Bygging Breiðholtsins

– byggt á skipulagi frá 1962 en framkvæmdir voru afleiðingar kjarasamninga –

Breiðholtskjör var verslun við Arnarbakka. Skipulag Breiðholts gerði ráð fyrir þjónustu í íbúðahverfum og að fólk ætti ekki að þurfa að fara langar leiðir til þess að sinna daglegum innkaupum. Mjóddin var síðan hugsuð sem verslanamiðstöð fyrir byggðina.

Árbær og Neðra Breiðholt eru fyrstu raunverulegu úthverfi Reykjavíkurborgar. Hverfi af þessari gerð eru stundum kölluð svefnhverfi því íbúar þeirrar sækja atvinnu að miklu leyti í önnur hverfi eða borgarhluta. Árbær og Neðra Breiðholt eru um margt tímamóta byggðir í Reykjavík. Allt frá því að Reykjavíkurborg tók fyrir alvöru að vaxa var húsnæðisskortur viðvarandi. Ýmis hreysi á borð við skúra gerða úr kassafjölum til aflagðra herbragga stríðsáranna voru nýtt til íveru í neyðinni. Hvorki borgaryfirvöldum né landsstjórn hafði tekist að leysa úr þessum vanda sem miklar búsetubreytingar á landinu á fjórða áratug liðinnar aldar og síðan hafa leitt af sér.

Á sjötta og einkum sjöunda áratug liðinnar aldar var hafist handa um að leysa úr þessum málum eftir því sem kostur var. Þáverandi borgaryfirvöld töldu það best gert með því að byggja ný borgarhverfi utan þáverandi byggðamarka og miðuðust skipulagshugmyndir meðal annars við byggingu nýrra úthverfa án beinnar tengingar við fyrri borgarkjarna. Árbæjarhverfið var byggt í landi Árbæjar austan við Elliðaárdalinn en Breiðholtið reis á landi jarðarinnar Breiðholts sem þá var nokkru utan byggðamarka og alfaraleiðar. Árið 1962 var arkitektunum Bárði Daníelssyni og Stefáni Jónssyni falið það verkefni að gera áætlun um byggðarþróun austan Kópavogs og Elliðaáa í tengslum við nýtt aðalskipulag Reykjavíkur sem unnið var að um þær mundir. Verkefnið var í fyrstu fólgið að skoða landið og afmarka byggðasvæðin og helstu umferðarleiðir. Síðar kom til að skipuleggja nýja bæjarhluta. Með aðalskipulaginu árið 1962 var mótað nýtt umferðarkerfi fyrir Reykjavík þar sem götur voru flokkaðar í hraðbrautir, tengibrautir og húsagötur eins og enn tíðkast. Gert var ráð fyrir byggð á hæðunum en lægðirnar yrðu sem græn lungu innan byggðarinnar. Um lægðirnar er gert ráð fyrir samhangandi göngustíganeti um borgina og upp í útmörkin ofan byggðarinnar. 

13% kauphækkun – 13% gengisfelling

Eflaust hefur engum komið til hugar á þessum tíma að byggingaframkvæmdir yrðu jafn skjótar og miklar á skömmum tíma og varð. En þá koma aðrir atburðir til sögunnar. Á árinu 1961 var blásið til verkfalls sem endaði eftir mikil átök með 13% launahækkun. Í kjölfarið felldi ríkisstjórn landsins gengi krónunnar um 13%. Fljótt varð ljóst að allir höfðu tapað á þessum aðgerðum og verðbólgan hélt áfram. Um haustið 1963 urðu aftur miklar kjaradeilur í landinu. Fljótt varð ljóst að þær myndi ekki leysast án aðkomu ríkisvaldsins. Þann 9. nóvember það ár náði Ólafur Thors þáverandi forsætisráðherra samkomulagi við verkalýðshreyfinguna sem Hannibal Valdimarsson var þá í forystu fyrir. Undir hans forystu náði hreyfingin að skipuleggja eina samninganefnd og koma fram sem einn samningsaðili vorið og sumarið 1964.

Hvíti miðinn

Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri greindi frá því í viðtali í þættinum Lífið er lag sem sýndur var á Sjónvarpsstöðinni Hringbraut hvernig upphaf Breiðholtsins kom til. Styrmir átti sem ungur maður í nánu sambandi við Bjarna Benediktsson eldri sem þá var orðinn forsætisráðherra eftir fráfall Ólafs Thors. Lýsti Styrmir því hvernig hann hafi stundum verið sendisveinn á milli tengdaföður síns, Finnboga Rúts Valdimarssonar bróður Hannibals Valdimarssonar og Bjarna Benediktssonar. Gefum Styrmi orðið „Mér er það mjög minnisstætt að Rútur bað mig um að fara með hvítan miða til Bjarna og sýna honum og sjá hvað hann segði um hann. Á þessum miða voru tillögur Rúts og Guðmundar Joð. hjá Dagsbrún um byggingu 1250 íbúða fyrir láglaunafólk í Breiðholti sem yrðu hluti að kjarasamningum sem þá voru framundan. Ég man að Bjarni las þennan miða og hann sagði við mig: „Segðu honum að þetta geti vel komið til greina.“ Það varð niðurstaðan. Verkinu var ýtt úr vör og þannig urðu þessar 1250 íbúðir til.“ 

Hér má sjá unga menn við byggingavinnu á árdögum Breiðholtsins.

