Málinu fyrst hreyft fyrir rúmri hálfri öld

Frjáls útvarpsrekstur

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson ásamt Guðrúni Kristjánsdóttur konu sinni. Vilhjálmur hreyfði fyrstur manna við því að koma hér á fót frjálsum útvarpsrekstri.

Fyrir rúmri hálfri öld hófu tveir ungir menn að viðra hugmyndir um frjálsan útvarpsrekstur hér á landi en þá hafði Ríkisútvarpið haft einkarétt á útvarpsrekstri í fjóra áratugi. Á þeim tíma hafði ekki mörgum komið til hugar að breyting gæti orðið á því fyrirkomulagi. Átti það ekki síður við um ráðamenn en aðra borgara landsins. Það var ekki fyrr en fimmtán árum eftir að ungu mennirnir tveir hófu að huga að sjálfstæðum útvarpsrekstri að frjálst útvarp var viðurkennt. Lögum var breytt og frelsi kom til sögunnar. Þessir ungu og framsýnu menn á þeim tíma eru fyrrverandi borgarstjórarnir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Markús Örn Antonsson. Í spjalli við Breiðholtsblaðið rifjar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson upp þann tíma þegar þeir fengu hugmyndina að frjálsum útvarpsrekstri og hvernig þeir unnu að málinu.

Þeir lögðu nokkra vinnu í þessa hugmynd sína. Markús Örn reifaði hugmyndir sínar um einkarekstur ljósvakamiðla í samkeppni við Ríkisútvarpið í grein sem birtist í Morgunblaðinu 1970. Þeir höfðu samband við ráðamenn hjá ríki og sveitarstjórnum víða um land og ferðuðust til Bretlands til þess að kynna sér útvarpsrekstur í samkeppni við ríkisútvarp BBC. Þessi saga hefur ekki verið mikið til umfjöllunar og eflaust mörgum lítt kunn. Hún segir þó mikið til um tíðarandann á þessum árum. 

Þung dagskrá Ríkisútvarpsins

Þegar hugmynd þeirra kviknaði var ein útvarpsstöð í landinu. Ríkisútvarpið sem hóf útsendingar 20. desember 1930. Á þeim fjórum áratugum sem Ríkisútvarpið hafði þá haft einkaleyfi á útvarpssendingum hafði það sent út á einni útvarpsrás. Í fyrstu tíma úr degi en síðar heilan dag en ekki um nætur. Dagskrá Ríkisútvarpsins þótti mörgum þung. Mikið var um klassíska tónlist en fréttatímar og veðurfregnir voru á ákveðnum tímum. Einkum í hádegi og um kvöldmatartíð. Mikið hafði verið rætt um þunga tónlistarstefnu Ríkisútvarpsins þar sem léttari tónlist og hvað þá dægurtónlist átti ekki upp á borð. Hún mátti þó heyrast í óskalagaþáttum sjómanna og sjúklinga þar sem fólk á sjó og á sjúkrahúsum mátti senda óskir um ákveðin lög ásamt kveðjum til vina og vandamanna. Á Elvis tímabilinu var svo farið að senda út rokktónlist undir heitinu “Lög unga fólksins” klukkutíma í senn einu sinni í viku. Þessi klukkutíma dægurlagaþáttur var á dagskrá Ríkisútvarpsins frá 1958 til 1987 eða í tæpa tvo áratugi. Í Dagblaðinu 23. júlí 1979 mátti lesa frétt um að niðurstöður hlustendakönnunar væru algjört rothögg á klassísku tónlistina. Komið hafi á daginn að fáir hlusti á hana. Aftur á móti væri mikið hlustað á létta tónlist. Í frétt Dagblaðsins frá þeim tíma sagði m.a. að gaman verði sjá hvernig ráðamenn útvarpsins bregðist við. „Verður niðurstöðunum stungið undir stól? Verður reynt að gleyma þeim? Eða verður rækilega hreinsað til?,“ stóð í niðurlagi fréttarinnar. 

