Veitingaþjónusta í Ráðagerði

– breyta þarf deiliskipulagi –

Ráðagerði er á norðvestan verðu Seltjarnarnesi.

Fyrirhugað er að heimila veitingaþjónustu í Ráðagerði. Um yrði að ræða veitingastað þar sem starfsemin verði ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu. Um áfengisveitingar yrði að ræða en ekki með háværri tónlist eða starfsemi sem ekki myndi kalla á mikið eftirlit eða löggæslu. Vegna þess að opna fyrir veitingasölu þarf að breyta aðalskipulagi og deiliskipulagi fyrir Ráðagerði.

Í núgildandi aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar frá 21. febrúar 2017 er Ráðagerði innan íbúðarsvæðis ÍB-10 sem er Bygggarðasvæðið. Í skipulaginu er mörkuð stefna um að innan íbúðarsvæða sé ekki gert ráð fyrir veitingastöðum og því nauðsynlegt að breyta stefnu um landnotkun til þess að slík starfsemi geti verið heimil í húsinu. Tillaga um breytingu á aðalskipulagi mun fela í sér afmörkun nýs reits í flokki verslunar og þjónustu, sem nær utan um húsið og svæði fyrir bílastæði norður af húsinu, að Norðurströnd. Lóð fyrir Ráðagerði er þegar skilgreind í gildandi deiliskipulagi en tilgreindri notkun lóðarinnar verður breytt í veitingahús í flokki II.

You may also like...