Úr Skagafirði til Tyrklands með viðkomu í Vesturbæ

– Vilhjálmur Egilsson fyrrum alþingismaður og rektor rabbar um lífshlaup sitt –

Vilhjálmur Egilsson fyrrverandi alþingismaður og rektor.

Vilhjálmur Egilsson fyrrum alþingismaður og rektor sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1991 til 2003. Hann var framkvæmdarstjóri Samtaka atvinnulífsins á árunum 2006 til 2013 og rektor háskólans á Bifröst 2013 til 2019. Vilhjálmur hefur búið í Vesturbænum allt frá því hann hleypti heimdraganum úr Skagafirði ef undanskilin eru námsár í Bandaríkjunum og rektorsstaða á Bifröst í Borgarfirði. Þegar Vilhjálmur lét af starfi rektors sagði hann í viðtali við blaðið Skessuhorn á Vesturlandi að ástæðan fyrir starfslokum væri sú að hann yrði 67 ára í desember og væri að færast á lífeyrisaldur. „Að minni hálfu snerist málið um að finna heppilegan tímapunkt til að stíga inn í þennan nýja kafla í lífi mínu.“ Eftir að Vilhjálmur lauk störfum á Bifröst hefur aftur sest að á sínum gamla stað í Vesturbænum en einnig leitað á suðlægari slóðir þar sem hann hefur dvalið öðru hvoru í Tyrklandi. Vilhjálmur settist niður með Vesturbæjarblaðinu á Te og kaffi í Aðalstræti á dögunum og lét hugann reika yfir lífsferil sinn yfir bolla af kaffi Amerikano.

„Ég er Skagfirðingur og einnig aðeins húnverskur að ætt og uppruna. Ættir mína liggja að mestu í Blönduhlíð í Skagafirði og þaðan út á Skaga. Skagafjörður er nánast allur undir þegar kemur að ætterni mínu. Tveir bræður mínir búa í Skagafirði og ég á margt skyldfólk þar.“ En þú hefur farið ungur að heiman. „Já að nokkru leyti. Ég fór til náms við Menntaskólann á Akureyri á sextánda ári. Bjó þar á vetrum en var heima í Skagafirði yfir sumartímann. En svo tók Vesturbærinn í Reykjavík við þar sem ég hef að mestu haldið til síðan. Eftir stúdentspróf fór ég suður til náms við Háskóla Íslands. Ég féll fyrir ungri stúlku úr Vesturbænum Ragnhildi Pálu Ófeigsdóttur og ekki varð aftur snúið. Bæði höfðu þau mikið aðdráttarafl fyrir mig stúlkan og Vesturbærinn. Við búum í húsi sem afi hennar og amma byggðu 1934. Einu af samvinnufélagshúsunum sem stendur á horni Sólvallagötu og Bræðraborgarstígs. Ragnhildur Pála er fædd í þessu húsi. Þarna á ætt hennar rætur og nokkrar kynslóðir verið til húsa. Barnabörn okkar hafa verið mikið í húsinu þegar við höfum verið í burtu. Ég hef ekki trú á að húsið skipti um ætt eftir okkar dag.“

Þetta var sprettur 

Þú valdir hagfræðina. Höfðaði hún fermur til skagfirska stráksins og ráðunautasonarins en annar lærdómur. „Ég var ekki fyllilega viss um hvað ég vildi eftir menntaskólaárin. Ég tók mér hlé í eitt ár á meðan ég hugsaði mig um og kenndi við gagnfræðaskólann í Mosfellsbæ. En svo fór að ég innritaði mig í viðskiptafræði og þjóðhagskjarna við Háskóla Íslands. Ég lauk náminu á fjórum árum.“ Og þá tók framhaldsnámið við.“ Já þá hélt ég til Bandaríkjanna. Til Los Angeles þar sem ég var við nám í fimm ár og lauk doktorsprófi í hagfræði. Þetta var talsverður sprettur. Ég gat fengið að kenna með náminu og kenndi með því allan tímann. Þannig fjármagnaði ég námið.“