Lítið gerðist fyrr en með stofnun Rásar 2

Vilhjálmur segir að lítið hafi gerst í þessum málum fyrr en Rás 2 Ríkisútvarpsins var stofnuð 1983. Stofnun Rásar 2 hafi markað ákveðin tímamót þótt einokun ríkisins væri ekki aflétt. Einokunin hvarf ekki fyrr með nýjum lögum sem leyfðu einkareknar útvarps- og sjónvarpsstöðvar sem samþykkt voru á Alþingi 13. júní 1985 og tóku gildi í ársbyrjun 1986. Þessi lög voru samþykkt í kjölfar BSRB verkfalls sem hófst 4. október 1984 og stóð í 27 daga og hafði gríðarleg áhrif á þjóðfélagið. Útsendingar útvarps og sjónvarps stöðvuðust svo dæmi sé tekið. Þess má geta að prentarar voru einnig í verkfalli á sama tíma og því komu engir prentmiðlar út. Alger frétta- og upplýsingaþurrð var í landinu í nær mánuð og mikið var rætt var um öryggisleysi sem þetta ástand skapaði. 

Taldi Ríkisútvarpið ekki sinna staðbundinni fréttaþörf

En förum aftur til 1971 og Vilhjálmur hefur orðið. „Í júlí 1971 ritaði ég ýmsum ráðamönnum bréf og óskaði eftir persónulegri skoðun þeirra á því hvort leyfa ætti frjálsari og víðtækari útvarsprekstur og í hvaða formi hann gæti verið. Í bréfi sem ég ritaði ýmsum ráðmönnum viðraði ég hugmynd um að ég teldi tímabært að hefja umræður um þetta mál. Ég hafði í hyggju að rita ýtarlega grein um málið og taldi nauðsynlegt að kynna það með nokkrum hætti áður. Ég taldi að Ríkisútvarpið sinnti ekki staðbundinni fréttaþörf nægilega vel og heldur ekki þau landshlutablöð sem stjórnmálaflokkar voru að gefa út né dagblöðin sem gefin voru út í Reykjavík.“ 

Andrés varaði við samanburði við BBC

Voru þið með þá hugmynd að tengja hugsanlegan útvarpsrekstur við bæjarfélög og sveitarstjórnir. „Í bréfinu viðraði ég ákveðnar hugmyndir. Að eigendur útvarpsstöðva yrðu bæjarfélög og skipuðu bæjarstjórnir á viðkomandi stöðum útvarpsráð. Ég setti fram hugmynd um að útvarp á viðkomandi starfssvæði starfaði fjóra til fimm tíma á hverjum degi með fréttasendingum og auglýsingum að mestu staðbundnum auk þess að flytja blandað tónlist – bæði létta og klassíska. Einnig yrði efnt til stuttra umræðuþátta er snertu starfssvæði viðkomandi stöðva. Til fróðleiks sendi ég með bréfinu eintök af frumvarpi um frjálsan útvarpsrekstur á Bretlandseyjum sem þá hafði nýlega verið samþykkt í breska þinginu. Af þessu má sjá að ég fór varlega í sakirnar vitandi að ég var að hreyfa við viðkvæmu máli. Ég fékk svör frá mörgum og sannast sagna leist fæstum vel á hugmyndina. Í svarbréfi sem þáverandi útvarpsstjóri Andrés Björnsson sendi varaði hann eindregið við öllum samanburði við BBC breska ríkisútvarpið sem hefði að sjálfsögðu langtum umfangsmeiri rekstur en þann sem hér þekkist. Í bréfinu skrifaði Andrés m.a. að hann leyfði sér að draga í efa gagnsemi þess að útvarpsrekstri hér á landi yrði dreift í hendur fleiri aðila þótt slíkt kynni að vera eðlilegt í landi þar sem íbúar væru 250 sinnum fleiri en hér og búi flestir á þéttbýlissvæðum. Menn vildu ekki horfa út fyrir þann ramma að hér yrði bara eitt ríkisútvarp eða fannst hugmyndin um annað vera fjarlægur draumur.“

