Ungbarnaleikskóli í gamla Mýró

Nýr ungbarnaleikskóli í gamla Mýrarhúsaskóla.

Nýr ungbarnaleikskóli opnaði fyrsta október sl. í gamla Mýrarhúsaskóla. Skólinn er fyrir börn á öðru aldursári til tveggja ára og heitir deildin Kríuból. Um er að ræða sjálfstæða fag- og rekstrareiningu á vegum Seltjarnarnesbæjar. Leikskólastjóri er Harpa Frímannsdóttir, grunnskólakennari og eru starfsmenn leikskólans fimm talsins.

Átta börn eru í skólanum og gekk aðlögun þeirra virkilega vel. Leikskólastarfið hefur farið vel af stað þennan fyrsta mánuð. Á næstunni verða svo fleiri börn tekin inn. Lögð er áhersla á að börnin læri í gegnum leik, sköpun, útiveru og málrækt. 

Endurbætur voru gerðar á húsnæði og lóð skólans áður en að hann opnaði. Útisvæðið er orðið mjög fallegt og hentar einkar vel aldurshópnum. Öryggisins vegna voru gúmmímottur lagðar sem undirlag útisvæðisins og settar voru upp rólur, rennibraut, sandkassi og bíll. Innandyra eru húsgögn frá Krumma en öll borð, stólar og annar búnaður eru í réttri hæð fyrir börnin. Leikskólinn hefur auk þess yfir að ráða kerrum svo hægt er að fara með börnin í leiðangur um nærumhverfið sem og í íþróttahúsið þar sem börnin eiga tíma í fimleikasalnum einu sinni í viku. Fyrstu leikskólabörnin spjara sig greinilega vel og upplifa nýjan heim í samvistum við jafnaldra.

You may also like...