Nauðsynlegt að láta verkin tala

Hildigunnar Gunnarsdóttir.

Hildigunnur Gunnarsdóttir náms- og starfsráðgjafi og framhaldsskólakennari í Kvennaskólanum í Reykjavík spjallar við Nesfréttir að þessu sinni. Hildigunnur er fædd og uppalin í Vesturbænum en hefur búið um fjögurra áratuga skeið á Seltjarnarnesi. Hildigunnur hefur einnig sinnt ýmsum málefnum á Seltjarnarnesi og má þar nefna fimleikaþjálfun hjá Gróttu og margvísleg störf í þágu barna og ungmenna og eldri bæjarbúa. Hún er formaður Notendaráðs fatlaðs fólks á Nesinu, en því var komið á fót í tengslum við flutning málaflokksins til sveitarfélaga. Tíðindamaður hafði ekki setið lengi með Hildigunni á Kaffi Örnu þegar hann fann hversu hún brennur fyrir því sem hún tekur sér fyrir hendur.

„Við fluttum hingað á Nesið á árinu 1981. Við maðurinn minn Ásbjörn Jónsson erum bæði Vesturbæingar. Ég er uppalin á Lynghaganum en hann kemur af Meistaravöllunum. Við fórum því ekki langt frá æskustöðvunum þegar við fluttum á Nesið. Og það var ekkert annað sem ýtti okkur þangað en leit að húsnæði. Þá var stóra blokkin við Norðurströndina, sem stundum var kölluð „Hornbjargið“ nýlega byggð og hægt að festa kaup á glænýrri íbúð. Síðan höfum við fært okkur til á Nesinu og erum nú á Melabrautinni. Ég starfa við Kvennaskólann og hann rekur fyrirtækið Fiskkaup í Örfirisey. Við getum að því leyti ekki verið betur staðsett.“   

Lífsgæði í nálægðinni

En hvað segir Vesturbæingurinn Hildigunnur að öðru leyti um Seltjarnarnes. „Mér finnst við búa í frábæru samfélagi. Öll börnin okkar þrjú eru fædd hér á Nesinu og hafa alist hér upp. Strákarnir eru báðir farnir að heiman en hafa ekki farið langt, búa á Nesinu og dóttirin sem er yngst er enn heima. Nærumhverfið er mjög gott. Í ekki stærra bæjarfélagi en Seltjarnarnes er nálægð fólks mikil. Ég segi ekki að allir þekki alla en margir kannast við marga. Hér er stutt í skóla og allt félags- og íþróttastarf fyrir krakkana. Allt er í göngu- og hjólreiðafæri. Hér er því lítið um skutl með krakka sem getur verið talsverður baggi í fjölmennari byggðum, svo ekki sé minnst á kolefnasporið. Ekki má heldur gleyma því að þótt Seltjarnarnes sé sérstök byggð og bæjarfélag að þá er byggðin í miklu nágrenni við miðju höfuðborgarinnar. Mikið nær henni en mörg hverfi í Reykjavík. Í þessu felast mikil lífsgæði.“

Fimleikarnir óþekkt stærð

Hildigunnur hefur meðal annars starfað sem fimleikaþjálfari. Hún var fyrsti þjálfari og formaður fimleikadeildar Gróttu. Hún kveðst haf fengið fólk á sínum aldri í lið með sér og áhuginn hafi fljótt komið í ljós. Öflug fimleikadeild hafi sprottið upp. „Ég tel að fimleikarnir hafi  dálítið vanmetnir en upp úr þessi hafi verið farið að veita þeim meiri athygli. Ég get því talið mig brautryðjanda á þessu sviði.“ En fimleikarnir voru ekki það eina sem Hildigunnur brann fyrir eftir að hún fluttist á Seltjarnarnes. „Ég fór fljótleg að velta fyrir mér með hvaða hætti mætti bæta mannlífið hér á Nesinu. Ég var virk í íþróttahreyfingunni og hafði einnig kynnst æskulýðsmálum. Meðal annars verið forstöðumaður í Tónabæ. Ég hef alltaf fundið hversu samfélagsleg ábyrgð er ríkur þáttur í persónu minni og skapgerð og mér er eiginlegt að fylgja því eftir eins og ég get. Mér fannst til að mynda mikilvægt að taka þátt í foreldraröltinu á Nesinu, því sýnileik fullorðinna hefur forvarnargildi í málefnum barna og unglinga og í Selinu fer fram mikilvægt forvarnarstarf sem ber að halda vel utan um.