Alþingismenn tregir

Vilhjálmur sagði að vert væri að minnast þess að upphaf útvarpsrekstrar hér á landi mætti rekja til einkaaðila. Ottó B. Arnar, loftskeytamaður, hefði verið frumkvöðull á þessu sviði. „Hann gerði fyrstu tilraunir með útvarpssendingar á Íslandi veturinn 1919 til 1920 og árið 1926 átti hann frumkvæði að stofnun útvarpsstöðvarinnar Hf. Útvarp. Rekstur stöðvarinnar hafi hins vegar verið þungur og hún hætt starfsemi 1927. Þá hafði Alþingi samþykkt frumvarp um stofnun ríkisútvarps og einnig var ákveðið að ríkið myndi eiga einkarétt á sölu útvarpstækja sem var upphafið að Viðtækjaverslun ríkisins. Um 1930 þóttu útvarpssendingar framandi, jafnvel dularfullar og ótamdar og mörgum fannst hyggilegast að skella þeim undir stöðugt opinbert eftirlit. Fjörutíu árum síðar, árið 1970 þegar við Markús fórum að huga að þessu máli, hafði fólk náð að kynnast útvarpi og töldum við að tími væri því kominn til að endurskoða afstöðu okkar til útvarpsnotkunar á Íslandi. Á þessum tíma lá frumvarp til nýrra útvarpslaga fyrir Alþingi en í umræðum um málið í þinginu hafi enginn lagt þá skoðun fram að hrófla ætti við einkaleyfi Ríkisútvarpsins til reksturs hljóðvarps og sjónvarps. Hugmyndir um frjálsar útvarpsstöðvar náðu ekki inn í það enda margir alþingismenn tregir til þess að opna fyrir aðra útvarpsstarfsemi en Ríkisútvarpið.“

Aðrir aðilar æskilegir

Á þessum árum fóru fram miklar umræður um útvarpsrekstur í nágrannalöndum okkar, á Norðurlöndunum og í Bretlandi. Í greininni sem Markús skrifaði í Morgunblaðið 18. desember 1970 þar sem hann hreyfði þessu máli var hann þó ekki að leggja til að Ríkisútvarpið yrði lagt niður. Hann benti hins vegar á, að aðrir aðilar gætu lagt til æskilega viðbót í útvarpsþjónustuna. Í greininni nefndi hann að mörgum fyndist útvarpsrekstur ekki merkilegra fyrirbæri en útgáfa dagblaða en ríkisstimpill á þessari tegund fjölmiðlunar villti um fyrir fólki þannig að það teldi útvarpsreksturinn vandasamari en prentmiðlun.

Ríkisútvarpið hafði ekki heimild

Vilhjálmur kveðst hafa talið að stíga yrði fyrsta skrefið í þessu máli þannig að reynsla myndi fást af útvarpsrekstri samhliða Ríkisútvarpinu. Ríkisútvarpið hafi um árabil einokað öll skoðanaskipti í hljóðvarpi og hægt og sígandi markað þjóðmálaumræðunni ákveðinn farveg sem ekki gæti verið til góðs. „Ég taldi að rekstur útvarpsstöðva ætti að vera í höndum bæjar- og sveitarfélaga til að byrja með. Á meðan verið væri að þreifa sig áfram. Stofnkostnaður þyrfti ekki að vera mikill og auglýsingatekjur gæti staðið undir rekstrinum. Slíkar útvarpsstöðvar gætu þjappað fólki betur saman í byggðum landsins og vakið það einnig til vitundar um eigin hagsmuni. Árið 1974 var lagt fram frumvarp til nýrra útvarpslaga. Við þetta má bæta að árið 1976 sendum við Markús útvarpsráði erindi þar sem við fórum fram á að okkur yrði veitt leyfi til að reka í tilraunaskyni útvarpsstöð á höfuðborgarsvæðinu undir eftirliti Ríkisútvarpsins. Svarið var í stuttu máli að Ríkisútvarpið hefði enga heimild til að veita slíkt leyfi.“

Vilhjálmur Þ. og Markús Örn ræða saman í gegnum tölvu í aðdraganda viðtalsins en Markús Örn dvelur í Hollandi um þessar mundir.