Enginn heyrt um Ísland í bankanum 

Voru viðbrigði að koma til Los Angeles. „Það voru talsverð viðbrigði. Ég fór einn til þess að byrja með til að læra á umhverfið. Við vorum komin með eitt barn þá þótt þeim ætti eftir að fjölga og hugmyndin var að Ragnhildur Pála kæmi síðar þegar ég væri búinn að fá íbúð fyrir okkur. Ég mætti til LA klæddur jakkafötum og með bindi og með tvær níðþungar ferðatöskur sem ekki voru á hjólum. Þegar ég steig út úr flugvélinni var hitinn um 40 gráður. Ég hef trúlega verið nokkuð þungur á mér þannig til fara og með stóra byrði í ágústhitanum á vesturströnd Bandaríkjanna, þangað sem ég hafði aldrei komið áður. Ég var búinn að fá leiðbeiningar um hvernig ég ætti að komast í háskólann. Á endanum komst ég inn á kampinn þar sem ég gat fengið gistingu til bráðabirgða. Ég gat losað um bindið og lagt töskurnar frá mér. Daginn eftir tók inritunarferlið við sem er nokkuð flókið og mér fannst yfirþyrmandi. Mér tókst líka að leigja íbúð og þurfti að láta megnið af því reiðufé sem ég var með á milli handanna af hendi til þess að greiða leiguna. Daginn eftir hélt ég svo í banka til þess að stofan bankareikning. Þá tóku ýmis vandamál við. Ég var með stærstan hluta af því reiðufé sem nota átti til framfærslu í ávísum frá Landsbanka Íslands. Í ameríska bankanum hafði eðlilega enginn heyrt um Landsbanka Íslands eða tekið við ávísun þaðan. Ég man að það tók tíu daga að fá ávísunina innleysta og peningana inn á bankareikninginn. Þetta var fyrir tíma tölvualdar og Internetsins og hefur eflaust kostað símtöl og skeytasendingar á milli Íslands og Bandaríkjanna. En hafðist þó. Ég var hálf blankur þessar fyrstu tvær vikur vestra. Keypti mér plastdiska og lifði mest á mjólk og Cheerios morgunkorni. Ég hafði fengið upplýsingar um nöfn á fólki sem ég gæti haft samband við. Frændfólk Ragnhildar Pálu. Ég fletti öllum símaskrám sem ég komst í en fann ekkert um þetta fólk. Skýringar á því komu þó síðar. Fólkið rak húsvagnagarð og voru skráð í símaskránni undir nafni fyrirtækisins. Eftir að þetta skýrðist komst ágætt samband við fólkið.“

Bréfið var mánuð á leiðinni heim

Og Vilhjálmur heldur áfram. „Næsta skerf í vestrinu var að koma upplýsingum heim um að ég hefði komist alla leið og allt væri í lagi með mig. Það gekk ekkert betur en að skipta Landsbankaávísuninni. Ég átti ekki von á neinum erfiðleikum og skrifaði bréf heim til Ragnhildar Pálu. Bréfið lenti hins vegar í hinum mestu ógöngum. Ég veit ekki hversu langt það fór. Hvort það fór hringinn í kringum hnöttinn. Af tímalengdinni sem tók að koma því til skila mætti ráða hnattferð. Ég var ekki komin með síma og auralítill á meðan ekki var búið að skipta ávísuninni og símtöl dýr á milli þessara fjarlægu staða á þeim tíma. Fjölskyldan fékk ekkert að vita af mér í heilan mánuð. Vissi ekki hvort ég væri lífs eða liðinn, þótt hún vonaði hið besta sem raunin varð. Ástæða þess að bréfið fór á þetta flakk var sú að ég hafði skrifað Reykjavík Iceland framan á það en ekki Reykjavík Europ Iceland. Bandarískir póstmenn vissu ekkert hvar þetta Iceland var. Hvort það væri í Karíbahafinu eða Ástralíu eða annars staðar. Bréfið fór bara eitthvað. En ef ég hefði merkt það Europ Iceland hefði það verið sent beint til Evrópu þar sem meiri þekking á Íslandi er fyrir hendi. Þá hefði það verið í mesta lagi fimm daga á leiðinni í staða mánaðar. En svo fór maður að læra á þetta og samskiptin að komast í gang. Ég tók fljótt til við námið og fékk auk þess kennslu. Það efldi auraráðin dálítið. Ragnhildur Pála kom svo fljótlega út til mín en dóttir okkar varð eftir heima Íslandi þar sem hún var hjá skyldfólki þetta fyrsta ár. Við eignuðumst annað barn í nóvember 1978. Þá vorum við búin að fá hjónaíbúð og komum út með tvö börn. Strákurinn var aðeins sex vikna.“ Vilhjálmur og Ragnhildur Pála komu heim til Íslands með börnin á hverju sumri sem þau dvöldu í Los Angeles. „Já – við komum alltaf heim á sumrin. Ég var að vinna á hverju sumri hér heima. Oftast í þrjá mánuði. Bæði til að afla peninga en einnig var viðvera hér heima góð til þess að halda tengslum í samfélaginu. Meiri hætta er á að gleymast ef dvöl erlendis fer yfir langan tíma og ekkert er komið heim til að sýna sig.“

