Rekstraröryggi hitaveitunnar tryggt
Þau ánægjulegu tímamót urðu nú á dögunum þegar að nýja borhola hitaveitunnar SN-17 var tekin í notkun, en hún var sett inn á hitaveitukerfi bæjarins föstudaginn 14. október og fór í fullan rekstur þriðjudaginn 18. október eftir þrepa- og álagspróf.
Borholan kemur í stað borholu SN-4 sem boruð var árið 1972 og var ein af aðalhitaveituborholum Seltjarnarness allt þar til hún skemmdist vorið 2021 við það að dælurör slitnaði og dælan og 130 m af rörum féll ofan í holuna. Óhappið sem ekki var hægt að laga varð til þess að rekstraröryggi hitaveitunnar var ekki lengur fulltryggt og því ákváðu bæjaryfirvöld að endurbora holuna.
Fjórar borholur í rekstri
Nýja borholan SN-17 er að skila rúmlega 30 l/s af rúmlega 100°C heitu vatni. Með tilkomu hennar hefur rekstraröryggi Hitaveitu Seltjarnarness nú verið tryggt og getur veitan haft 4 borholur í rekstri, þ.e. holurnar SN-5, SN-6, SN-12 og SN-17. Meðalnotkun Seltjarnarnesbæjar af heitu vatni er rúmlega 50 L/s, en mesta notkun getur farið upp í allt að 90 L/s sem tryggir m.a. rekstraröryggi veitunnar.
Flókið verkefni
Eins og gefur að skilja hefur verið um afar flókið og umfangsmikið verkefni að ræða sem þó hefur gengið vonum framar. „Risaborinn“ Sleipnir var m.a. notaður til verksins en með honum var borað niður á um 2057 metra dýpi og vinnslufóðring var í 400 m dýpi, en var 170 í gömlu holunni. Að borun lokinni tók við vinna sem fól í sér að prófa og virkja holuna, leggja lagnir, byggja borholuhús neðanjarðar o.s.frv. Seltjarnarnesbær þakkar öllum sem komið hafa að þessu flókna verki, bæði starfsmönnum þjónustumiðstöðvar og hitaveitu sem og hinum fjölmörgu utanaðkomandi sérfræðingum á mismunandi sviðum. Það er mikið gleðiefni að nýja borholan skuli vera komin í gagnið nú áður en að kaldasti tími ársins gengur í garð. Fram undan er frágangur á athafnasvæðinu í kringum borholuna og verður ásýndin vonandi komin í samt lag næsta sumar.