Vorferð Kaffikarla Seltjarnarneskirkju

Hópurinn ásamt Leó Árnasyni og Guðna Ágústssyni á vinnusvæði hins nýja miðbæjar á Selfossi 1. júní 2021. Frá vinstri Sigvaldi Hólm Pétursson, sr. Bjarni Þór Bjarnason, Guðmar Marelsson, Þorbjörn E. Jónsson, Viðar Hjartarson, Ægir G. Ólason, Stefán Olgeirsson, Gunnar Þór Alfreðsson, Guðni Ágústsson, Gunnar H. Pálsson, Leó Árnason, Birgir Vigfússon, Grétar G. Guðmundsson, Jón Rafn Sigurjónsson, Halldór Pedersen, Sverrir Hannesson, Valgeir Gestsson, Ágúst Ragnarsson og Þráinn Viggósson. 

 Hin árlega vorferð Kaffikarla Seltjarnarneskirkju var þriðjudaginn 1. júní síðastliðinn. Hópurinn saman stóð af 17 kátum körlum sem lögðu af stað frá Seltjarnarneskirkju kl. 9 árdegis. Hilmar Hilmarsson, fyrrverandi sláturhússtjóri á Sauðárkróki, ók hópnum eins og fyrri ár á ,,gullvagni sínum.“ Það fór vel um menn í ,,gullvagninum.“ 

Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, var fararstjóri í ferðinni. Hann kom upp í rútuna við Olís við Skúlagötu. Var honum ákaft fagnað þegar hann sté um borð. Ferðinni var heitið til að byrja með austur í Hveragerði. Fyrsti áfangastaðurinn var Hamarshöllin, hið glæsilega og uppblásna íþróttahús Hvergerðinga. Þetta íþróttahús er hið eina sinnar tegundar hér á landi. Jóhanna Margrét Hjartardóttir, íþrótta- og tómstundafulltrúi Hveragerðisbæjar tók a móti hópnum, sýndi honum húsið og sagði frá því. Húsið er 5.100 fermetrar að stærð og er fjölnota. Húsið kostaði 300 milljónir árið 2013. 

Árborg hefur stækkað mikið

Eftir heimsóknina í Hamarshöllina fór hópurinn í skoðunarferð um Hveragerði undir leiðsögn Ágústs Örlygs Magnússonar. Að því loknu var ekið eftir Hvammsvegi sem liggur með Ingólfsfjalli, fram hjá Sogni, Gljúfri, Nátthaga, og Lambhaga. Þegar hópurinn kom á Selfoss var tekinn hringur um bæinn og menn undruðust á öllum þeim miklu byggingarframkvæmdum sem eiga sér stað nú um stundir. Selfoss eða Árborg hefur stækkað mikið á síðustu árum. Um daginn voru 50 einbýlishúsalóðir auglýstar til sölu á Selfossi. Alls bárust átta þúsund umsóknir um þessar lóðir. Hópurinn staldraði við í Selfosskirkju. Sr. Guðbjörg Arnardóttir, sóknarprestur, tók á móti hópnum og sagði frá kirkjunni. Hópurinn var mættur á Kaffi krús kl. 12.30. Þar var boðið upp á gulrótarsúpu og heimabakað brauð. 

Heimamenn byggja fyrir heimamenn

Að máltíð lokinni fór hópurinn í húsið Stað sem er skammt frá Kaffi krús. Þar tók Leó Árnason á móti hópnum. Hann er framkvæmdastjóri Sigtúns þróunarfélags, sem stendur fyrir uppbyggingu hins nýja miðbæjar á Selfossi. Hann sagði hópnum frá þessu merkilega verkefni í máli og myndum. Leó sagði, að það væri gaman í vinnunni. Þarna væru heimamenn að byggja miðbæ fyrir heimamenn, það væri eftirvænting í loftinu og menn hlökkuðu til. Að loknu erindinu gekk hópurinn með Leó á byggingasvæðið til að skoða framkvæmdir. 

Nýi miðbærinn á Selfossi verður formlega tekinn í notkun innan skamms, það er að segja um rösklega helmingur þeirra húsa sem þar verða byggð. Áfanginn sem nú er að klárast er fyrsti áfangi verksins, en síðan á eftir að klára tvo áfanga til viðbótar og áætlað er að þeirri vinnu ljúki 2024. Heildarkostnaður er áætlaður 10 til 12 milljarðar króna. Framkvæmdir við nýjan miðbæ á Selfossi hafa staðið yfir í tæp tvö ár. Í fyrsta áfanga verkefnisins rísa þrettán byggingar sem telja alls um 5.200 fermetra. Þegar miðbærinn hefur risið að fullu er stefnt að byggingum sem telja hátt í 30 þúsund fermetra. Verkefnið er eitt stærsta fasteignaþróunarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins í seinni tíð.

Guðni Ágústsson, fyrrum ráðherra, í stólnum í Laugardælakirkju þar sem hann talaði um Bobby Fischer en gröf hans er í grafreit við kirkjuna. 

Endurbyggja hús víðsvegar að

Miðbærinn sem nú rís, er á svæði sem var autt sunnan við Ölfusárbrúnna. Húsin verða leigð út fyrir margskonar starfsemi. Þar verður sambland af þjónustufyrirtækjum, veitingastöðum, verslunum og íbúðum.

