Breiðholtið hefur breyst mikið

– orðið að fjölþjóðlegu samfélagi, segir séra Guðmundur Karl Ágústsson sóknarprestur sem nú lætur af starfi eftir 33 ára þjónustu í Fella- og hólaprestakalli  –

Séra Guðmundur Karl Ágústsson sóknarprestur í Fella- og Hólaprestakalli.

Séra Guðmundur Karl Ágústsson sóknarprestur í Fella- og Hólakirkju mun láta af störfum í apríl. Hann hefur verið sóknarprestur í Hólabrekkuprestakalli frá 30. júlí 1987 en starfaði áður sem prestur í Ólafsvíkurprestakalli frá 1. júlí 1981. Guðmundur Karl varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1975 og Cand. theol. frá Háskóla Íslands 28. júní 1980. Hann hefur haft forystu í kirkjustarfi Fella- og Hólakirkju ásamt vösku samstarfsfólki sínu. Starfið hefur verið fjölbreytilegt og stöðugt, æskulýðsstarf, unglingastarf og starf fyrir eldri borgara. Bryddað hefur verið upp á nýjungum eins og karlakaffi síðasta föstudag hvers mánaðar. Alltaf er einhverjum gesti boðið sem ræðir við karlahópinn og verða oft fjörlegar umræður, sér í lagi ef gesturinn hefur verið úr röðum eldri stjórnmálamanna sem kemur fyrir. Þessi nýjung hefur gefið góða raun. Kaffistundir þessar hafa verið vel sóttar og ekki aðeins af sóknarkörlum úr Fella- og Hólasókn heldur líka af körlum úr öðrum sóknum. Breiðholtsblaðið settist niður með Guðmundi Karli einn morgunn um daginn.

Fyrst barst talið að því hvenær hafi hvarflað að honum að gerast prestur. „Ég er alinn upp í Laugarnesinu og starfaði talsvert með KFUM og KSS sem eru kristileg skólasamtök á yngri árum. Þar fékk ég fyrstu tilfinninguna fyrir því að gerast prestur. Ég hafði líka mikinn áhuga á jarðfræði og var að hugsa um að fara í nám í henni. Þessar hugleiðingar mínar enduðu þó á að sækja um nám í guðfræði án þess þó að hafa tekið neina ákvörðun um að gerast prestur. Þetta endaði þó þannig að námi loknu ákvað ég að gerast prestur og hóf prestskap í Ólafsvík, Hellissandi og Rifi ungur að aldri aðeins 27 ára gamall. Ég man að ég þurfti að vera með gott skegg til þess að líta aðeins eldri út. Ég var svolítið barnalegur þá en út af skegginu fóru sumir að kalla mig hippaprest enda hippaárin í algleymingi þá. Sumum eldri borgurunum á Snæfellsnesi leist ekki nægilega vel á hvað ég var loðinn í framan.

Gott að starfa í Ólafsvík

En hvernig var annars í Ólafsvík. „Ólafsvík er fínn staður og það var gott að starfa þar. Ég var eðlilega svolítið blautur á bak við eyrun en kynntist fljótt góðu fólki. Fólkið sem var í sóknarnefnd var mér hjálplegt að stíga fyrstu skrefin. Þau leiðbeindu mér og hjálpuðu sem var ómetanlegt fyrir ungan og óreyndan mann. Þetta fólk varð fljótt vinir manns. Það var gott að þjóna bæði í Ólafsvík og Hellissandi. Svo þjónaði ég líka á Brimilsvöllum sem var lítið sókn í Fróðárhreppi á utanverðu Snæfellsnesi. Alexander Stefánsson alþingismaður var einn aðalmaðurinn í Ólafsvík og líka í kirkjustarfinu. Hrefna Bjarnadóttir sem tók þar við af honum reyndist mér líka frábærlega vel.“

