Fréttamolar úr Félagsstarf

– Fjölskyldumiðstöðin í Gerðubergi –

Eigum við ekki að vera fyrir utan við blómin sagði Álfhildur Hallgrímsdóttir umsjónarmaður félagsstarfsins í Gerðubergi þegar myndatöku bar á góma.

Félags- og tómstundastarf hefur verið rekið á vegum Reykjavíkurborgar í Gerðubergi frá árinu 1983. Í upphafi var starfsemin nær eingöngu ætluð eldri borgurum en með auknum áherslum á mismunandi þarfir og óskir fólks, valdeflingu og sjálfbæru starfi var hætt að einblína á aldursmörk og er félagsstarfið opnað fyrir alla 18 ára og eldri. Frá 2016 er félagsstarfið hluti af starfi Fjölskyldumiðstöðvar í Gerðubergi. 

Undir hatti Fjölskyldumiðstöðvarinnar er starfrækt öflugt fjölmenningarstarf; verkefnið TINNA, námskeið og fræðsla fyrir foreldra og fjölskyldur  sem og ýmis námskeið í samstarfi við Þjónustumiðstöð Breiðholts, en Fjölskyldumiðstöðin í Gerðubergi heyrir undir  Þjónustumiðstöðina og er opin öllum íbúum Breiðholts. Að sögn Álfhildar Hallgrímsdóttur, sem gegnir starfi umsjónarmanns í félagsstarfi Gerðubergs er grunnmarkmiðið með félagsstarfi fullorðinna að skapa fjölbreytilegt umhverfi og jákvæðan vettvang, þar sem flestir geta fundið farveg til frumkvæðis og sjálfstæðra athafna og jafnframt að fyrirbyggja og draga úr félagslegri einangrun fólks. 

Vinnudagurinn er fljótur að líða

Álfhildur hefur starfað innan heilbrigðis- og velferðarkerfisins í áratugi og segir það ánægjulegt hve vel og skemmtilega tekst að flétta saman margvíslegri starfsemi innan Fjölskyldumiðstöðvarinnar, þar sem margir og mismunandi hópar og ólíkir einstaklingar koma við sögu. „Öll erum við einstök á okkar máta, við fögnum fjölbreytileikanum og horfum í félagsauðinn og bjóðum alla velkomna. Oft er  þvílíkt líf og margmenni í þessu húsi, að vinnudagurinn virkar allt of fljótur að líða á köflum“, segir Álfhildur. – Í félagsstarfinu er að finna hefðbundna, fasta dagskrárliði, eins og leikfimi, opna handavinnustofu, myndlist, glerlist og bókband, sem og tilfallandi uppákomur og námskeið. Gaman er að segja frá miðlægu sumarverkefni, sem stendur þátttakendum  í félagsstarfi fullorðinna á vegum borgarinnar til boða, þar er ekki hvað síst lögð áhersla á útiveru og hreyfingu. Hér í Gerðubergi er t.d. að fara af stað svokallað útifjör tvisvar sinnum í  viku, þar sem tveir leiðbeinendur stýra göngum og alls kyns hreyfingu og teygjum utan dyra. Þá er að hefjast hér ritsmiðja fyrir 7 til 13 ára börn í sumar. Allt er þetta þátttakendum að kostnaðarlausu.  Upplýsingar um dagskrá félagsstarfsins er hægt að finna á fésbókarsíðu félagsstarfsins og í dagbók Morgunblaðsins.

Frá vinstri, Elísabet Karlsdóttir forstöðumaður Fjölskyldumiðstöðvar. Fríða María Harðardóttir kennari og Nermine El Ansari kennari. 

Nágrannavarslan mikilvæg

Innan Fjölskyldumiðstöðvarinnar er einnig haldið utan um mikilvægt verkefni sem nefnist nágrannavarsla. Nágrannavarsla var fyrst sett upp í Breiðholti árið 2006, er hún hugsuð sem forvörn gegn afbrotum og eignatjóni. Markmiðið er að fá íbúa til að taka  höndum saman um öruggara nágrenni. Nágrannavarsla er þannig sameign íbúa í götunni og íbúar sjá sjálfir um að halda verkefninu gangandi, eru árvakir og virkir við að halda uppi samskiptum og upplýsingaflæði. Svonefndur götustjóri  er kosinn og heldur hann utan um götuna í samvinnu við alla íbúa hennar og er jafnframt  tengiliður við Álfhildi umsjónarmann, sem vill endilega hvetja  íbúa í Breiðholti til að setja sig í samband við Fjölskyldumiðstöðina til að afla upplýsinga og fá aðstoð við að koma nágrannavörslu á laggirnar.  Reynslan hefur sýnt að nágrannavarsla margborgar sig.  

Listsýning – Innra Landslag í Gerðubergi 

Opnunarhátíð listsýningarinnar Innra landslag  fór fram í Fjölskyldumiðstöðinni í Gerðubergi þann 3. júní. Sýningin er afrakstur verkefnis kvenna sem hafa hist vikulega í vetur og átt saman notalega stund; spjallað, hugleitt og upplifað heilunarsmátt sköpunarinnar. Unnið var með vatnsliti á einfaldan máta, viðfangsefnin  tengdust náttúrulegu umhverfi út frá litum og tilfinningum. Sýningin er opin til 23. júní.

TINNA er virkniúrræði

Hópur úr TINNU verkefninu sem er staðsett í Fjölskyldumiðstöðinni í Gerðubergi hefur farið í vikulegar göngur síðustu mánuði. TINNA er virkniúrræði fyrir einstæða foreldra sem vilja breytingar fyrir sig og börnin sín. Hópurinn hefur farið í stuttar og skemmtilegar fjallgöngur og er búinn að klífa Reykjafell, Mosfell, Æsustaðafell, Úlfarsfell og Helgafell í Hafnarfirði. 

You may also like...