Meistaravellir verði áfram hjartað í Vesturbænum

– segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri –

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tilkynnti á dögunum að hann ætlaði í framboð í vor og leitast eftir umboði kjósenda til að halda áfram sem borgarstjóri. Vesturbæjarblaðið settist niður með Degi og ræddi við hann um borgarmálin, Vesturbæinn og það sem hann kallar „Nýju Reykjavík“ í nýútkominni bók. Dagur er bjartsýnn á framtíð borgarinnar og telur mörg tækifæri í stöðunni.

„Já, mér finnst þetta hafa gengið vel undanfarin ár. Við erum að þróa borgina í góða átt, gera hana skemmtilegri, litríkari og grænni. Við höfum verið að þétta byggð, styðja við jákvæða þjónustu í hverfunum og höfum skýra sýn á hvað þarf að gera næstu árin og á framtíðina. Eitt af lykilverkefnunum felst í Borgarlínu sem er hágæða almenningssamgöngukerfi sem mun hnýta hverfin og næstu uppbyggingarsvæði saman í eina heild.“ 

Grænt eða grátt

„Reykjavík sem einu sinni var grá, er að verða græn í öllum skilningi þess orðs. Það eru fleiri tré, fleiri og blómlegri græn svæði, fleiri blóm að sjálfsögðu en líka fleiri valkostir í samgöngumálum, miklu fleiri hjólastígar, meira af öllu sem er gott fyrir umhverfið og minna af því gráa. Það er þetta sem kosningarnar í vor snúast um, framtíð eða fortíð, grænt eða grátt. Ég hef stundum sagt að fólk þurfi ekki að vera 100% sammála meirihlutanum í öllu en ef það er sátt við þessa leið sem við erum að fara, að byggja borg fyrir fólk, þessa grænu áherslur í samgöngum og réttlátu leið í húsnæðismálum þá er valið einfalt í kosningunum í vor,“ segir Dagur. 

Vesturbæingar duglegastir að ganga og hjóla

„Vesturbærinn hefur að sumu leyti sýnt að það skapar gott mannlíf ef ferðamátarnir eru fjölbreyttari. Það eru fleiri sem ganga og hjóla í Vesturbænum en í öðrum hverfum þótt við viljum alls staðar gera betur. Það eru til dæmis ennþá gríðarlega margir sem vilja helst geta skilið bílinn eftir heima ef aðrir góðir kostir eru í boði. Það á til dæmis við um 70% Vesturbæingar, samkvæmt könnunarfyritækinu Maskínu. Þetta tengist því í mínum huga að Vesturbærinn er í grunninn gott, vel staðsett og vel skipulagt hverfi og mikill metnaður í gríðarlega mörgu. Reykjavíkurborg á tvímælalaust að standa með borgarbúum í þessu.“  

Bjart yfir starfi KR til framtíðar

Nóg er um að vera í Vesturbænum eins og endranær en KR-ingar hafa nýlega kynnt spennandi hugmyndir um uppbyggingu við Frostaskjól. Dagur segir hugmyndir KR-inga fara vel saman við framtíðarsýn borgarinnar á Vesturbæinn sem er eitt eftirsóttasta hverfið í borginni. 

„Við höfum verið að ræða þessa hluti síðast liðin ár. Í fyrra náðist gríðarlega mikilvægur áfangi þegar við skrifuðum undir sameiginlega framtíðarsýn og vilja til að ráðast í uppbyggingu fjölnotahúss á KR-svæðinu. Hluti af samkomulaginu var að vinna nýtt skipulag fyrir svæðið sem verið var að samþykkja í auglýsingu. Framundan eru kynningarfundir og samtal en við viljum að næstu skref séu tekin markvisst. Hugmyndin er að byggja fjölnotahús, snúa aðalvelli félagsins og opna á byggingu íbúða. Það er einnig hægt að sjá fyrir sér hverfistengda þjónustu. Aðaláherslan er þó á þarfir barna, unglinga og íþróttastarfsemi til langrar framtíðar. Ég held að það sé óhætt að segja að það sé bjart yfir starfi KR til framtíðar í þessu ljósi. Meistaravellir verða sannkallað hjarta vesturbæjarins, eins og þeir hafa að mörgu leyti verið.“

Svona mun KR svæðið líta út séð frá Kaplaskjólasvegi eftir endurbyggingu.

Hvaða önnur verkefni eru helst á döfinni í Vesturbænum?