Sjóslysið tók á

Guðmundur minnist samgangnanna á milli byggðarlaganna. „Þetta var áður nýi vegurinn fyrir Ólafsvíkurennið kom og stundum gat verið erfitt að komast á milli. Ég man eftir að hafa þurft að gista á Hellissandi þegar ófært var á milli. Á þessum tíma bjuggu um 1200 manns í Ólafsvík og helmingi færri eða um 600 á Hellissandi og Rifi.“ Guðmundur segir að þótt Rifið væri fámennasta byggðin þá hafi hún skipt miklu máli. Það hafi komið til út af höfninni. „Það var gott hafnarstæði Rifi og ríkið byggði landshöfn , sem var mjög gott fyrir byggðina og einkum sjávarútveginn.“ Guðmundur segir að lífið fyrir vestan hafi ekki alltaf verið dans á rósum. „Þegar ég var prestur í Ólafsvík fórst bátur með fimm manns. Þetta var mikið áfall en samfélagið stóð þétt saman og fólk studdi hvort annað. Ég fékk líka mikinn stuðning og uppörvun frá samfélaginu þegar ég þurfti að fást við þetta mál. Ég þurfti sem prestur að fara inn á heimili þar sem sorgin hafði knúið dyra og risti djúpt. Þá var gott að hafa stuðning samfélagsins.“ 

Hann söng, söng og söng

Ég minnist þess líka að þegar ég var eitt sinn að jarða á Hellnum sem eru hinum megin við jökulinn. Þegar athöfninni var lokið var farið út í grafreitinn með líkkistuna. Sóknarnefndarformaðurinn þar sem hét Finnbogi var vanur að syngja yfir þeim sem voru lagðir þar niður. Hann söng og hann söng og það var sungið áfram í drjúgan tíma. Veðrið var með verra móti. Hríðarveður og eiginlega brjálað. Flestum var orðið kalt og aðstandendur hins látna voru farnir að pikka í mig og spyrja hvort þeir ættu að deyja þarna líka. En það slapp allt til. Það fraus enginn í hel. Í Ólafsvík hafði einn armurinn í krossinum efst á kirkjunni brotnað. Það þurfti að fá stóran krana til að koma svo hægt væri að laga þetta. Það kom talsvert af ferðamönnum til Ólafsvíkur og eitt sinn voru nokkrir Ameríkanar á ferð. Ein konan í hópnum spurði mig af hverju væri einn armur á krossinum. Þá sagði ég í stríðni minni að hér í Ólafsvík væri því trúað að Jesú hafi verið eineygur.  

Sumum fannst ég vera að fara beint í dauðann

Svo hefur komið að því að þú fórst að hugsa um að breyta til. „Já, þótt mér líkaði vel í Ólafsvík og það væri mikil lífsreynsla þá hafði ég aldrei hugsað mér að setjast þar að um alla lífstíð. Við hjónin ákváðum að flytjast suður. Fyrst sótti ég um prestsstarf í Neðra Breiðholti. Ég gekk í hvert einasta hús til að kynna mig og segja frá mér. Séra Gísli Jónasson hlaut hnossið en ég sótti síðan um Fella og hólaprestakall ári síðar og fékk 1987 og hef verið hér síðan. Ég man að þegar ég hafi fengið starf sóknarprests í Fella- og Hólaprestakalli fannst sumum vinum mínum í Ólafsvík að ég væri að fara beint í dauðann. Svona var talað um Breiðholtið og ef til vill einkum það efra. Það var álitið að hættulegt væri að vera þar. En það kom mér því verulega á óvart þegar ég fór að kynnast fólkinu sem þar bjó hvað þetta var gott fólk. Ég var með langt yfir 100 börn í fermingarfræðslu í safnaðarheimilinu. Þessi börn voru til fyrirmyndar. Ég var mjög afslappaður með þeim og þegar ég fermdi þau um vorið var kirkjan tilbúin. Hún var vígð 1988.“