Bretlandsferð, áhugamannafélag og endalok

Árið 1977 fóru þeir Vilhjálmur og Markús til Bretlands á eigin vegum til þess að kynna sér rekstur frjálsra útvarpsstöðva. Þá höfðu verið leyfðar 19 svokallaðar staðbundnar einkastöðvar í landinu frá árinu 1973 en fram að þeim tíma hafði BBC haft einkaleyfi á útvarpsrekstri. „Við kynntum okkur rekstur tveggja stöðva Radio Clyde í Glasgow og Radio Forth í Edinborg. Við töldum okkur þurfa að afla okkur frekari upplýsinga og þekkingar á rekstri einkarekinna útvarpsstöðva og nærtækast væri að leita til Bretlands. Bretar höfðu búið við ríkiseinokun á útvarpsrekstri fram til ársins 1973 þegar henni var aflétt. Niðurstöður okkar úr Bretlandförinni var að frjáls útvarpsrekstur væri fjölmiðlun til góðs og með henni fengi almenningur betri upplýsingar. Útvarpsstöðvar leituðust við að bjóða upp á gott efni í samkeppni um auglýsingar. Í framhaldi af þessu tókum við þátt í stofnun áhugamannafélags um frjálsan útvarpsrekstur. Tilgangur þess var að koma umræðunni um þessi mál á fastan grundvöll og til að þeim sem vildu fjalla um frjálsan útvarpsrekstur gæfist kostur á að kynna sér reynslu Breta. Umræður um þessi mál höfðu að okkar dómi byggst á vanþekkingu á staðreyndum.“ 

Breytingar komar í farvatnið

Menntamálaráðherra skipaði nefnd til að endurskoða útvarpslögin árið 1981. Markús hafði verið kjörinn í borgarstjórn Reykjavíkur árið 1970 og þegar nefndin var skipuð átti Markús sæti í útvarpsráði Ríkisútvarpsins. „Í nóvember 1981 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur tillögu hans um að beina þeirri áskorun til Alþingis að afnema einkarétt Ríkisútvarpsins til rekstrar útvarps og sjónvarps. Tillöguna lagði Markús fram í eigin nafni og greiddu allir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins henni atkvæði auk Sjafnar Sigurbjörnsdóttur, borgarfulltrúa Alþýðuflokksins. Einn af fulltrúum Alþýðubandalagsins greiddi atkvæði á móti. Aðrir borgarfulltrúar sátu hjá. Þetta var til marks um að breyting á útvarpslögum í veigamiklum atriðum var komin á umræðustig hjá stjórnmálamönnum og grundvallarbreytingar áttu fylgi að fagna.“ 

Nauðsynlegt að rifja söguna upp

Umræðan hélt áfram en það var ekki fyrr en með lögum nr. 68 frá 27. júní 1985 sem einkaréttur Ríkisútvarpsins til útvarpssendinga á Íslandi var afnumin einum og hálfum áratug eftir að þeir Vilhjálmur og Markús fóru að hreyfa við þessu máli. Yngri kynslóðir þekkja ekki Ísland án frjálsra útvarpssendinga. Mörgum af yngra fólki mun eflaust finnast fáránlegt að búið hafi verið við eina ríkisrekna útvarpsstöð sem sendi að mestu út fremur þunglamalegt talmál og klassíska tónlist fyrir aðeins um fjórum áratugum. Umhugsunarvert er að flestir ráðamenn og verulegur hluti almennings einkum þeir eldri voru tregir að víkja af þessari braut. Því er nauðsynlegt að rifja þessa baráttusögu þeirra Vilhjálms og Markúsar upp. 

You may also like...