Formaður notendaráðs

En hvað er Hildigunnur að fást við þessa dagana fyrir utan dagleg kennslustörf.  Fyrst ber að nefna formennsku i notendaráði fatlaðs fólks. “Þetta hófst með því að málefni fatlaðs fólks voru flutt frá ríkinu til sveitarfélaganna án þess þó að sérstakir fjármunir fylgdu með. Hlutverk notendaráðsins er að vera vettvangur samráðs og samstarfs við sveitarfélögin um hagsmuni fatlaðs fólks. Markmiðið er að gefa fötluðu fólki tækifæri að hafa áhrif á þá þjónustu sem því stendur til boða. Við höfum þegar lagt fram og samþykkt reglur Seltjarnarnesbæjar um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra sem eru með langvarandi stuðningsþarfir og í vinnslu eru samskonar reglur fyrir fullorðna.

Var í framhaldsnámi með Árna Einars

Hildigunnur hefur haft nokkur afskipti af stjórnmálum á Nesinu þótt hún sé ótengd stjórnmálaflokki eða afli sem stendur. “Ég starfaði með Neslistanum um tíma. Þetta kom til því að Árni Einarsson sem lengi var driffjöðrin í því starfi og bæjarfulltrúi er skólabróðir minn. Við vorum saman í framhaldsnámi og höfum bæði mikinn áhuga á uppeldis- og menntamálum. Við kynntumst í náminu og Árni hafði trú á mér. Fékk mig eiginlega í þetta og var ég meðal annars í skólanefnd, íþrótta- og tómstundanefnd, jafnréttisnefnd og öldungaráði. Nú starfa ég sem formaður notendaráðsins og stefni að því að verða að gagni. Að láta verkin tala eins og mér er tamt að gera, frekar en að tala um verkin mín.”

Hildigunnur og Ásbjörn ásamt börnum sínum. Myndin var tekin þegar dóttirin útskrifaðist úr Versló.

Tölvunotendanámskeið fyrir 60 plús

Hildigunnur stóð fyrir námskeiði fyrir eldri borgara á Seltjarnarnesi sem fór fram í apríl fyrr á þessu ári. Námskeiðið fjallaði um notkun samskiptamiðla á netinu í tómstundum fyrir 60 ára og eldri. Hún segir margt eldra fólk með góða starfsorku þótt það sé komið á eftirlaun og vanti oft áhugaverð verkefni. “Á námskeiðinu var farið yfir notkun á helstu samskiptamiðlum. Þar á meðal Facebook, Messenger, Face time og Snapchat. Nemendum var kennt að “gúggla” eða leita eftir fróðleik á netinu. Fólki var bent á að kanna styrkleika sína og áhugasvið. Hugmyndin að baki námskeiðinu var fyrst og fremst að hjálpa þátttakendum að læra á og hagnýta sér ýmsa afræna miðla til að öðlast þekkingu á og bæta við það sem fyrir var. Á lokadegi námskeiðsins fóru fram verklegar æfingar þar sem meðal annars var farið í hvernig fólk skráir sig til þátttöku á námskeiðum á netinu. Í málefnum eldri bæjarbúa stefnum við síðan að því að fara í starfsspeglun (e. job shadowing) til Litháen til að kynna okkur stefnumótun í notkun eldra fólks á rafrænum miðlum í tengslum við nám á netinu, en til þess hef ég fengið Erasmus-styrk.“

Í alþjóðlegu samstarfi

Hildigunnur sinnir ekki aðeins málefnum fatlaðs fólks og eldri borgara á Seltjarnarnesi um þessar mundir heldur auk þess kennslu og ráðgjöf við Kvennaskólann. Þar hefur hún tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi. „Alþjóðlegt samstarf hefur lengi skipað stóran sess í skólastarfinu í Kvennaskólanum. Starfsfólk og nemendur hafa sýnt mikinn metnað í hinum ýmsu verkefnum og er slíkt samstarf orðinn ómissandi þáttur í skólastarfinu.“ Eitt slíkra verkefna er Student Voices: Revitalising the school system, sem hlaut Evrópuverðlaun fyrir nýsköpun í kennslu. Verkefnið var samstarfsverkefni grunn- og framhaldsskóla í þremur löndum; Íslandi, Danmörku, og Finnlandi. Auk Kvennaskólans tók Landakotsskóli þátt í verkefninu á Íslandi ásamt Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða. „Við unnum nokkrar að þessu á vegum Kvennaskólans en verkefnið miðaði að því að finna nýjar leiðir í nálgun og kennslu raungreina með því að koma á opnu samtali milli kennara og nemenda og gefa nemendum þannig rödd í eigin námi. Auk þess var ýmsum aðferðum beitt til að hlusta á raddir nemenda, vinna með þær og þróa kennsluaðferðir. Verkefnið var verðlaunað fyrir að vera vel heppnað dæmi um hvernig kennarar geti tileinkað sér nýjar aðferðir og nemendur tekið virkari þátt í námi sínu og þannig tekið enn meiri ábyrgð á því.“ Kaffið var löngu búið. Hildigunnur stóð upp og þakkaði fyrir spjallið. Trúlega var vinnudegi hennar ekki lokið.

You may also like...