Fólk hafði minna á milli handanna

Guðmundur Karl segir að þótt Breiðholt hafi haft misjafnt orð á sér á þessum tíma hafi hann ekki hafa fundið mikið fyrir vandamálum sem oft var rætt um. „Maður fann helst fyrir að fólk hafði ekki eins mikið á milli handanna og fyrir vestan þar sem flest snerist um sjóinn og sjávaraflann. Útvegsfólk og sjómenn höfðu það oft betra en fólk sem sest hafði að í Efra Breiðholti. Það var tekið vel á móti mér. Ég starfaði fyrst með séra Hreini Hjartarsyni. Við sameinuðum sóknarnefndarinnar sem voru tvær og lögðum mikla áherslu á æskulýðsstarf. Hér hafa margir góðir æskulýðsfulltrúar verið við störf hjá okkur. Þegar séra Hreinn hætti kom séra Svavar Stefánsson sem hafði meðal annars verið prestur í Neskaupstað. Hann var um tíma í Þorlákshöfn og kom því ekki frá einum útvegsbæ heldur tveimur. Við vorum því með svipaða lífsreynslu að því leyti og áttum ágætt samstarf hér í kirkjunni.“

Hetja Breiðholts. Breiðhyltingar hafa tilnefnt einstaklinga, hópa, félög eða fyrirtæki sem hafa á einhvern hátt verið til fyrirmyndar eða haft jákvæð áhrif á hverfið og hverfisandann. Tilgangurinn er að þakka viðkomandi fyrir framlag til hverfisins og jafnframt að efla félagsauðinn í Breiðholti. Þau sem fá þessa viðurkenningu kallast hetjur Breiðholts. Í eitt skiptið voru 16 aðilar tilnefndir og fengu viðurkenningarskjal af því tilefni þar sem segir: Þú ert hetja. Í þeim hópi var sóknarpresturinn í Hólabrekkuprestakalli, séra. Guðmundur Karl Ágústsson.
 

Fermingarbörnum hefur fækkað

„Þótt ég sé alin upp í Laugarnesinu þá hef ég lengst af búið í Efra Breiðholti eftir að ég kom frá Ólafsvík. Ég flutti þó yfir í Kópavoginn fyrir þremur árum. Ástæða þess var þó ekki að ég væri orðinn óánægður hér eða búinn að fá nóg af Breiðholti heldur sú að ég þurfti að minnka við mig. Við bjuggum í stóru húsi í Neðstaberginu og vorum orðin tvö eftir í heimili. Við höfðum ekkert með allt þetta pláss að gera og fórum að líta í kringum okkur. Það var ekki úr mörgu að velja í Breiðholtinu svo við urðum að horfa víðar og fundum okkur ágæt raðhús í Kópavoginum fyrir meðan sundlaugina.“ Guðmundur Karl segir byggðina hafa breyst mikið á þeim tíma sem hann hefur starfað þar. „Fyrstu árin var ég með yfir 100 fermingarbörn á ári og séra Hreinn með álíka fjölda. Nú hefur flust hingað margt fólk af erlendu bergi brotið. Margt af því tilheyrir kaþólsku kirkjunni einkum fólk sem komið hefur frá Póllandi en einnig öðrum trúfélögum. Fermingarbörnum hefur því fækkað umtalsvert frá því sem áður var. Ég heyri hins vegar frá fólki sem býr hér í Breiðholti að það er almennt ánægt með fólk sem hefur flutt til landsins og sest hér að. Flestu þessu aðflutta fólki hefur tekist vel að aðlagast íslensku samfélagi. Mér finnst megin breytingin felast í þeim fjölda fólks sem hefur komið frá öðrum löndum. Þetta er orðið mjög fjölþjóðlegt samfélag. Fellaskóli er mjög blandaður og þaðan koma nú orðið fá börn í fermingarfræðslu. Af  því að við vorum að tala áðan að fólk í Breiðholti og þá kannski einkum því efra hafði haft minna á milli handa en fólk í sjávarútvegs plássum þá verður maður ekki mikið var við að þetta aðflutta fólk eigi í afkomu basli. Margt kann að fara vel með og margt af því vinnu líka vel. Stendur sig ágætlega í lífsbaráttunni. Þetta er sú sýn sem mér finnst blasa við hér í Breiðholti.“

You may also like...