Mannlífsbreytingarnar eru miklar

– viðtal við Gylfa Zoega prófessor í hagfræði –

Gylfi Zoega prófessor.

Gylfi Zoega prófessor spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni. Gylfi er viðskipta- og hagfræðingur frá Háskóla Íslands en hélt síðan til Bandaríkjanna þar sem hann lauk doktorsprófi í hagfræði frá Columbia University New York árið 1993. Hann starfaði um tíma sem prófessor í hagfræði við Birkbeck College í London en kom síðan heim eftir 17 ára búsetu erlendis árið 2003 og hóf störf við Háskóla Íslands. Gylfi hefur sérhæft sig í þjóðhagfræði og vinnuhagfræði en einnig látið málefni líðandi stundar, lands og þjóðar til sína taka. Hann hefur ritað fjölda greina og komið fram í viðtalsþáttum þar sem hagfræði og þjóðmál hafa verið til umfjöllunar.

Gylfi er hreinn Vesturbæingur. Fæddur á Tómasarhaga en býr nú í Granaskjóli. Hann hefur búið í Vesturbænum alla tíð að undanskildum þeim árum sem hann var við nám í New York og starfaði við kennslu í London. Foreldrar hans voru Gunnar Zoega lögiltur endurskoðandi og Hebba Herbertsdóttir. Eiginkona hans er Marta Guðrún Skúladóttir hagfræðingur og eiga þau þríburasyni þá Tómas Gylfa, Gunnar Snorra og Einar Skúla. Bróðir Gylfa er Gunnar Már, sérfræðilæknir í augnlækningum. „Það var gott að alast upp í Vesturbænum,“ segir Gylfi. „Ég hóf skólagöngu mína á leikskólanum Drafnarborg en þar var Bryndís föðursystir mín leikskólastjóri um langt árabil. Bryndís var nokkuð sérstök og ég er viss um að þeir sem komnir eru um og á miðjan aldur og nutu skólavistar við Drafnarstíginn muna eftir henni. Ég held að hún hafi um margt verið á undan sinni samtíð og helgaði sig starfinu af fremsta megni. Á skólalóðinni hafði hún ýmis atvinnutæki eins og fiskibát og vörubíl sem væru sennilega ekki leyfð í dag vegna slysahættu.“  

Magnús hafði gott lag á ungmennunum

„Skólagangan hélt áfram sinn hefðbundna veg í Melaskóla og Hagaskóla og síðar í Menntaskólanum í Reykjavík. Margir skólabræður mínir úr MR fóru í læknisfræði. Ég fann fljótt að hún myndi ekki eiga við mig. Ég hafði minni áhuga á líffræði og eðlisfræði en málefni samfélagsins vöktu meiri áhuga hjá mér. Ég man að ég var að skjótast úr skólanum og sækja mér tímarit á borð við Newsweek til þess að lesa um samfélagsleg málefni. Það má ef til vill orða það þannig að þjóðmálaáhuginn hafi kveikt í mér og að hagfræðin hafi þannig komið til mín. Eftirminnanlegur kennari var Dagný Albertsson í Melaskóla en hún kenndi þar lengi og Björn Jónsson skólastjóri Hagaskóla á þessum árum. Þau voru bæði strangir kennarar en með hjartað á réttum stað. Í Hagaskóla var einnig Magnús Oddsson sem var umsjónarkennari minn öll þrjú árin. Hann hafði gott lag á að tala við unglinga sem jafningja sem efldi sjálfstraust og metnað.“

Mannlífsbreytingarnar eru miklar 

Gylfi segir að Vesturbærinn hafi breyst mikið frá því hann var að alast upp á sjöunda og áttunda áratug liðinnar aldar. „Ég man eftir mörgum verslunum í Vesturbænum.  Það var Árnabúð á Fálkagötu, önnur verslun á Suðurgötu, Kron á Dunhaga og svo framvegis. Þarna starfaði vingjarnlegt fólk sem allir þekktu með nafni. Nú eru flestar þeirra horfnar og lítið orðið um verslunarstarfsemi ef Melabúðin er frátalin. Mannlífið er einnig mun fábrotnara en var einkum, að því er virðist, á meðal barna. Á móti kemur að veitingahúsum og kaffihúsum hefur fjölgað. Þegar ég var að alast upp vorum við mikið úti að leika okkur. Sumir voru í fótbolta, t.d. á svonefndum Lynghagavelli, en aðrir fundu sér eitthvað annað að fást við. Á veturna var mikið farið á sleða ef snjór var til staðar og annarra útileikja. Þótt ég tali um Vesturbæinn, heimahaga mína fyrr og síðar þá er eflaust hægt að segja svipaða sögu af öðrum hverfum og borgarhlutum. Mannlífsbreytingar eru miklar bæði er við kemur þjónustu og ekki síður uppeldinu. Tölvutæknin hefur breytt miklu. Börn virðast nú eyða þeim tíma sem áður fór í útiveru og leiki að miklu leyti fyrir framan skjáinn.“

Gylfi á yngri árum með sonum sínum þeim Tómasi Gylfa, Gunnari Snorra og Einari Skúla.

