koma starfi fyrir í húsinu okkar og viljum við sjá það iða af lífi og skemmtun alla daga. Hvetjum við ykkur til að finna okkur á facebook undir Samfélagshúsið Aflagranda 40 og má þar hafa samband við okkur og líka í síma 411 2701.
Komið og njótið.
Sirí og Helga.