Efla þarf hjólanet í Breiðholti

– segir Sara Björg Sigurðardóttir –

Sara Björg Sigurðardóttir.

Sara Björg Sigurðardóttir varaborgarfulltrúi og formaður íbúaráðsins í Breiðholti segir að efla verði innviðauppbyggingu í borginn. Rannsóknir sýni að samhliða aukinni innviðauppbyggingu aukist hlutdeild hjólreiða. Fleiri kjósi að hjóla. Hún segir að metnaðarfull hjólreiðaáætlun hafi verið samþykkt fyrir árin 2021 til 2025 með rúmlega fimm milljarða fjárfestingu í hjólaborginni Reykjavík. Hún segir að þættir sem snúa að öryggi vegfarenda séu meðal annars aðgreining hjólastíga frá gangbrautum, trygg lýsing, tíð þjónusta á stígum yfir vetrartímann og aðstaða fyrir hjólreiðafólk á borð við yfirbyggð hjólaskýli, fótahvílu við þveranir gatnamóta og tryggar festingar sem hægt er læsa hjólum á öruggan hátt.

Hún kveðst hafa velt því upp hvort rétt forgangsröðun fjármuna sé að efla enn frekar hjólanet í vestari hluta borgarinnar þar sem nú þegar sé að finna mun þéttara hjólanet með fleiri hjólastígum, meira upphitað stígakerfi en hverfin austan megin sem standa hærra yfir sjávarmáli. Vetrarfærð er þyngri og leiðin inn á stofnstíga hjólreiða er talsvert lengri úr Breiðholti, Árbæ og Grafarvogi. 

Hjólastígar og borgarlína

Þá bendir hún á að í nýsamþykktu hverfiskipulagi Breiðholts sé að finna skilgreinda hjólastíga sem þvera hverfið þvert og endilangt. Þar sé lagður grunnur að sjálfbæru hverfi. Hún kveðst sjá fyrir sér að bæta megi við hjólakrakkakorti af öruggum hjólaleiðum innan hverfisins til og frá skóla, í íþrótta- og tómstundastarf, í verslanir og til annarra erinda sem yrði mikilvægur þáttur í að efla hverfið og gera það sjálfbærara. Hún segir að tilkoma borgarlínunnar gerbreyttra aðstæðum til hjólreiða í Breiðholti. Fólk geti farið um hverfið á hjóli og nýtt þjónustu borgarlínunnar sem staðsett verði í Mjóddinni til þess að fara til annarra borgarhluta. Hjólastígar og borgarlína vinni þannig hvort með öðru.

Hjólrei›ar eru lýðheilsumál

Hún bendir á að hjólreiðar innan hverfis séu ekki aðeins lýðheilsumál heldur einnig loftslagsmál sem mikilvægt er að horfa til. Breiðholtið sé samfélag tuttugu og tveggja þúsund einstaklinga. Með því að forgangsraða fjármunum í hjólastíga og aðra innviði í hverfum austan Elliðár til jafns við stöðuna vestan megin muni hlutdeild hjólreiða aukast ekki bara innan hverfanna sjálfra, heldur líka milli hverfishluta.

Konur hjóla minna – þriðja vaktin leggst meira á þær

Þá vakar spurning um hjólreiðar kvenna. Nota þær reiðhjólið til jafns við karla. Hún segir að svo sé ekki. Eitt af markmiðum hjól-reiðaáætlunnar sé því að fá fleiri konur til að hjóla. Ef litið er á herferð VR um þriðju vaktina sýna rannsóknir að þriðja vaktin leggst meira á konur en karla. Þar má nefna skutl í tómstundir eða innkaup sem kunni að koma fram í vali á samgöngumáta. Öryggi skipti líka máli og helsta ábyrgð foreldra er að tryggja öryggi barna sinna. Ef öryggi barna sé ógnað á götum úti t.d. vegna hættulegrar umferðar, ónægrar lýsingar eða skorti á vetrarþjónustu á stígakerfi velja foreldrar öryggið og keyra barnið heldur en hvetja til hjólreiða eða göngu.  

Aðgerðaáætlun sem tekur mið af stöðinni eins og hún er

Sara Björg kveðst að sem móðir, hjólreiðamanneskja, Breiðhyltingur og áhugakona um vistvænar samgöngur kalla eftir aðgerðaáætlun sem taki mið af stöðunni eins og hún er í dag. Að Breiðholt, Árbær, Grafarvogur og Grafarholt fari í forgang í uppbyggingu nýrra innviða til jafns við þéttleika hjólanetsins vestan megin Elliðaár.

You may also like...