Breiðholtið er í mikilli sókn

– segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri –

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tilkynnti á dögunum að hann ætlaði í framboð í vor og leitast eftir umboði kjósenda til að halda áfram sem borgarstjóri. Breiðholtsblaðið settist niður með Degi og ræddi við hann um borgarmálin, Breiðholtið og það sem hann kallar „Nýju Reykjavík“, samnefnt bókinni sem hann gaf út fyrir jól og fjallað var um í desemberblaðinu. Þar fjallaði hann um löng og góð kynni sín af Breiðholtshverfinu. Dagur er bjartsýnn á framtíð borgarinnar og Breiðholtsins og telur mörg tækifæri í stöðunni.

„Já mér finnst þetta hafa gengið vel undanfarin ár. Breiðholtið er í mikilli sókn og fjölda mörg verkefni sem lengi hefur verið kallað eftir orðin að veruleika eða að verða að veruleika. Fjölnota knatthús í Mjódd, keppnishús í handbolta og körfubolta er að verða að veruleika og glæsilegur frjálsíþróttavöllur. Mjóddin er í stuttu máli að verða eitt glæsilegasta og fjölbreyttasta íþróttasvæði landsins. Endurreisn gömlu hverfakjarananna í Arnarbakka og Völvufelli er líka að verða að veruleika. Það verður gaman að fá stúdentaíbúðir í Breiðholtið og jákvæða uppbyggingu. 

Reykjavík er að verða grænni og grænni

„Breiðholtið er líka orðið svo gróið og grænt. Það sama á við um önnur hverfi. Reykjavík sem einu sinni var grá, er að verða græn í öllum skilningi þess orðs. Það eru fleiri tré, fleiri græn svæði, fleiri blóm að sjálfsögðu, eins og túlipanabreiðurnar í Bökkunum eru dæmi um, en líka fleiri valkostir í samgöngumálum, miklu fleiri hjólastígar, meira af öllu sem er gott fyrir umhverfið og minna af því gráa. Við höfum líka verið að beita okkur fyrir betri almenningssamgöngum og Borgarlínu í Breiðholtið. Borgarlínuverkefnið er lykilatriði til að draga úr umferðartöfum á höfuðborgarsvæðinu, líka fyrir þá sem ætla að vera áfram á bíl. Það er þetta sem kosningarnar í vor snúast um, framtíð eða fortíð, grænt eða grátt. Ég hef stundum sagt að fólk þurfi ekki að vera 100% sammála meirihlutanum í öllu en ef það er sátt við þessa leið sem við erum að fara, að byggja borg fyrir fólk, þessa grænu leið í samgöngum og leið kraftmikillar uppbyggingar í húsnæðismálum þá er valið einfalt í kosningunum í vor,“ segir Dagur. 

Stoltur af Breiðholtinu

Þegar talið berst að Breiðholtinu segist Dagur stoltur af þeim verkefnum sem borgin hefur sett af stað í hverfinu á undanförnum árum. 

„Það er sannarlega hægt að dást að þessu hverfi og í hvert skipti sem ég kem þangað sé ég eitthvað nýtt. Við höfum verið með sérstaka áherslu á Breiðholtið undanfarin ár, með alls konar umbótum, með því að koma Fab Lab fyrir í Breiðholti en nær okkur í tíma eru stærri verkefni eins og það að fjárfesta í úr sér gengnum verslunarkjörnum og þróa þar spennandi framtíð sem mun gera Breiðholtið enn sjálfbærara. Með sjálfbærni á ég við að íbúar hverfisins þurfi ekki að sækja sér þjónustu um langan veg, að íbúafjöldinn sé það mikill að þú getir nálgast alla helstu þjónustu í göngufæri og þurfir ekki að keyra borgarenda á milli til þess. Það er til dæmis leiðarljósið með uppkaupum á Arnarbakka og Völvufellskjörnunum að þar verði svæðin endurreisn en að áfram verði kröftug hverfistengd þjónusta. Við erum komin með spennandi tillögur sem við ætlum okkur að vinna áfram með í sátt og við nærumhverfið.“ 

