Hús með merkilega sögu
Hafnarstræti 1 til 3 eða Fálkahúsið á sér merkilega sögu. Það var upphaflega byggt á Bessastöðum árið 1750. Tólf árum síðar var það tekið niður, flutt til Reykjavíkur og endursmíðað. Fálkahúsið á sér rætur í sögu um fálkaveiðar og útflutning á lifandi fuglum en lengi var ein af skyldum Íslendinga að sjá konungi fyrir veiðifálkum. Fjöldi fálka var veiddur ár hvert og voru þeir fluttir til geymslu í sérstökum fálkahúsum á Bessastöðum og á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi á meðan fálkaskips var beðið.
Skömmu eftir að húsið hafði verið reist í Reykjavík voru fálkaveiðar lagðar af og útflutningi hætt. Þá varð húsið vörugeymsluhús og síðar verslunarhús. Fálkahúsið var friðað af menntamálaráðherra 19. apríl 1991 og tekur friðunin til ytra borðs. Reykjavíkurborg hefur samþykkt að breyta megi austurenda þess í veitingastað en veitingastaðir eru nú í vestari hlutum þess. Eftir að fálkaveiðar lögðust af hér á landi og þar með útflutningur fuglanna var húsið innréttað til verslunarreksturs. Um 1850 eignaðist N. Chr. Havsteen Fálkahúsið og rak þar verslun sem var við hann kennd. Árið 1868 lét hann rífa það og reisa nýtt og afar vandað hús nokkru norðar, sem enn stendur, og eru m.a. útskornir fálkar á báðum burstum til að minnast gamla fálkahússins. Útskurðurinn, sem prýðir húsið, mun vera verk Stefáns Eiríkssonar myndskera að því fram kemur í ritum Páls Líndal. Árið 1878 eignaðist J.P.T. Bryde etatsráð húsið. Brydesverslun var með mestu verslunum bæjarins um aldamótin 1900. Árið 1914 varð húsið eign elstu heildverslunar Íslands, Ó. Johnson&Kaaber, og hafði fyrirtækið þar skrifstofur sínar um langa hríð. Nýir eigendur tóku við húsinu 1997 og létu gera miklar endurbætur á því, bæði innanhúss og utan. Var þá skipt um nánast allt tréverk. Árið 2014 voru fálkarnir á burstunum lagfærðir og sömuleiðis víkingaskipið fyrir miðju húsi. Margar verslanir hafa verið reknar í húsinu og má þar nefna búsáhaldaverslunina Hamborg og Heimilisiðnaðarfélag Íslands.