Spilling getur ráðið miklu þar sem hún er rótgróin

Gylfi snýr sér að hagfræðinni. Hann segir að hér á landi einkenni nándin stjórnmálalífið og einnig efnahagslífið. „Hér á landi er mjög stutt á milli hagsunaafla og stjórnmálaflokka en slík tengsl eru auðvitað einnig að finna í öðrum löndum. Hagsmunaöflin koma bæði frá atvinnulífinu en einnig af öðrum sviðum. Til dæmis úr verkalýðshreyfingunni. Þetta hefur mikil áhrif á hvernig landsmálin þróast á hverjum tíma. Hvaða leikreglur skapast og hvernig þeim er framfylgt. Hagfræðin býr yfir tölulegum líkönum og tæknilegri tölfræði um hvað skiptir máli. Með hagfræðinni er hægt að spá fram í tímann og segja fyrir um orsakir og afleiðingar. Hitt er svo annað mál að menning og stofnanir hinna ýmsu landa eru mismunandi. Hagstjórn fer líka eftir því hvaða reglur gilda í viðkomandi samfélögum. Einnig má nefna ýmsa áhrifavalda í gegnum tíðina. Áhrifavalda sem ekki skapa verðmæti. Mikilvægt er að eignaréttur sé varinn, farið sé að lögum og dómstólar óvilhallir. Þarna kemur t.d. spilling til sögunnar. Hún er á mismunandi háu stigi eftir ríkjum. Hún getur ráðið miklu þar sem hún er rótgróin.” 

Því miður hefur sígið á ógæfuhliðina

Gylfi lítur yfir sviðið hér heima. “Við getum verið heppin að því leyti og það er minni spilling hér en í mörgum löndum þótt hagsmunagæslan sé sterk. Meiri en á hinum Norðurlöndunum en minni en í Suður Evrópu og flestum vanþróuðum ríkjum. Því miður hefur þó sigið nokkuð á ógæfuhliðina að þessu leiti nú á 21. öldinni. Stjórnvöld ætluðu að skapa fjármálamiðstöð þegar losað var um ýmiskonar reglur sem gilt höfðu um fjármálastarfsemi. Þetta átti að gerast á örfáum árum og það sem meira var að byggjast á erlendu fjármagni sem flæddi hingað í gegnum nokkra stóra banka á meginlandinu að mestu leyti í krafti þess að vextir voru mun hærri hér en í upprunalöndum fjárins. Fjármálakerfið varð allt of stórt, svo stórt að því varð ekki bjargað þegar áhlaup var gert á það haustið 2008. Fjárfestingar sem bankarnir fjármögnuðu voru alla vega, ekki alltaf nægilega vel ígrundaðar og sumar hverjar hæsta máta óeðlilegar. Íslensk fyrirtæki voru til að mynda að kaupa verslanir í Oxford stræti í London og á Strikinu í Kaupmannahöfn á háu verði. Þetta kunni ekki góðri lukku að stýra. Allt var fjármagnað með erlendum lánum, einnig lán til innlendra fyrirtækja sem ekki höfðu tekjur í erlendum gjaldeyri. Hlutabréfaverð féll og gengið féll líka árið 2008 þegar hin alþjóðlega fjármálakreppa skall á. Mikið af lánum til landsmanna, lánum sem mörg höfðu verið tekin til húsnæðiskaupa voru verðtryggð eða gengistryggð. Þau lán hækkuðu mikil við gengisfallið. Þarna varð mikil eignatilfærsla. Sumir misstu heimili sín á meðan aðrir högnuðust. Við erum enn að sjá afleiðingarnar af þessu.” 

Ferðamamannahagkerfið innan við 10% 

„Í kjölfarið fengu Íslendingar mikinn straum ferðamanna til landsins sem gerbreytti stöðu þjóðarbúsins, erlendar skuldir voru greiddar upp og mikill gjaldeyrisforði safnaðist upp,“ heldur Gylfi áfram. Hann kveðst telja að ferðamannastraumurinn komi aftur þegar ákveðnu stigi bólusetninga verður náð, sennilega nú í sumar. Og ekki spilli fyrir áhuga ferðamanna að eldgos kraumi nú við túnfót höfuðborgarsvæðisins. “Hins vegar má ekki geyma því að ferðamannahagkerfið er innan við 10% af hagkerfi landsins. Þess vegna hefur ekki farið verr en raun ber vitni. Við þurfum að leggja áherslu á fleiri greinar. Nýsköpun og þekkingariðnaður er þar fremstur. En eftir stendur að lífskjör hér á landi eru með þeim bestu í heiminum og jöfnuður meiri en víðast hvar. Skólakerfið tryggir einnig fólki tækifæri óháð efnahag.“

You may also like...