Hafnartorg Gallery brátt opnað
– tímamót í uppbyggingu á svæðinu milli Lækjartorgs og Hörpu –
Bráðlega opnar nýtt svæði við Hafnartorg í miðbæ Reykjavíkur. Það hefur fengið nafnið Hafnartorg Gallery. Þar verður að finna verslanir, veitingastaði auk ýmissar menningartengdrar starfsemi. Ellefu nýir veitingastaðir og verslanir bætast við þau tólf fyrirtæki sem rekin eru á Hafnartorgi. Í tilkynningu frá Reginn, eiganda fyrstu hæðar Hafnartorgs, kemur fram að markmiðið hafi verið að skapa opið fjölnota rými sem býr til frjóan jarðveg fyrir margs konar upplifun og lífsgæði.
Með þessu er ætlunin að Hafnartorg Gallery verði miðpunktur mannlífs í nýju borgarrými; staður til að versla, njóta matar og drykkjar, staldra við á milli erinda í miðborginni og upplifa menningu í tengslum við viðburði,“ segir í tilkynningunni en opnun svæðisins markar tímamót því þá lýkur um áratugalangri uppbyggingu á svæðinu milli Lækjartorgs og Hörpu. Gert er ráð fyrir því að uppbyggingu á svæðinu ljúki síðar á þessu ári þegar framkvæmdum lýkur við nýtt hús Landsbankans.
Í tilkynningu Regins kemur einnig fram að aðgengi að svæðinu sé gott en undir er að finna einn stærsta bílakjallara landsins sem hægt er að fara út úr á mörgum stöðum. Auk þess eru margar hjóla- og gönguleiðir að svæðinu og mikilvægar biðstöðvar strætó liggja við Hafnartorg auk Borgarlínu þegar fram líða stundir.
Meðal þeirra sem nú undirbúa opnun í Hafnartorgi Gallery má nefna nýja flaggskipsverslun 66°Norður, fyrstu verslun North Face á Íslandi, nýja og glæsilega lífsstílsverslun Casa, nýjan 80 sæta „fine dining“ veitingastað með áherslu á nútímalegt fransk-íslenskt eldhús. Auk þess munu sjö smærri veitingastaðir opna með fjölbreytt úrval af mat og drykk.