Bókasafnið – 20 ár á Eiðistorgi

Við opnun safnsins 17. júní 2003.

Það er ánægjulegt að segja frá því að um þessar mundir eru 20 ár liðin frá því að Bókasafn Seltjarnarness flutti í núverandi húsnæði á Eiðistorgi en það opnaði þar á 17. júní 2003. 

Bókasafnið á sér samt miklu lengri sögu því Lestrarfélag Seltjarnarness var stofnað 1885 af Framfarafélagi Seltjarnarness. Upphaflega var safnið til húsa í Mýrarhúsaskóla eldri en fékk síðar inni í byggingu nýs Mýrarhúsaskóla. Árið 1983 flutti bókasafnið í nýtt húsnæði Heilsugæslunnar að Skólabraut en flutti svo í núverandi húsnæði á Eiðistorgi. 

Gjörbylting í starfsemi safnsins eftir flutningana

Nýja húsnæðið við Eiðistorg hefur haft mjög jákvæð áhrif á starfsemi safnsins og bæjarlífið á Seltjarnarnesi enda var gamla húsnæðið bæði orðið þröngt og uppfyllti ekki vaxandi þjónustuhlutverk þess. Hlutverk bókasafnsins hefur breyst frá því að vera „einungis“ almenningsbókasafn yfir í að vera menningarmiðstöð okkar Seltirninga en sú áhersla hefur stöðugt aukist. Safnið er lifandi stofnun, öllum opið og þar fer fram fjölbreytt menningarstarf fyrir bæjarbúa og aðra gesti á öllum aldri allt árið um kring. Þangað eru allir, stórir sem smáir, velkomnir að koma, vera og njóta umvafin bókum, menningu, listum og notalegri stemningu. 

Flutningum safnsins voru gerð góð skil í Nesfréttum sumarið 2003. Í viðtali við Pálínu Magnúsdóttur þáverandi bæjarbókavörð kemur m.a. fram að ánægja viðskiptavina safnsins sé mikil en ekki síðri meðal verslunareigenda á Eiðistorgi enda jók ný staðsetning bókasafnsins verulega umferðina og aðsóknina að torginu sjálfu og þjónustufyrirtækjunum þar. 

Við opnun safnsins 17. júní 2003: Marta H. Richter frá Bókasafni Mosfellsbæjar t.v. og Hulda Björk Þorkelsdóttir frá Bókasafni Reykjanesbæjar t.h. færa Pálínu Magnúsdóttur bæjarbókaverði Seltjarnarness gjöf í tilefni dagsins. 

Fjölmargar breytingar og nýjungar á 20 árum

Þrátt fyrir langan tíma á Eiðistorgi þá hafa þessi 20 ár liðið nær eins og hendi sé veifað og ýmislegt breyst í takt við breyttar þarfir hverju sinni. Séu gamlar myndir skoðaðar má sjá að safnið leit ekki eins út þá og nú. Afgreiðsluborði og hillum var fundinn nýr staður og safnið skipulagt upp á nýtt. Ný unglingadeild leit dagsins ljós 2015, útstillingar af ýmsu tagi, tímaritadeildin hefur tekið breytingum og nýjasta breytingin var þegar opnað var milli barnadeildar og unglingadeildar 2021.

Mestu framkvæmdir eftir flutning­ana 2003 urðu þó árið 2017, þegar öllu safnefni, þar með talið öllu efni úr geymslum og vinnustöðvum, auk allra vinnutækja starfsmanna, var pakkað í kassa og troðið inn í Gallerí Gróttu og hvar þar sem var pláss, utan skrifstofu og safns. Lokaði safnið svo í 6 vikur á meðan skipt var um gólfefni og lokað betur á milli hæða áður en að safninu var svo stillt upp aftur. 

Alls kyns nýjungar hafa litið dagsins ljós á þessum tíma, dagskrá í hverjum mánuði yfir veturinn, heimsóknir leikskóla- og grunnskólabarna, ratleikir, þrauta­leikir, föndur, bókmenntakvöld, rithöfundakvöld í jólabókaflóði og tónleikar auk fjölmargra annarra viðburða.  Sýningarsalurinn Gallerí Grótta er vinsæll sýningarsalur og þéttbókaður og prjónahópurinn Selgarnanes hefur aðstöðu í safninu einu sinni í mánuði. 

Eðlilega hafa orðið manna­breytingar, bæði yfirmanna og starfsmanna en enn sem fyrr er frábært að vinna og vera á Bókasafni Seltjarnarness. Dagarnir eru sjaldnast eins enda getur líf og fjör einkennt safnið eina stundina en kyrrð og ró þá næstu. 

Sumarið á safninu árið 2023

Sumarið á Bókasafni Seltjarnar­ness er fjölbreytt að vanda þar sem finna má skemmtilega afþreyingu fyrir alla fjölskylduna. Alla daga er sumargetraun í gangi þar sem dregið er um Syrpu í lok hverrar viku  og alla miðvikudaga frá kl. 15-17 er boðið upp á skemmtilegt föndur. Skákborðið er opið öllum sem vilja, ávallt hægt að fá fjölbreytt spil að láni, snúa persónuleika­hjólinu og sýna listir á teikniborðinu. Blómabýtti er í boði fyrir þá sem eiga eða vantar græðlinga, matjurtir eða kryddjurtir. Í allt sumar standa yfir tvö samstarfsverkefni á landsvísu, annars vegar sumarlesturinn Leitin að ævintýraheimum sem er samstarfsverkefni með bóka­söfnum um allt land og hins vegar Sögudýr Náttúruminjasafnsins þar sem börnum er boðið að velja sögudýr sýningar sem opnuð verður í nýju Náttúruhúsi í Nesi. Úrslit verða kynnt með pompi og prakt á Gróttudeginum 2. september.  Í Gallerí Gróttu stendur yfir myndlistar­sýning Bjargar Eiríksdóttur, Fjölröddun, svo nokkuð sé nefnt af sumarstarfi safnsins í ár.

Verið nú sem áður ávallt hjartan­­lega velkomin á Bóka­­safn Seltjarnarness.

Opnunartími í sumar er: mán. – fim. 10-18:30 og föstudaga 10-17.

Við opnun safnsins 17. júní 2003 – hér sést hvar almenningstölvurnar voru áður og þar fyrir aftan sést í gluggana sem þá voru inn í Gallerí Gróttu (áður Eiðissker).
Hér sést inn í Gallerí Gróttu (þá Eiðissker) fyrir breytingar en þarna var sýning á verkum Jóns Axels árið 2006.

You may also like...