Hagaskóli og Melaskóli í forgangshóp

— Átak í viðhaldi og endurbótum á skólahúsnæði —

Skúli Helgason formaður skóla- og frístundaráðs. 

“Við erum að fara í mikið átak í viðhaldi og endurbótum á skólahúsnæði í borginni og munum setja metfjárhæð í þau mál á bilinu 25 til 30 milljarða á næstu fimm til sjö árum. Því til viðbótar verður farið í að stækka húsnæði skóla þar sem þörf fyrir viðbótarhúsnæði er hvað mest. Það sem hæst ber þessa dagana er að ákveðið hefur verið að fara í gagngerar endurbætur á húsnæði Hagaskóla. Hagaskóli er einn fjölmennasti skóli borgarinnar með yfir 600 nemendur í þremur árgöngum. Þá er ljóst að þeim mun fjölga verulega á næstu árum og stefnir í að nemendafjöldinn fari yfir 700. Fyrir síðustu áramót greindust rakaskemmdir og mygla í stórum hluta af húsnæði skólans. Bæði í aðalbyggingu og einnig vesturálmum. Viðgerðir standa yfir í aðalbyggingunni en við viljum nota tækifærið og stækka skólann og gera húsnæðið allt miklu betur úr garði til að hýsa nútíma unglingaskóla í fremstu röð. Nýr Hagaskóli mun stækka um tæplega helming, verður 7200 fermetrum í stað 5000 fermetra í dag og gert er ráð fyrir að ný viðbygging á tveimur hæðum komi í staðinn fyrir tvær álmur sem í dag eru á einni hæð,“ segir Skúli Helgason formaður skóla og frístundaráðs í spjalli við Vesturbæjarblaðið.

Skúli segir að um stórt verkefni sé að ræða. Kostnaður við framkvæmdina sé áætlaður 4.600 milljónir króna. Þar af sé kostnaður við endurgerð aðalbyggingar áætlaður 1.200 milljónir. Skúli bendir á að Hagaskóli hafi verið reistur á árunum 1957 til 1962. Því sé ekki óeðlilegt að húsið hafi verið komið á það stig að þörf væri verulegra endurbóta. Hann segir að framkvæmdum við aðalbygginguna miði vel og gert sé ráð fyrir að endurnýjun hennar ljúki að fullu sumarið 2023 en framkvæmdatími nýbygginga verði um þrjú ár.

Kennt í Ármúlanun hentugt húsnæði var ekki í Vesturbænum

En hvernig verður skólastarfinu háttað á meðan á framkvæmdum stendur? „Við gerum ráð fyrir að elsti árgangurinn, 10. bekkur, verði í Hagaskóla og útskrifist þaðan næsta vetur en kennsla fyrir nemendur í 8. og 9. bekk fari fram í Ármúla 28 til 30 frá og með haustinu færist síðan í endurgerð rými aðalbyggingar og færanlegar kennslustofur sem komið verði fyrir á lóðinni, þegar það húsnæði verður tilbúið. Húsnæðið í Ármúla hefur verið nýtt undanfarna mánuði fyrir Hagaskóla og verður til reiðu næsta skólaár eins og með þarf. Það var leitað dyrum og dyngjum að hentugu húsnæði í hverfinu en því miður hefur ekki fundist þar enn sem komið er nægilega góður kostur sem hæfir þessari mikilvægu starfsemi. Við munum bjóða öllum nemendum sem verða í Ármúla upp á skólaakstur til og frá Hagaskóla. Ég vil nota tækifærið og þakka nemendum, foreldrum og starfsfólki þann skilning og þolinmæði sem þau hafa sýnt við þessar aðstæður sem auðvitað eru ekki skemmtilegar en sem betur fer fáum við miklu betra skólahúsnæði fyrir vikið. Við gerum svo ráð fyrir að öll kennsla muni flytjast yfir á Hagaskólalóðina þegar líður á næsta skólaár, vonandi strax um áramótin.“

Fleiri en 20 verkefnum raðað í forgangsröð

„En það er ekki bara horft til Hagaskóla þegar kemur að gagngerum endurbótum á skólahúsnæði í Vesturbænum,“ heldur Skúli áfram. „Við vorum að kynna niðurstöður mikilvægrar vinnu við að forgangsraða viðbyggingarframkvæmdum vegna skólamannvirkja í borginni. Þessi vinna var nauðsynleg því það hafa verið í umræðunni yfir 20 verkefni og ljóst að ekki væri hægt að ráðast í þau öll í einu.  Forgangsröðun var því nauðsynleg og ég tók þátt í þeirri vinnu í stýrihópi þriggja borgarfulltrúa ásamt Pawel Bartoszek og Erni Þórðarsyni auk sérfræðinga borgarinnar. Verkefnum sé raðað í forgangsröð eftir því hversu brýnar framkvæmdir eru taldar vera. Þarna var tekið til skoðunar ástand bygginga og hversu vel þær þjóna því starfi sem fram fer en einnig tekið mið af nemendaspám til lengri tíma. Aldur og ásýnd húsnæðis skipta miklu og einnig aðgengismál sem víða þurfi að bæta einkum þar sem um eldri byggingar sé að ræða. Þá er líka horft til samþættingar skóla- og frístundastarfs, þar sem stefnan er sú að frístundastarfið geti farið fram í skólahúsnæðinu sjálfu þannig að börn þurfi ekki að fara á milli húsa þegar grunnskóladeginum lýkur og frístundin tekur við.“ 

