Rótarýklúbburinn gróðursetti í Heiðmörk
Rótarýklúbburinn Reykjavík-Breiðholt er einn þeirra félagasamtaka sem hefur skógræktarstarf á verkefnaskrá sinni. Breiðholtsklúbburinn fékk úthlutað skógræktarreit í Heiðmörkinni fyrir um það bil 35 árum. Stór hluti af reitnum er þakinn skógi í dag en árlega eru gróðursettar plöntur. Árlega fara félagar úr klúbbnum ásamt mökum og börnum í skógræktarreit sinn í Heiðmörk og gróðursetja. Ferðin í ár var undirbúin af Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, formanni ferðanefndar og Sigurði Bjarnasyni.
Með í förinni var Auður Kjartansdóttir, sem á síðasta ári tók við sem framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur. Hún kynnti félögum og gestum stöðu mála vegna brunans nýlega í Heiðmörkinni, en stór hluti af gróðursetningarsvæði þar eyðilagðist eða skemmdist verulega. Reitur klúbbsins varð ekki fyrir skemmdum. Þorsteinn Tómasson, félagi í klúbbnum og landsþekktur skógræktarmaður hafði að vanda meðferðis plöntur sem hann hafði ræktað og félagsmenn, makar og börn gróðursettu.