Sigurjón, Jakob og Jónas R 

Vilhjálmur segir að erfitt hafi verið að fjármagna nám erlendis á þessum árum. „Aðstoðarkennarastaðan hjálpaði okkur verulega. Talsvert var um að fólk væri með gjaldeyri keyptan á svörtum markaði því hörð gjaldeyrisskömmtun var þá enn við lýði á Íslandi. Nokkrir Íslendingar voru í Los Angeles á þessum tíma. Sigurjón Sighvatsson kom aðeins á eftir mér og við vorum nágrannar. Símon Gunnarsson var þarna og svo Jakob Magnússon og Anna Björnsdóttir sem þá voru par. Anna stafaði sem módel og Jakob var á kafi í tónlistinni. Stuðmenn voru vaknaðir til lífsins en hann var að starfa með öðrum og að öðrum verkefnum á þessum tíma. Jónas R. Jónsson kom líka og það var heilmikið líf í kringum þetta fólk. Við fórum saman á fótboltaleiki og horfðum á háskólaliðið þegar það var að spila. Íslendingar ná oftast vel saman þegar þeir búa á svipuðum slóðum í öðrum löndum. Við vorum því alls ekki einangruð þarna.“

Vildum báknið burt

„Við komum alkomin heim um sumarið 1982. Þá fór ég að vinna sem hagfræðingur hjá Félagi íslenskra iðnrekenda. Þorsteinn Pálsson síðar ráðherra var framkvæmdastjóri þar og réð mig þangað. Ég fór einnig að vinna að framtíðar stefnumörkun fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þá var mikið í umræðunni sérstaklega innan raða Sambands ungra sjálfstæðismanna að draga bæri úr umsvifum ríkisins og slagorðið „báknið burt“ varð til. Báknið er enn til og spurning er um hversu stórt það er. Ýmislegt hefur þó breyst. Þegar þessi umræða fór af stað innan SUS þótti fráleitt að selja ríkisfyrirtæki. Sem dæmi um umsvif hins opinbera má nefna að Ferðaskrifstofa ríkisins hafði einkaleyfi á móttöku ferðamanna.“

Komst á þing í kosningunum 1991 

Þú fórst svo að huga að Alþingi. „Ég var formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna 1985 til 1987. Ég fór síðan í framboð 1987 en náði ekki inn. Borgaraflokkurinn varð til það ár og tók nokkuð frá okkur Sjálfstæðismönnum en það munaði ekki miklu. En ég komst inn í kosningunum 1991. Ég var í öðru sætinu sem var baráttusæti og var úti og inni á víxl alla kosninganóttina en datt endanlega inn á lokametrunum. Framsóknarflokkurinn hafði alltaf verið stærri í gamla Norðurlandskjördæmi vestra en 1999 varð Sjálfstæðisflokkurinn stærri. Held að þar hafi munað um að Siglufjörður hafði þá færst yfir í kjördæmið en þar bjó talsvert af sjálfstæðisfólki. Eftir kjördæmabreytinguna 2003 datt ég út og fór þá til Washington þar sem ég vann fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í eitt ár. Þarna hafði ég starfað sem framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands, setið á Alþingi og starfað fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þetta voru ólíkir samstarfshópar en skemmtilegir hver á sína vísu. Ég starfaði sem ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu um tíma þegar Árni Mathíesen var sjávarútvegsráðherra, en fór síðan til Samtaka atvinnulífsins til árið 2006.“