Skólarnir í Vesturbænum efst forgangsröðinni

„Niðurstaða stýrihópsins um forgangsröðun viðbygginga var sú að skólarnir í Vesturbænum: Hagaskóli og Melaskóli röðuðust í efstu sæti forgangslistans ásamt þremur skólum í Laugardal: Laugarnesskóla, Langholtsskóla og Laugalækjarskóla og loks Réttarholtsskóla. Þessir sex skólar raðast í fyrsta forgang. Grunnskólar í miðborg og austurhluta borgarinnar koma þar á eftir og raðast í annan forgang varðandi þörf á viðbyggingum.“ Skúli bendir á að þótt Melaskóli sé sannarlega merkileg bygging út frá arkitektúr og byggingarsögu þá sé hún barn síns tíma og mæti ekki sem skyldi nútímakröfum sem við gerum til húsnæðis fyrir skóla- og frístundastarf. Viðbyggingar er þörf og endurbóta á gamla húsnæðinu til að mæta kröfum um aðgengi fyrir alla, bætta mötuneytisþjónustu, starfsmannarými og húsnæði fyrir frístundastarf svo eitthvað sé nefnt. Fyrir liggur vönduð skýrsla með tillögum að nýrri viðbyggingu auk endurbóta á gamla skólanum og á grundvelli hennar hefur verið ákveðið að efna til sameiginlegrar hönnunarsamkeppni á þessu ári um viðbyggingu við Melaskóla og breytta nýtingu Hagatorgs en Skúli er mikill talsmaður þess að Hagatorg verði nýtt sem fjölnota almenningsgarður í framtíðinni.  „Ég brenn í skinninu að sjá Hagatorg breytast úr stærstu umferðareyju á norðurhveli jarðar í aðlaðandi stað fyrir fjölbreytt og gott mannlíf, með leiktækjum og aðstöðu til hreyfingar, listsköpunar og útiveru fyrir börn m.a. úr skólum í hverfinu og fólk á öllum aldri og bara fallegum gróðursælum reit til að hvíla lúin bein í dagsins önn.

300 ný leikskólapláss

Skúli segir að þótt margt sé fram undan í málefnum grunnskólans þá sé einnig margt á döfinni í leikskólamálum. Nýr leikskóli hefur tekið til starfa við Eggertsgötu á háskólasvæðinu sem mun þjóna 85 börnum frá 12 mánaða aldri. Ákveðið hefur verið að bjóða út stækkun leikskólans Hagaborgar svo unnt verði að fjölga börnum þar um 30 og er stefnt að því að þau pláss verði tekin í notkun fyrir næstu áramót. Þá sé stækkun Sæborgar einnig á döfinni þar sem reist verði viðbygging sem rúmi tæplega 50 börn til viðbótar því sem nú er. Svo komi nýr 150 barna leikskóli í Skerjafirði væntanlega í notkun um miðjan þennan áratug. “Þetta þýðir að opnuð verði meira en 300 ný leikskólapláss í Vesturbænum á næstu árum. Þörfin eykst stöðugt bæði vegna fólksfjölgunar og einnig að við erum að taka á móti sífellt yngri börnum og ætlum að byrja að taka á móti fyrstu 12 mánaða börnunum á komandi haustmánuðum, sem er mikil bylting frá því sem verið hefur og mun mæta brýnni þörf foreldra yngstu barnanna í borginni.  Með þessu munum við brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, samhliða því að halda áfram að bæta starfsumhverfi í leikskólunum sem við höfum þegar varið yfir 4 milljörðum króna til á undanförnum fjórum til fimm árum, vinna með ríki og háskólum að því að fjölga leikskólakennurum með vitundarvakningu um samfélagslegt mikilvægi kennarastarfsins auk þess að bjóða lægstu leikskólagjöld í hópi 15 fjölmennustu sveitarfélaga landsins. Við viljum gera enn betur í samstarfi við okkar frábæra starfsfólk og búa betur að starfsfólkinu á komandi árum með bættum starfskjörum og endurbótum á húsnæði og annarri aðstöðu,“ segir Skúli Helgason að lokum. 

You may also like...