Spennandi tímar framundan í golfinu

– segir Steinn Baugur Gunnarsson íþróttastjóri Nesklúbbsins

Steinn Baugur Gunnarsson íþróttastjóri Nesklúbbsins.

Steinn Baugur Gunnarsson hefur verið ráðinn í fullt starf sem íþróttastjóri Nesklúbbsins. Ráðning Steins kemur í framhaldi af endurskipulagningu á starfsemi klúbbsins. Á verksviði hans verður meðal annars þjálfun unglinga- og keppnishópa á öllum stigum og umsjón með og skipulagning vetrar- og sumarnámskeiða fyrir börn.  

Ráðning Steins felur auk þess í sér að eiga samskipti við og sjá um upplýsingaflæði til bæði foreldra og iðkenda. Steinn er góðkunnur flestum félagsmönnum Nesklúbbsins, enda hefur hann verið í Nesklúbbnum frá barnsaldri og er einn af fremstu kylfingum klúbbsins. Steinn er með BS gráðu í íþróttafræðum og meistaragráðu í íþróttavísindum og þjálfun frá Háskólanum í Reykjavík, ásamt því að hafa lokið PGA golfkennaranámi. Eftir þessa breytingu mun Nökkvi Gunnarsson PGA golfkennari áfram sinna starfi yfirkennara klúbbsins og einbeita sér að golfkennslu hins almenna kylfings hjá klúbbnum

Barna og unglingastarfið vaxið mikil

Barna og unglingastarfið hefur vaxið gríðarlega mikið hjá Nesklúbbnum síðustu ár og var kominn tími á endur-skipulagningu á starfseminni og stefnumótun. „Í dag er klúbburinn nú bæði komin með íþróttastjóra og svo líka yfirkennara sem sinnir almennri golfkennslu fyrir meðlimi Nesklúbbsins. Með þessari breytingu getum við sinnt betur bæði meðlimum og svo þeim fjölda barna sem eru farin æfa hjá okkur golf allt árið.“

Fólk á öllum aldri stundar golf

Golfið hefur verið í mikilli sókn undanfarið. Það hefur þá sérstöðu fram yfir flestar íþróttir að fólk á öllum aldri stundar íþróttina. Steinn segir að í golfklúbbnum séu krakkar að æfa allt frá því er þau byrja í grunnskóla. Einnig golfarar sem eru komnir yfir nírætt og allt þar á milli. „Golfið nær því til margra. Landslag klúbbsins hefur breyst mjög mikið síðustu ár. Nú er komið mjög öflugt og vaxandi barnastarf bæði hjá strákunum og stelpunum og kvennastarfið hjá Nesklúbbnum er  eitt það öflugasta á landinu í golfinu. Við hjá klúbbnum lítum á okkur sem mikilvægan hlekk í lýðheilsu bæjarbúa í dag og viljum veita sem allra flestum vettvang til þess að njóta heilsufarsávinninga golfsins.“

Golfið hefur verndandi áhrif

Steinn hefur verið að kenna lýðheilsufræði í Háskólanum í Reykjavík. „Í íþrótta- og heilsufræðum er skemmtilegt að sjá hversu mörg box golfið tikkar í sem vísindin sýna að hafi verndandi áhrif fyrir heilsu okkar. Þetta eru þættir eins og hreyfing, útivera, samvera með öðrum, glíma við krefjandi verkefni og færniþróun hreyfinga svo eitthvað sé nefnt. Hjá Nesklúbbnum er markið sett hátt og stefnan er á að vera leiðandi á sviði lýðheilsu og heilsueflingu bæjarbúa á Nesinu næstu árin.“

Fólk á öllum aldri getur stundað golf. Myndin er tekin í inniaðstöðu Nesklúbbsins á Eiðistorgi.

