Ný og víðtæk lýðheilsustefna Reykjavíkur

Frá kynningu á lýðheilsustefnu Reykjavíkur.

Fyrsta lýðheilsustefna Reykjavíkur var samþykkt í borgarstjórn í haust en unnið hefði verið að undirbúningi stefnunnar í tvö ár. Með stefnunni er horft til framtíðar og þess að Reykjavík verði heilsueflandi, sjálfbært og fjölskrúðugt borgarsamfélag sem stuðlar að öryggi, jöfnuði, virkri þátttöku og vellíðan allra. 

Áhersla á lýðheilsu verður ofin inn í alla starfsemi og stefnumörkun Reykjavíkur og að starfið byggir á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma. 

Meginmarkmið stefnunnar eru þrjú:  Markmið 1. Bætt heilsa og vellíðan á öllum æviskeiðum. Lykilþættir fyrsta markmiðs eru  a. Heilsueflandi borg (fólk og staðir) b. Fyrirmyndarborg í forvörnum c. Borgarþróun fyrir heilsu fólks og jörðina. Markmið 2. Jöfnuður til heilsu og vellíðanar – engin skilin eftir. Lykilþættir annars markmiðs eru a. Jöfnuður b. Þátttaka allra c. Öryggi og friður.

Markmið 3. Heilsa og vellíðan er vegvísir í allri starfsemi Reykjavíkurborga. Lykilþættir þriðja markmiðs eru a. Samstarf um heilbrigða borg. b. Lýðheilsustarf byggt á gögnum og reglulegum mælingum. c. Sjálfbært velsældarhagkerfi.

Aðgerðir gegn einmannaleika

Samhliða samþykkt lýðheilsustefnunnar var samþykkt aðgerðaráætlun fyrir stefnuna til næstu þriggja ára. Meðal þess sem þar kemur fram er stofnsetning Lýðheilsusjóðs Heilsueflandi hverfa, innleiðing gátlista Heilsueflandi samfélags, allir leik- og grunnskólar og félagsmiðstöðvar verði heilsueflandi fyrir 2025, allir vinnustaðir Reykavíkurborgar verði heilsueflandi fyrir 2025, mótun forvarnaáætlunar 2021 til 2025, fræðsluátak um lýðheilsu og heilsulæsi, mikilvægi svefns fyrir heilsu og líðan, heilsuefling aldraðra, aðgerðaáætlun um bætta félagsfærni barna, innleiðing matarstefnu Reykjavíkurborgar, bætt loftgæði, dregið úr aðgengi að sykruðum vörum. Til stendur að greina stöðu viðkvæmra hópa í samfélaginu og ójöfnuð í heilsu eftir hverfum borgarinnar. Aðgerðir gegn einmanaleika standa til og skipulag neyðastjórnar borgarinnar og viðbragðsáætlanir verða yfirfarnar. Eitt af þremur áhersluverkefnum lýðheilsustefnunnar er svo tilraunaverkefnið ,,Frístundir í Breiðholti“. 

Á næstu mánuðum verður unnið með skipulögðum hætti að gerð aðgerðaáætlunar um lýðheilsu í Breiðholi til næstu þriggja ára. Leitað verður eftir víðtækri aðkomu fulltrúa stofnana, félagasamtaka, einkaðaðila og almennings á öllum aldri að því verki. Því eins og merkja má af textanum hér að ofan er hugtakið lýðheilsa víðtækt og spannar allt samfélagið.

Þráinn Hafsteinsson.

Verkefnisstjóri frístunda og félagsauðs.

Þjónustumiðstöð Breiðholts.

You may also like...