Leó Árnason sagði að verið sé að endurbyggja hús sem áður stóðu víðsvegar á landinu en eru horfin af sjónarsviðinu. Hann sagði að kannski væri verið að segja byggingarsögu Íslands fyrir ákveðið tímabil með þessu verkefni. Fyrst og fremst eru það hús frá Selfossi sem eru endurbyggð en einnig hús sem áður stóðu við Austurvöll og Aðalstræti í Reykjavík og hús sem voru á Ísafirði, Stykkishólmi og Akureyri. Hann óttast ekki að yfirbragð húsanna verði yfirborðskennt eins og leikmynd. 

35 sögufræg hús

Hérna væri um að ræða 35 sögufrægar byggingar, sem áður skemmdust af eldi eða höfðu fallið í niðurníðslu. Þetta eru hús eins og verslanirnar Edinborg og Glasgow, Hótel Ísland, Fell á Ísafirði, Hótel Gullfoss á Akureyri, konungshúsið á Þingvöllum, miðaldadómkirkja, tilgátuhús byggt í stafkirkjustíl, Amtmannshúsið við Amtmannsstíg, Fjalakötturinn, Reykjavíkurapótek, Hótel Oddeyri, Friðriksgáfa sem var hús amtmannsins á Möðruvöllum og svo framvegis. 

Búið er að byggja hús Mjólkurbús Flóamanna frá 1929 en það var rifið árið 1956. Þetta hús teiknaði Guðjón Samúelsson. Í kjallara hússins er verið að koma fyrir skyrsafni. Gamla Mjólkurbúið var eitt sinn andlit Selfoss en var síðan rifið en er orðið það aftur í dag.  Þessi nýi miðbær verður fúnkerandi miðbær með öllu því sem miðbær þarf að hafa.

Í miðbænum verður meðal annars mathöll í Mjólkurbúshúsinu með átta veitingastöðum, bar, sýning um skyrið og matarmenningu Íslands eins og fyrr sagði.  Leó sagði að búið væri að leigja út um 90% rýmanna.

Leó sagðist halda að fólk gerði sér grein fyrir því að Selfoss yrði breyttur bær á eftir. Hann sagði að það yrði betra að búa að Selfossi og það yrði líka skemmtilegra að taka á móti gestum. Hann sagði að til stæði að færa hringveginn þannig að hann lægi  fram hjá Selfossi,  með nýrri brú yfir Ölfusá. Hann hafði engar áhyggjur af því að það leiddi til fækkunar gesta.

Austurvegur verður aðalgata

Leó sagði að vilji væri til að byggja upp Austurveg, aðalgötu bæjarins, samhliða því að umferðarþunginn færist annað. Hann sagði að Austurvegurinn gæti orðið falleg bæjargata. Gatan væri breið og biði upp á mjög spennandi og fjölbreytta þróunarmöguleika þegar drægi úr þungaumferð í gegnum bæinn. Sem hluta af þeirri vegferð keypti Sigtún þróunarfélag höfuðstöðvar Landsbankans á Selfossi, sem standa við Austurveg, undir lok síðasta árs. Húsið er sögufrægt, en það var byggt á árunum 1949 til 1953 eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar, í anda höfuðstöðva Landsbankans við Aðalstræti í Reykjavík. Leó benti á að fyrir aftan húsið væri 7.300 fermetra lóð. Það biði upp á einstaka möguleika. 

Menn voru sammála um að það hefði verið einstaklega ánægjulegt að fá að kynnast þessu stórmerkilega verkefni. Þökk sé Guðna Ágústssyni sem gekkst fyrir því að hópurinn átti þess kost að fá þennan ágæta fyrirlestur hjá Leó Árnasyni og leiðsögn hans um byggingarsvæðið. Eftir það fór hópurinn til Almars bakara í Larsenstræti á Selfossi og fékk sér kaffi og rjómatertu. 

Flóaáveitan sést frá Tunglinu

Að því loknu fór hópurinn í Laugardælakirkju, en í kirkjugarðinum þar hvílir Bobby Fischer, fyrrverandi heimsmeistari í skák. Guðni steig í stólinn í kirkjunni og flutti frábært erindi um Fischer. Þá hélt hópurinn að Flóaáveitu, sem er einstakt mannvirki sem sést frá tunglinu líkt og Kínamúrinn. Skurðir Flóaáveitu voru um 300 kílómetra langir. Guðni þekkir sögu þessa verkefnis afar vel. Hann sagði hópnum skilmerkilega frá þessum miklu framkvæmdum, þar sem Járnbitagríður, grafan stóra var notuð. Hópurinn fór að Flóðgáttinni á Brúnastaðaflötum. Flóaáveitufélagið var stofnað 8. febrúar árið 1918 samkvæmt lögum frá 1917. Framkvæmdir hófust 22. maí 1922. Áveitan var tekin í notkun 27. maí 1927 með opnun flóðgáttarinnar á Brúnastaðaflötum. Flóðgáttin er skammt frá æskuheimili Guðna á Brúnastöðum og var einstaklega ánægjulegt að hlusta á frásögn hans. 

Ferð Kaffikarla lauk á Hótel Selfossi þar sem hópurinn snæddi lambalæri með öllu tilheyrandi. Boðið var upp á ís og ávexti í eftirrétt. 

Ferðin tók 12 klukkutíma, frá kl. 9 árdegis til kl. 21 að kvöldi. Það var glaður og ánægður hópur sem kom heim til sín eftir þessa ferð. Þökk sé Guðna Ágústssyni sem gerði daginn ógleymanlegan. Guðni er einstakur gleðigjafi og manna skemmtilegastur. Við þökkum honum innilega fyrir að gefa okkur af tíma sínum og vera með okkur allan daginn.

Sr. Bjarni Þór Bjarnason

You may also like...