Útivistarsvæði á Austurheiðum
Fram undan eru framkvæmdir sem gera Austurheiðar borgarinnar að betra og eftirsóknarverðara útivistarsvæði. Gönguleiðir verða merktar, stígar bættir og þeim fjölgað og gerð leik- og dvalarsvæði fyrir fólk og dýr. Framkvæmdir við fyrsta áfanga hefjast nú í sumar og er áætlaður kostnaður 100 milljónir króna. Útivistarsvæðið Austurheiðar er alls um 930 hektara svæði sem nær yfir Austurheiðarnar að mestu, Hólmsheiði, Grafarheiði og Reynisvatnsheiði. Innan svæðisins er Rauðavatn, Reynisvatn og Langavatn að hluta.
Verkefnið er byggt á samþykktu rammaskipulagi fyrir Austurheiðar sem samþykkt var af skipulags- og samgönguráði 10. mars 2021. Þá eru Austurheiðar hluti af Græna treflinum sem er samheiti yfir skógræktar- og útivistarsvæði á útmörkum sveitarfélaganna sjö á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðin með gerð rammaskipulags fyrir Austurheiðar eru margþætt og eiga að tryggja samræmingu landnotkunar innan svæðisins til að forðast hagsmunaárekstra milli núverandi og framtíðar landnotkunar á svæðinu. Helstu markmið eru að skapa fjölbreytt og aðgengilegt útivistarsvæði fyrir alla aldurshópa og ólíka notendahópa eins og fyrir hestafólk, gönguskíði, fjallahjól, torfæruhjól, göngu, skokk, sveppamó, berjamó, ferðaþjónustu og fisflug. Markmið skipulagsins er að styrkja samspil og tengingu Austurleiða við aðliggjandi útivistarsvæði.