Byltingarkennt skipulag Breiðholts kynnt

– margar nýjungar í framtíðaruppbyggingu byggðarinnar –

Hugmynd að nýju umhverfi við Arnarbakka í Bakkahverfi í neðra Breiðholti.

Nýtt skipulag Breiðholts var kynnt í Mjóddinni á laugardaginn. Alexandra Briem forseti borgarstjórnar flutti ávarp og Ævar Harðarson arkitekt og einn af höfundum þess kynnti skipulagið og þær hugmyndir sem liggja að baki því. Breiðholtsskipulagið hefur verið í vinnslu undanfarna mánuði en með því er lögð drög að framtíðaruppbyggingu í Breiðholti. Breiðholt stendur nú á fimmtugu og lítið hefur verið hugað að skipulagi þar í þá hálfu öld sem liðin frá því byggðarlagið reis á methraða. Drög að skipulaginu voru kynnt á liðnu sumri meðal annars hér í Breiðholtsblaðinu. Nú fer hverfisskipulagið í formlegt sex vikna auglýsingaferli eins og aðrar skipulagstillögur. Ýmsar nýjungar má finna og ber þar hæst endurbyggingu hinna svonefndu hverfiskjarna sem eru þjónustusvæði í öllum þremur hlutum Breiðholtsins en hafa látið mjög á sjá á umliðnum árum. “Mér finnst alger bylting felast í þessu nýja skipulagi,” segir Óskar Dýrmundur Ólafsson hverfisstjóri í Breiðholti.

Ævar Harðarson arkitekt.

Eitt af því sem áhersla er lögð á er að víða verður hægt að innrétta aukaíbúðir í húsum, t.d. með því að byggja við, skipta upp eldra rými eða breyta lítið notuðum bílskúrum í litlar íbúðir. Aukaíbúðirnar eru hugsaðar til útleigu eða fyrir fjölskyldumeðlimi en óheimilt er að selja þær frá aðalíbúð. Íbúðirnar má sameina aftur óski eigendur þess. Þetta getur aukið framboð á litlum og meðalstórum íbúðum í grónum hverfum þar sem eru mörg einbýlis- og raðhús. Í hverfisskipulagi Breiðholts er einnig lögð áhersla á að fjölga hagkvæmum fjölskylduíbúðum sem skortur er á, sérstaklega í Efra Breiðholti. Þannig fjölgar íbúum aldursdreifing verður jafnari, hverfin verða sjálfbærari og nýting ýmissa innviða, s.s. grunn- og leikskóla, batnar. Útreikningar Hagfræðastofnunar Háskóla Íslands gefa til kynna að ná megi fram umtalsverðu hagræði í rekstri grunn- og leikskóla með jafnari íbúasamsetningu hverfa.

Norður Mjódd sérstakt þróunarsvæði

Óskar Dýrmundur Ólafsson hverfisstjóri í Breiðholti.

Uppbygging á atvinnuhúsnæði og námsmannaíbúðum við Arnarbakka styrkir grundvöll fjölbreyttrar verslunar í hverfinu. Ýmiss konar önnur atvinnustarfsemi er einnig heimiluð innan íbúðahverfa í Reykjavík til að styrkja nýsköpun og fjölga atvinnutækifærum innan hverfa. Samgöngur og þjónusta Neðra-Breiðholts er vel sett með verslun og þjónustu vegna nálægðar við Mjóddina. Þar er stefnt að uppbyggingu með atvinnuhúsnæði og nýjum íbúðum. Um er að ræða mjög umfangsmiklar breytingar sem ekki verða útfærðar í hverfisskipulagi heldur er Norður-Mjódd skilgreind sem þróunarsvæði og verður gert sérstakt deiliskipulag fyrir svæðið. Nærþjónusta fyrir hverfið er í kjarnanum við Arnarbakka en aðkoma, aðstaða og umhverfi verslunar- og þjónustukjarnans er bágborið. Fjarlægja á gömlu húsin og reisa nýjar byggingar með verslun og þjónustu. Með hverfisskipulaginu getur íbúðum í Neðra Breiðholti fjölgað um u.þ.b. 250. Einn af þeim ávinningnum sem felast í skipulaginu er að með tilkomu hverfisskipulags verður mun einfaldara fyrir íbúa að gera breytingar á fasteignum sínum. Til að mynda að byggja kvisti, svalir, viðbyggingar og fjölga íbúðum í þegar byggðum húsum.