Eldri borgarar nýta aðstöðuna

„Eldri borgarar á Nesinu hafi líka í auknum mæli verið að nýta sér aðstöðuna okkar bæði yfir sumar og vetrartímann sem er frábært,“ segir Steinn. „Sjálfur hef ég unnið talsvert við rannsóknir á heilsueflingu eldri borgara fyrir háskólana og Landspítalann og það er svo gaman að sjá tenginguna milli golfiðkunnar og góðrar heilsu fram eftir aldri. Fjöldi nýlegra rannsókna eru að sýna okkur að fátt verndi heilsu eldra fólks betur en hreyfing, félagstengsl og það að halda áfram að glíma við krefjandi verkefni fram eftir aldri. Þessa þætti er alla að finna í golfinu og geta verið lykill að því viðhalda góðri vitsmunafærni og hreinlega hægt umtalsvert á öldrunaráhrifum hjá eldra fólki. Við sjáum mikil tækifæri á að ná til enn fleiri af elsta hópnum og sjáum sóknarfæri þar eins og hjá krökkunum. Fyrir mér er það engin tilviljun hvað golfið nýtur mikilla vinsælda hér á landi. Líkaminn okkar er ekki gerður til að lifa í hreyfingarleysi og margir af þeim lífsstílssjúkdómum sem við glímum við í dag eru til komnir að hluta vegna skorts á hreyfingu og of mikillar kyrrsetu. Regluleg hreyfing er alltaf mikilvæg og með golfiðkun ná kylfingar að uppfylla hreyfiráðleggingar Landlæknisembættisins. Golfið sameinar líka ólíkar  kynslóðir því allir geta spilað saman og það getur verið mjög streitulosandi að spila golfhring úti í náttúrunni eða æfa sig á vellinum burtu frá farsímum, raftækjum og þeim mikla hraða sem við lifum í dag. Golfið er vettvangur þar sem vinir og fjölskyldur geta notið samveru án truflunar og á sama tíma notið jákvæðra heilsufarsáhrifa. Hreyfingin, útiveran og félagsskapurinn eru lykill að góðri heilsu og er það sem golfið snýst um að miklu leiti,“ segir Steinn Baugur.

Hann segir einnig frábært að með tilkomu golfherma sé golfið í dag orðið að heilsársíþrótt hér heima og njóta golfhermar nú mikilla vinsælda yfir vetrartímann. Fólk geti því í dag stundað golfið allt árið. „Við höfum verið með inniaðstöðu á Eiðistorgi síðustu ár. Það var frábær viðbót í starfið okkar fyrir fimm árum að koma upp inniaðstöðu á Eiðistorgi og varð lykill í að efla barnastarfið því við fórum að geta boðið upp á æfingar allt árið stutt frá skólunum á Nesinu. Sú aðstaða er í dag alveg sprunginn vegna mikillar aukningar í barnastarfi og óþreytandi áhuga golfara á að spila í golfhermum yfir vetrartímann. Við  erum því við að vinna í því að finna lausnir á þeim málum,“ segir Steinn.

Spennandi tímar framundan

„Seltjarnarnesbær hefur alla burði til að vera til fyrirmyndar í eflingu lýðheilsu sinna bæjarbúa,“ segir Steinn. Grótta er til dæmis að vinna mjög gott starf á þessu sviði. Frábær sundlaug er á Nesinu, líkamsræktarstöð, skokkhópar og svo golfklúbburinn. Það er ekkert launungarmál að golfklúbbnum vantar frekari aðstöðu. Í klúbbnum eru núna 800 félagsmenn og hátt í þrjú hundruð börn koma til okkar á æfingar eða námskeið. Þar fyrir utan eru nálægt 700 manns á biðlista. Aðstaðan okkar, hvort heldur er úti eða inni er sprungin og þolir ekki meiri umferð en við værum svo sannarlega tilbúin í að leggja okkur enn frekar að mörkum. Við höfum fulla trú á að það gerist með tíð og tíma þannig að það eru spennandi tímar framundan í golfinu á Nesinu.“  

You may also like...