Lengi rætt um að auka við byggðina

– Norður Mjódd –

Séð yfir Norður Mjódd Bensínstöð og Garðheima.

Skipulagsmál í Norður Mjódd eiga sér alllanga sögu sem enn er ekki lokið. Tillögur að skipulagsbreytingum hafa snúið að því að auka við byggð á svæðinu en skiptar skoðar hafa jafnan verið um málið. Andstöðu var að finna á meðal íbúa í nágrenninu einkum í Stekkunum sem eru næsta byggðarlag og snérust að einhverju leyti um glatað útsýni. 

Samkvæmt fyrsta skipulagi af Norður Mjódd frá 1962 til 1983 var gert ráð fyrir að þar yrði óbyggt útivistarsvæði hugsað til þess að tryggja íbúum í neðsta hluta elsta Breiðholtshverfisins útsýni. Í grenndarkynningu fyrir Norður Mjódd frá 1974 má finna fyrstu teikningar um nýtingu þessa svæðis undir byggingar. Þar kom meðal annars fram að í Norður Mjóddinni yrði komið fyrir lágum byggingum, sem myndu ekki trufla útsýni úr neðstu húsum Stekkjarhverfis. Um svipað leyti hafði Olís fengið vilyrði hjá Reykjavíkurborg til að flytja bensínstöð sína sem þá stóð sunnan Álfabakka yfir götuna og verða syðst í Norður Mjódd þar sem hún er nú. Þá voru komnar fram hugmyndir um að reisa hverfisstöð fyrir Strætisvagna Reykjavíkur við Álfabakka og því varð að færa bensínstöðina.

Sameining Olís og Haga – hugmyndir um meiri byggð

Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 til 2030 er gert ráð fyrir að styrkja svæðið með þéttingu og blöndun byggðar. Þar kemur fram að við gerð deiliskipulags skuli leitast við að styrkja heildaryfirbragð svæðisins, þannig að nýjar og eldri byggingar myndi heildstæða og skjólsæla byggð. Á svæðinu megi gera ráð fyrir 100 til 200 íbúðum auk meiri verslunarþjónustuhúsnæði. Olís átti hluta lóðarinnar við Stekkjarbakka en við samruna Olís og Haga varð lóðin nú öll í eigu sama félags sem stefndi á aðgerðir. Leigusamningar við leigjendur á lóðinni renna út nú í ár. Var þá ráðgert að komist yrði að samkomulagi við Reykjavíkurborg um skipulag á lóðinni. Finnur Árnason þáverandi forstjóri Haga gerði ráð fyrir að blönduð byggð muni rísa á svæðinu sem væri í samræmi við stefnu borgarinnar um þéttingu byggðar. Á lóðinni ættu því að því rísa bæði litlar og stærri íbúðir, auk þess sem byggingar fyrir verslun og þjónustu yrðu á hluta lóðarinnar til að mynda Bónusverslun og ÓB-stöð. Hugmyndir um Bónusverslun eða stóra matvöruverslun mætti andstöðu hjá borginni og bent var á að þegar væri ein slík verslun í Mjóddinni – Nettó í Mjódd. Stefna borgarinnar væri að efla verslunarstarf í gömlu byggðakjörnunum þangað sem fólk gæti sótt lífsnauðsynjar sem annað í göngu fjarlægð frá heimilum sínum.

Þróunarsvæði og sérstakt deiliskipulag 

Í tillögum að hverfaskipulagi Breiðholts sem nú eru til kynningar er að finna  hugmyndir um íbúðabyggð í Norður Mjóddinni. Þar segir að Neðra Breiðholt sé vel sett með verslun og þjónustu vegna nálægðar við Mjóddina. Þar sé stefnt að uppbyggingu með atvinnuhúsnæði og nýjum íbúðum. Um sé að ræða mjög umfangsmiklar breytingar sem ekki verða útfærðar í hverfisskipulagi heldur er Norður-Mjódd skilgreind sem þróunarsvæði og verður gert sérstakt deiliskipulag fyrir svæðið. Það deiliskipulag liggur ekki fyrir og heldur ekki um hversu miklar framkvæmdir verður að ræða. Miðað við þær umræður sem farið hafa fram má þó gera ráð fyrr að í Norður – Mjóddinni muni rísa blönduð byggð með fjölda íbúða og nokkurri þjónustu.

You may also like...