Vesturbæjarlaug 60 ára

– griðastaður í Vesturbænum –

Vesturbæjarlaug er 60 ára. Hún var tekin í notkun 25. nóvember 1961 og opnuð fyrir almenningi þann 2. desember sama ár. Byggingarnefnd var skipuð árið 1953 og var Birgir Kjaran formaður hennar. Nefndin fékk fjárfestingarleyfi eftir fjögurra ára baráttu árið 1957.
Vesturbæjarlaug er í hugum margra Vesturbæinga hjarta Vesturbæjarins og þeirra helsti griðastaður. Fyrir marga er viðkoma í lauginni fastur og órjúfanlegur partur af deginum. Fyrir aðra er laugin samkomustaður þar sem fólk hittir vini og kunningja til að eiga góðar stundir saman í heitu pottunum eða gufunni.

Vesturbæjarlaug er almenningssundlaug í Vesturbæ Reykjavíkur. Hún var upprunalega byggð árið 1961 en 1976 voru gerðar endurbætur á henni. Stór heiturpottur með nuddstútum og iljanuddi var tekin í notkun 2014. Barnalaugin er samtengd aðallauginni sem er 25 metrar á lengd. Þrír smærri heitir pottar eru með mismunandi hitastig og einn kaldur pottur. Þar er einnig gufubað.  

Saga Vesturbæjarlaugarinnar er að hún var tekin í notkun 25. nóvember 1961 og opnuð fyrir almenningi þann 2. desember sama ár. Laugin var opnuð að viðstöddum bæjarfulltrúum, íþróttamönnum og öðrum sem beittu sér fyrir byggingu hennar. Birgir Kjaran, alþingismaður, form. byggingarnefndar flutti ræðu. Rakti hann allan aðdraganda þessa máls. Hugmyndin um sundlaug í Vesturbænum mun fyrst hafa komið fram á árinu 1939, þegar KR eignaðist lóð sína við Kaplaskjólsveg, og gerði þá ráð fyrir sundlaug á henni. Árið 1946 sendi Íþróttabandalag Reykjavíkur áskorun til bæjarstjórnar um að sundlaug yrði gerð í Vesturbænum, og upp úr því fór að komast skriður á málið. Reykjavíkurbær lagði fram fjárhæð og bæjarbúar gengust fyrir söfnun málinu til stuðnings. 

Sundleikfimi er m.a. stunduð í Vesturbæjarlauginni.

Fjögur ár að fá fjárfestingarleyfi

Árið 1953 var skipuð byggingarnefnd og var Birgir Kjaran formaður hennar. Nefndin var fjögur ár að fá fjárfestingarleyfi, sem fékkst loks árið 1957. Arkitektar voru þeir Bárður Ísleifsson og Jes Einar Þorsteinsson. Upphaflega samanstóð Vesturbæjarlaug af afgreiðslusalnum sem enn er í notkun, löngum gangi sem snýr að laug þar sem hægt er að njóta sólarinnar í skjóli frá veðri og vindum, svokölluðum sólargangi og svo karla og kvennaklefa þar sem í dag er að finna sánaklefa. Einnig voru útiklefar á stétt vestan megin á laugarsvæðinu.  Árið 1976 var húsið stækkað og við austari enda byggðir nýir búningsklefar á tveimur hæðum, karlar niðri og konur upp og þannig er það enn í dag. Í sama rými fékk starfsfólk bætta aðstöðu. Árið 1999 teiknaði Jes Einar útiklefa við vestari enda hússins og eimbað á útisvæði. Árið 2006 var afgreiðslu breytt, sett upp tkaffistofa og skrifstofuaðstaða og árið 2007 var sett upp þil á milli barna og aðallaugar svo auka mætti hitastig í barnaenda laugarinnar. Fjölskyldu og nuddpottur var byggður í apríl 2014 og þykir í dag ómissandi hluti laugarsvæðisins. Síðast en ekki síst var byggður sérklefi þar sem áður var lítill líkamsræktarsalur í vestari enda hússins nú á þessu 60 ára afmælisári.

Hjarta Vesturbæjarins

Vesturbæjarlaug eða Sundlaug Vesturbæjar eins og margir kalla hana er í hugum margra Vesturbæinga hjarta Vesturbæjarins og þeirra helsti griðastaður. Þó svo að byggingin sjálf hafi tekið þó nokkrum breytingum frá því að hún opnaði fyrst þá hefur hlutverk hennar verið gegnum gangandi að hlúa að andlegri og líkamlegri heilsu Vesturbæinga og annarra gesta. Fyrir marga er viðkoma í lauginni fastur og órjúfanlegur partur af deginum. Fyrir aðra er laugin samkomustaður þar sem fólk hittir vini og kunningja til að eiga góðar stundir saman í heitu pottunum eða gufunni. Gestir njóta dvalarinnar í lauginni á marga vegu og þangað eru allir velkomin óháð kyni, aldri eða trú. Forstöðumaður Vesturbæjarlaugarinnar er Vala Bjarney Gunnarsdóttir.

Þessi grunnur er á lóð Vesturbæjarlaugarinnar. Hann var undirstaða undir gosbrunn eða listaverk eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal. Verkið var gefið Vesturbæingum til Sundlaugar Vesturbæjar og sett upp við vígslu hennar 1961. Verkið var upprunalega úr steini en var orðið afar illa farið þegar það var tekið niður. Þá var það steypt í brons og bronsútgáfan er varðveitt í safneign Listasafns Reykjavíkur.

You may also like...