Langar að gera vegglistaverk á Nesinu

— segir Þórdís Erla Zoëga bæjarlistamaður Seltjarnarness 2022 —

Þórdís Erla Zoëga bæjarlistamaður Seltjarnarness 2022 ásamt Kristjáni eiginmanni sínum og börnum þeirra tveimur.

Þór­dís Erla Zoëga mynd­list­armaður var út­nefnd bæj­ar­listamaður Seltjarn­ar­ness 2022 við hátíðlega at­höfn á Bóka­safni Seltjarn­ar­ness föstu­dag­inn 25. mars. Þór­dís Erla er 26. listamaður­inn sem hlýt­ur nafn­bót­ina og veitti Guðrún Jóns­dótt­ir, formaður menn­ing­ar­nefnd­ar bæj­ar­ins, Þór­dísi Erlu viðurkenningarskjal ásamt starfs­styrk að upp­hæð einn­ar millj­ón­ar króna. Nesfréttir settust niður með Þórdísi Erlu á Kaffi Örnu á dögunum og var hún fyrst beðin um að segja nokkuð frá sjálfri sér.

„Ég er upp­al­in á Seltjarn­ar­nesi. Flutti hingað með fjölskyldunni úr Vesturbænum þegar ég var sex ára. Ég fór þessa hefðbundnu leið í Mýró og Való. Ég fór síðan í Menntaskólann við Hamrahlíð og lauk grunnnámi þaðan. Ég skipti yfir í Fjölbrautaskólann í Breiðholti á síðari hlutanum vegna þess að engin myndlistarbraut var í MH en FB var þá komin með öfluga kennslu í listsköpun. Hann var á undan Myndlistarskólanum á þeirri tíð og ég held sinni samtíð. Ef ég hefði ekki gert það hefði ég trúlega ekki komist að við Gerrit Rietveld Academy í Amsterdam þar sem ég stundaði nám á árunum 2008 til 2012 þaðan sem ég lauk BFA gráðu úr hljóð- og sjón­rænu deild stofnunarinnar.“

Langaði til útlanda 

Þórdís segist hafa verið farin að teikna þegar hún var smástelpa. „Tekningin er góður grunnur fyrir frekari listsköpun en alls ekki nauðsynlegur. Ég veit um kunningja mína sem hafa farið í Listaháskólann og talið sig ekki hafa nægilega kunnáttu í byrjun því þeir kunnu ekki að teikna. Ég hefði getað farið í Listaháskólann eins og félagar mínir í FB gerðu margir en mig langað að fara lengra. Til útlanda. Skoða heiminn aðeins. Ég flutti út sumarið 2008. Svona korteri fyrir hrun og var í busaferð í Róm þegar allt hrundi á Íslandi. Þegar ég pæli í því eftir á þá var ég rosalega ung. Unglingur sem hafði aldrei farið að heiman og kunni ekki einu sinni að þvo þvott. Þá hófst líka leit að húsnæði fyrir mig. Húsnæðismarkaðurinn í Amsterdam var erfiður en pabbi fann stúdentaíbúð í gömlu rússnesku skipi sem búið var að breyta í íbúðir. Þetta var ágætt. Ég var ein á þessum tíma. Ekki komin með mann og leið vel innan um þessa fyrrum rússnesku umgjörð. En þetta var gaman og þessir grundvallarhlutir í heimilishaldinu lærðust smám saman. Seinna tók ég námsþráðinn upp aftur hér heima og útskrifaðist með diplómat í Vefþróun úr Vefskólanum árið 2017. Það er nýtt tveggja ára nám í Tækniskólanum og er úr fyrsta árganginum. Það geta verið sveiflur í myndlistinni og þá ég alltaf geta tekið að mér svona verkefni.“

Á Mokka öll menntaskólaárin 

„Ég tengdist listum á fleiri sviðum á námsárunum. Ég vann með náminu. Ég vann á því gróna kaffihúsi Mokka við Skólavörðustíg. Var ein af Mokkastelpunum. Var góð í að smyrja samlokur og búa til gott kaffi. Þú komst stundum á Mokka,“ segir Þórdís snögglega og lítur upp. „Ég man eftir þér. Þú þekktir örugglega ýmsa af fastagestunum.“ Tíðindamaður varð að gangast við því. Menn eins og Ketlill Larsen, Gylfi Gísla, Hilmar Einarsson, Tómas Ponzi og Hafsteinn Austmann komu upp. Fleiri komu í hugann. „Og ég hef örugglega smurt Mokkasamloku með sinnepi fyrir þig.“ Trúlega fleiri en eina og andlit Þórdís rann upp fyrir komumanni sem fékk sér stundum samloku á Mokka þegar hann nennti ekki að elda. „Þetta var góður tími. Guðrún var þá á lífi. Í fullu fjöri og rak Mokka af myndarbrag. Og dæturnar Oddný og Sesselja stóðu að baki þessu með henni. Hannes Sigurðsson listfræðingur og eiginmaður Sesselju var oft ekki langt undan og sá um sýningarnar sem oft voru settar upp á kaffihúsinu. Ég var þar öll menntaskólaárin. Gömlu Mokkastelpurnar eru skemmtilegur hópur.“

Langar að gera vegglistaverk á Nesinu 

Þórdís Erla hefur unnið að list sinni frá því hún lauk námi. Hún var meðal annars tilnefnd til Grímunnar árið 2016 fyrir Búninga ársins í verkinu Dada Dans sem var unnið í samvinnu við Íslenska Dansflokkinn. Hún stofnaði nýverið hönnunarstúdíóið Stúdíó Flötur ásamt manni sínum og grafíska hönnuðinum Kristjáni Jóni Pálssyni. Stúdíó Flötur sérhannar vínilmottur. „Og nú er ég orðin bæjarlistmaður. Loksins. Ég var alltaf að vona þegar ég var unglingur að verða „Seltirningur mánaðarins‘“ í Nesfréttum. Það varð hins vegar aldrei af því. Ef til vill var ég ekki nægilega mikið í Gróttu. En þetta hafðist núna. Sem bæjarlistamaður. Þetta er gaman því ég á fjölskylduna mína og flest vini á Seltjarnarnesi.“ En ætlar Þórdís að gera eitthvað sérstakt í tilefni þessara tímamóta í lífi hennar. „Já – ég ætla að gera vegglistaverk á Seltjarnarnesi. Leyfa nágrönnum mínu að njóta þessa heiður með mér. Ég er búin að vera að horfa á nokkra veggi. Ég hef gert nokkur vegglistaverk og er að hugsa um að gera eitthvað sem væri blanda af málverki og lágmynd.“

You may also like...