„Ég er að ljúka hverfaviku í Vesturbænum sem hefur verið mjög vel heppnuð. Skólarnir eru mjög sterkir, skólastarf einkennist af metnaði og þjónustan öll að mörgu leyti til fyrirmyndar. Vesturbæjarskóli nýtur góðs af viðbyggingu og endurgerðri skólalóð. Þarfagreining liggur fyrir um umbætur í húsnæðismálum Melaskóla og verður efnt til samkeppni um þær og nýtingu Hagatorgs til framtíðar. Húsnæðismál Hagaskóla hafa verið í deiglunni vegna yfirgripsmikilla viðgerða á núverandi húsnæði. Því verður sinnt af krafti en það er einnig verið að skoða viðbyggingu við skólann vegna fjölgunar barna sem leiða mun af nýju hverfi í Skerjafirði. Fyrri áfangi þess hefur verið samþykktur og verða það um 700 íbúðir. Síðari áfanginn, næst sjónum er enn í mótun en um er að ræða eitt grænasta skipulag í sögu borgarinnar. Leik- og grunnskóli mun risa á svæðinu, Skerjafjarðarskóli en unglingar munu verða í Hagaskóla. Þar þarf því að byggja við.“

Leikskólarnir mikilvægir

„Við höfum einnig verið í stóru verkefni á undanförnum árum sem gengur út á það að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Þar gerum við ráð fyrir að opna nýja leikskóla, stækka suma eldri skóla og setja niður tímabundna leikskóla, það sem við köllum Ævintýraborgir. Núna í mars mun ein Ævintýraborg opna við Eggertsgötu en fyrirhugað er að bjóða upp á enn fleiri pláss í vesturbænum á þessu ári. Leikskólaplássum er því að fjölga hratt. 

Umferðarhraðinn er að lækka

Mikil umfjöllun hefur verið um hraðakstur á Hringbraut og annars staðar í Vesturbæ. Dagur segir umferðaröryggismálin vera mikilvæg og öryggi gangandi og hjólandi eiga að vera í forgang

„Við höfum verið að lækka hraða í hverfum mjög markvisst með sérstakri hámarkshraðaáætlun. Til dæmis þá erum við að fara að lækka hraðann á þessu ári á Hofsvallagötu við Vesturbæjarlaug niður í 30 km. Á Einarsnesi verði sömuleiðis hraði lækkaður niður í 30 km á völdum kafla. Á seinni stigum lækkum við hraðann við Suðurgötu sunnan Skothúsvegar niður í 40 km, Þorragötu sömuleiðis og Njarðargötu. Við erum að setja ný gönguljós við Hringbraut og skipta út gömlum við Framnesveg og Bræðraborgarstíg og bæta öryggi við Hofsvallagötu og Hringbraut með nýjum ljósum og nýrri og betri lýsingu og hönnun til að auka öryggi enn frekar.“

Miðborgin frá Granda upp á Hlemm

Þar sem miðborgin er líka leikvöllur Vesturbæinga leikur blaðamanni forvitni á að vita um þær breytingar sem hafa orðið á gömlu miðborginni undanfarin ár.  

„Vesturbæingar eiga auðvitað sína eigin þjónustukjarna eins og við Hofsvallagötuna og það er einhvern veginn stutt í allt í vesturbænum. Miðborgin hefur verið að taka miklum og áhugaverðum breytingum, hún hefur stækkað út á Granda og upp á Hlemm þar sem sannkölluð andlitslyfting á Hlemmtorgi eru fyrirhuguð. Íbúðir eru víða að rísa á spennandi reitum. Á undanförnum árum hafa til að mynda risið 500 íbúðir frá Hlemmi og niður að Hafnartorgi þannig að börnum hefur fjölgað á nýjan leik í 101. Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum að Héðinsreitur er á fullu í uppbyggingu en við sjáum fyrir okkur verklok þar á næsta ári. Steindórsreitur er líka spennandi framkvæmdasvæði þar sem verður fullt af íbúðum með þjónustu á jarðhæð fyrir Vesturbæinga og aðra borgarbúa.“ 

Sterkir hverfiskjarnar

„Með fjölgun íbúa skapast þessi skemmtilegi borgarbragur sem við þekkjum þar sem sterkir hverfiskjarnar ná að myndast og við kynnumst erlendis. Við sjáum veitingastöðum fjölga, fólk situr úti í öllum veðrum og Reykjavík verður einhvern veginn meiri borg. Laugavegurinn er að snúa vörn í sókn með því að verða göngugata og áhugaverðar verslanir og veitingastaðir hafa verið að bætast við eftir kóvíd. Hafnartorgið og Austurhöfnin munu svo tengja saman Hörpu og Kvosina.“ 

Listaháskólinn, Hús myndlistar og Borgarbókasafnið

Dagur snýr sér að Tryggvagötunni. „Tryggvagatan sem er nærsvæði Vesturbæinga hefur líka nýverið gengið í gegnum endurnýjun lífdaga. Dásamlegt mósaík verk Gerðar Helgadóttur fær nú loks að njóta sín eftir að við fjarlægðum bílastæðin. Listaháskóli Íslands mun flytja inn í þetta sögufræga hús. Á sama tíma mun borgin opna safn Nínu Tryggvadóttur í hluta Hafnarhússins sem þá verður orðið hús myndlistar og loks erum við að endurnýja Grófarhúsið þar sem aðalsafn Borgarbókasafnsins er sem mætti kalla hús orðsins. Þannig verður Tryggvagatan orðinn ein heildstæð borgargata með hlaðborð af afþreyingu, skemmtun, menningu og menntun fyrir borgarbúa á öllum aldri.“

You may also like...