Tók við erfiðu búi á Bifröst 

En svo ákvaðstu að fara í Borgarfjörðinn. „Ég tók við stöðu rektors Háskólans á Bifröst 2013 og var þar í sjö ár. Þetta var um margt erfiður tími. Einkum fyrstu árin. Skólinn var illa settur tæknilega séð og mikið tap var á rekstrinum. Mikið hafði verið byggt á vegum skólans sem nýttist illa. Í fyrstu hafði verið gengið út frá að nemendur byggju á staðnum en síðar kom í ljóst að margir kusu að vera í fjarnámi. Fyrir því eru ýmsar ástæður en einkum þær að margir nemendur vilja vinna með námi sem er ekki auðvelt búandi í uppsveitum Borgarfjarðar. Við þurftum því að aðlaga skólann nýjum aðstæðum og nú stundar stærstur hluti nemenda fjarnám. Ekki var hjá því komist að verða við óskum þeirra. Við Ragnhildur Pála ákváðum að flytja alveg upp eftir. Þetta var í þriðja skiptið sem við yfirgáfum ættarsetrið í Vesturbænum en hluti af fjölskyldunni bjó í húsinu á meðan. Þrátt fyrir ýmsa erfiðleika í rekstri skólans og mikla vinnu áttum við góð ár þarna efra. Ragnhildur Pála er sérkennari og kenndi við grunnskólann á Varmalandi. Við sjáum ekki eftir að hafa gert þetta.“

Bifröst í Borgarfirði þar sem þau Vilhjálmur og Ragnhildur Pála bjuggum um árabil.

Fór út á miðvikudegi og var búin að kaup húsið á sunnudegi 

Sumir hlakka til eftirlaunaáranna en aðrir kvíða þeim. Vilhjálmur og Ragnhildur duttu ofan á það sem ef til má telja ótrúlegt. „Við höfðum stundum rætt um að gaman væri að koma sér upp heimili við Miðjarðarhafið þegar starfstímanum væri lokið. Ragnhildur Pála hefur alltaf haft mikinn áhuga á menningu austurlanda og lesið sér til um sögu þeirra. Í ársbyrjun 2008 var sölusýning þar sem verið var að kynna aðstæður við Miðjarðarhafið og boðið var upp á fimm daga ferð til Tyrklands. Ég stóð í miðjum samningaviðræðum og átti ekki heimangengt en Ragnhildur Pála tók vinkonu sína með sér og þáði ferðina. Þær fóru út á miðvikudegi og hún var búin að kaupa húsið á sunnudegi. Þótt tíminn væri skammur var þetta sérstaklega vel valið hjá henni. Þetta þýddi að maður fór að lesa sér til um sögu Tyrklands og sérstaklega þess svæðis sem húsið er.“

Nei – Erdogan er ekki einræðisherra

Þau Vilhjálmur og Ragnhildur Pála hafa dvalið nokkuð í Tyrklandi og einkum um sumartímann. „Þetta er búið að vera gaman. Að dvelja þarna í góðviðrinu og einnig að fylgjast með því sem er að gerast í landinu. Árið 2003 fyrir bráðum tveimur áratugum kom Recep Tayyip Erdogan núverandi forseti Tyrklands fram á sjónarsviðið. Hann var borgarstjóri Istanbúl frá 1994 til 1998. Síðan forsætisráðherra Tyrklands frá 2003 til 2014 að hann tók við forsetaembættinu. „Menn hafa ýmsar skoðanir á Erdogan en eitt af því sem hefur styrkt hann er bættur efnahagur Tyrkja. Þegar hann tók við voru meðaltekjur Tyrkja um 45% af meðaltekjum í Evrópusambandinu en eru nú komnar í um tvo þriðju af meðaltekjum. Að mínu mati er mesta vandamál Tyrkja að þeir hafa ekki náð að byggja upp neinn sparnað að ráði. Við þekkjum þetta vel vegna þess að ef við hefðum ekki byggt lífeyrissjóðina upp stæðum við í sömu sporum. Hefðum ekki sparnað í landinu.“ Talið berst aftur að Erdogan. „Nei – hann er ekki einræðisherra þótt ýmsir haldi að svo sé. Það eru öflugir stjórnarandstöðuflokkar í landinu og ekki þar með sagt að hann gæti ekki fallið í kosningum. Þegar tilraun til valdaráns var gerð fyrir nokkrum árum og barin niður af hörku þá vakti athygli hversu fáir virtust styðja hana. Efnahagsmálin skipta máli og atvinnulífið hefur stutt flokk Erdogans að miklu leyti. Hann hefur verið nokkuð frjálslyndur í efnahags- og atvinnumálum eins og sést af hækkandi meðaltekjum Tyrkja. Við verðum vör við að það eru fleiri stjórnmálaflokkar í landinu því þar sem við erum er á svæði þar sem aðrir flokkar en forsetans eru í miklum meirihluta. En ég neita ekki að þetta hefur verið skemmtileg viðbót við lífshlaupið.“

You may also like...