Hugmynd að endurbyggingu við Drafnarfell.

Nærþjónusta í Mjódd og hverfiskjarni við Arnarbakka 

Ein af hugmyndum að baki hverfisskipulaginu er að gera Neðra-Breiðholt sjálfbærara og vistvænna. Huga á að gæðum byggðar og styrkja byggðamynstur og staðaranda. Nærþjónusta er í Mjódd og hverfiskjarna í Arnarbakka sem á að efla. Uppbygging á atvinnuhúsnæði og námsmannaíbúðum við Arnarbakka á að styrkja grundvöll fjölbreyttrar verslunar í hverfinu.  

Rangársel og Vetrargarður

Í Seljahverfi er stefnt er að því að auka gæði byggðarinnar og gera hverfið sjálfbærara og vistvænna. Byggja á upp hverfismiðju með nærþjónustu við Rangársel og bæta íþróttaaðstöðu í Vetrargarði austast í hverfinu sem verði opinn allan ársins hring. Á þróunarsvæði við Rangársel er ætlunin að byggja upp verslun og þjónustu við nýtt hverfistorg.

Séð yfir Seljahverfi. Þar meðal annars stefnt að endurbyggingu við Rangársel og að koma svonefndum Vetrargarði fyrir.

Eitt þúsund nýjar íbúðir 

Í Efra Breiðholti á að efla hverfiskjarna og nærþjónustu og styrkja miðsvæðið við Austurberg og Gerðuberg sem hjartað í hverfinu. Stefnt er að sjálfbærara og vistvænna hverfi og fjölgun á stærri fjölskylduíbúðum. Gert er ráð fyrir að íbúðum í Efra-Breiðholti geti fjölgað um rúmlega eitt þúsund með tilkomu hverfisskipulagsins. Lóðarhöfum sérbýlishúsa verður heimilt að innrétta aukaíbúðir en gert er ráð fyrir að um verði að ræða hægfara þróun. Jafnframt er heimilt að hækka flest lyftulaus fjölbýlishús um eina hæð, gegn því skilyrði að komið verði fyrir lyftu til að bæta aðgengi. Einnig er veitt heimild fyrir nýjum eða viðbyggingum á fjölbýlishúsalóðum við Austurberg.

Stórar íbúðir við Jórufell 

Í hverfisskipulagi eru skilgreind nokkur þróunarsvæði þar sem gert er ráð fyrir að íbúðum geti fjölgað, t.d. við Hólagarð og Suðurhóla, Suðurfell og Jórufell. Við Jórufell er stefnt að því að endurskipuleggja svæðið með áherslu á stórar fjölskylduíbúðir og hafa verið lögð drög að samkeppni um deiliskipulag svæðisins. Þá er nýtt deiliskipulag við Eddufell-Völvufell tilbúið til kynningar með ríflega 200 nýjum íbúðum í rað-, par- og fjölbýlishúsum, þ.m.t. allt að 90 námsmannaíbúðum.  

Borgargötur í Efra Breiðholti 

Austurberg, Norðurfell og Suðurhólar, milli Fellagarða og Hólagarðs, eru skilgreind sem borgargötur. Lögð verður áhersla á fegrun og endurhönnun borgargatna fyrir alla samgöngumáta og þar verður ýmis þjónusta fyrir íbúa staðsett. Þarf á meðal lykilstoppistöðvar almenningssamgangna, grenndarstöðvar, rafhleðslustöðvar og stæði fyrir deilibíla. Margar fleiri nýjungar er að finna í hinu nýja skiplagi Breiðholts sem Óskar Dýrmundur Ólafsson hverfisstjóri segir byltingarkennda. Kynningarbæklingi hefur verið dreift í Breiðholti og innan tíðar verður opnuð vefsíða um skipulagið.

You may also like...