Hverfisskipulagið framfaraskref

„Svo má ég til með að bæta við að Breiðholtið var eitt fyrsta hverfið í borginni til að fá samþykkt Hverfisskipulag. Þar erum við að leyfa íbúum að gera breytingar á húsnæði sínu án mikils flækjustigs og tilkostnaðar og um leið skilgreina þróunarsvæði, þjónustu og lykilþætti í hverfinu í samráði við íbúa þess. Í fyrstu voru ýmis atriði sem voru umdeild í hverfisskipulaginu. Í gegnum samráð endaði málið hins vegar þannig að aðeins örfáar athugasemdir komu við lokagerð þess. Breið samstaða er því um framtíðarsýn fyrir hverfið. Uppbyggingin á ÍR svæðinu er annað mál sem ég er mjög stoltur af en þarna eru Breiðhyltingar komnir með aðstöðu á heimsmælikvarða. Dans- og fimleikahús Reykjavíkur rís svo í efra Breiðholti á næstu árum og með því að færa íþróttirnar nær íbúunum sjáum við fyrir okkur að ná til fleiri og fjölbreyttari hópa krakka sem þar búa. Ég hef líka lagt mikla áherslu á gott samstarf við FB og borgin er að leggja umtalsverða fjármuni í uppbyggingu í þágu skólans í samstarfi við ríkið. Þannig að möguleikarnir eru mjög margir í Breiðholti á næstu árum. 

Breiðholtið er að ýmsu leyti fjölbreyttasta hverfi borgarinnar. Skólarnir eru sterkir. Skipulag hverfisins er mjög gott. Sambland af sérbýlum og fjölbýli er vel hugsað. Breiðholtið hefur einnig laðað að sér fólk víða að. Reykjavík sér mikil tækifæri í því þótt það séu líka áskoranir. Við höfum efnt til sérstaks verkefnis til að tryggja þátttöku barna- og unglinga í skipulögðu frístundastarfi og íþróttum en við sjáum að það hefur verið minni notkun á frístundakortinu í Breiðholtshverfi en í borginni að meðaltali. Við erum því að auka úrval tómstunda í bæði efra og neðra Breiðholti og efla kynningu á því, auk meiri stuðnings við þær fjölskyldur sem hafa minna á milli handanna.  

Nýr leiðtogi alþjóðateymis

„Þá erum við nýbúin að ráða öflugan leiðtoga alþjóðateymis í Breiðholti, sem er nýtt starf en miðstöðin tók við þjónustu við flóttafólk og hælisleitendur um áramótin. Sú sem var ráðin, heitir Jasmina Vajzovié Crnac og eru stjórnendur á sviðnu afar spennt fyrir verkefninu. Jasmina er mörgum að góðu kunn þar sem hún hefur unnið með sendiherraverkefnið svokallaða. Í Breiðholti eru öflugir hópar íbúa af erlendum uppruna og til að koma á betri tengslum við hópana, til dæmis upplýsingagjöf vegna skólamála, þá hafa verið útnefndir sendiherrar frá ákveðnum tungumálasvæðum. Sem dæmi um tungumálasvæði þá eru sendiherrar nú virkir fyrir hópa sem tala albönsku, arabísku, tælensku, spænsku, pólsku, rúmensku og tungumálum sem eiga afrískan uppruna.“

Breiðholtslaugin best

„Breiðholtslaug er af mörgum hverfisbúum talin ein sú besta á landinu. Hún hefur styrkst með tilkomu World Class, nýja eimbaðið og kaldi potturinn hefur slegið í gegn og endurbæturnar á rennibrautunum ekki síður. Ég vil líka nota tækifærið og hrósa bókasafninu í Gerðubergi. Þar hefur safnið verið með ótrúlega metnaðarfullar ráðgátur fyrir alla fjölskylduna þar sem það nýtir þetta frábæra hús til að skapa dulúð og góða stemmningu. Við fjölskyldan fórum og prófuðum eina af hinum frábæru ráðgátum sem hægt er að taka þátt í á bókasafninu og er eitt af mörgum dæmum um frábært framboð í þessari menningarmiðstöð.“ 

You may also like...