Sænsk hugmyndafræði

Upphaf Breiðholtsins má því að verulegu leyti rekja til kjarabaráttu launþegahreyfingarinnar og júní samkomulagsins svonefnda sumarið 1964. Þessari kjaradeilu lauk með því að ekki var fallist á neinar launahækkanir en fyrirheit gefin um úrbætur fyrir hina lægst launuðu til dæmis með uppbyggingu í húsnæðismálum. Flestum mátti vera ljóst að samningar og yfirlýsing ríkisstjórnar á árinu 1964 gat verið forsmekkur að því sem koma skyldi. Árið eftir vorið 1965 gengu samningaviðræðurnar eins og oft erfiðlega fyrir sig. Þrjár nefndir voru skipaðar til viðræðna milli ríkisstjórnarinnar, verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Einna best mun hafa gengið í húsnæðisnefndinni. Þar komu við sögu bæði Bjarni Benediktsson og Finnbogi Rútur Valdimarsson. Hugmynd Finnboga Rúts var að -eitt þúsund íbúðir yrðu byggðar. Hugmyndin var að einhverju leyti sótt til Svíþjóðar – til hugmyndafræði sem nefndist Miljöprogrammet á sænsku. Þessi mál enduðu með að byggðar voru 1.250 íbúðir til handa félagsmönnum í verkalýðshreyfingunni. Rúmar eitt þúsund íbúðir voru byggðar fyrir tilstilli ríkisvaldsins og um það bil 250 byggðar af Reykjavíkurborg. Á bilinu fjögur til sex þúsund manns skyldu fá þak yfir höfuðið. Þar með var lagður var grunnur að Breiðholtinu. Í Breiðholti voru 1.786 íbúðir reistar með opinberum stuðningi eða 23,4% af heildarfjölda íbúða þar. Þó að flestir væru sammála því að húsnæðisvandi láglaunafólks væri verkefni sem hið opinbera ætti að leysa þá spunnust miklar deilur á síðum dagblaða og náðu jafnvel inni á Alþingi. Sumum fannst gengið á rétteinkaframtaksins.

Þrjú sjálfstæð hverfi

Oftast er talað um Breiðholtið sem eina heild. Skipulagi byggðarinnar er þó þannig háttað að um þrjú sjálfstæð hverfi að ræða. Neðra Breiðholt eða Bakkana. Seljahverfið og Efra Breiðholtið. Hverfi liggja ekki hvort upp að öðru og eru að mörgu leyti sjálfsstæðar og um sumt ólíkar byggðaeiningar. Breiðholtið sem heild var þegar árið 1999 orðin fjölmennasta byggð Reykjavíkurborgar með 22.030 íbúa sem bjuggu í 7.611 íbúðum. Alls voru 5.317 íbúðir í fjölbýli í Breiðholti. Um 18% af íbúðarhúsnæði í borginni var í Breiðholti árið 1999.

Við byggingu Breiðholtsins var gert ráð fyrir margvíslegri þjónustu í byggðinni. Þar á meðal var framhaldsskóli. Fjölbrautaskólinn í Breiðholti reis í beinu framhaldi af byggingaframkvæmdum. Skólinn vakti strax athygli fyrir nútímalegt snið og starfshætti. Fyrsti skólameistari var Guðmundur Sveinsson. Hann var ótrauður að feta leið nýrra tíma í skólastarfinu. Skólinn var meðal annars þekktur fyrir fjölbreyttar námsleiðir og áfangakerfi.

Margvísleg áhrif

Margvísleg áhrif urðu af kjarasamningunum 1964 og 1965. Með þeim var leystur  umtalsverður húsnæðisvandi. Ekki eingöngu þeirra lægstlaunuðu heldur margra fleiri. Með byggingu Breiðholtsins jókst framboð af lóðum umtalsvert en lóðaskortur hafði hamlað uppbyggingu Reykjavíkur um áratuga skeið. Ekki má heldur vanmeta áhrif þessara samninga á samskipti verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Svonefndir félagsmálapakkar urðu algengur fylgifiskur kjarasamninga þar sem meðal annars var samið um margvíslegar umbætur í húsnæðismálum. Segja má að þessir kjarasamningar hafi verið undanfari þjóðarsáttarsamninganna 2. febrúar árið 1990 og þess að unnt reyndist að ráða niðurlögum verðbólgunnar sem lengi hafði gegnsýrt efnahagslíf hér á landi. Einnig má geta nýlegra kjarasamninga sem kenndir hafa verið við lífskjör og nefndir lífskjarasamningar. Áhrif þessara samninga náðu fljótt út fyrir höfuðborgina þar sem víðar farið var að huga að umbótum í húsnæðismálum. Því má segja að hvíti miðinn sem Styrmir Gunnarsson bar úr Kópavogi til Reykjavíkur forðum hafi valdið þróun sem engan gat órað fyrir.  

Bimmi-rimmi-rimm-bamm

Til gaman má geta að skemmtikraftar nýttu sér þessa atburði. Hinn kunni fréttamaður og skemmtikraftur til margra ára Ómar Ragnarsson söng eftirfarandi texta fyrir þjóðina og lék Eðvarð Sigurðsson formann Dagsbrúnar og Bjarna Benediktsson forsætisráðherra á sinn hátt.

Hver er að berja?, Bimmbi-rimmbi-rimm-bamm.

Það er hann Eðvarð, bimmbi-rimmbi-rimm-bamm.

Hvern vill hann finna? Bimmbi-rimmbi-rimm-bamm.

Elskulegan Bjarna sinn, bimmbi-rimmbi-rimm-bamm. 

Hvað vill hann honum?, bimmbi-rimmbi-rimm-bamm.

Leysa kjaradeiluna, bimmbi-rimmbi-rimm-bamm. 

Hvað fær hann að launum?, bimmbi-rimmbi-rimm-bamm. 

Annað júnísamkomulag, bimmbi-rimmbi-rimm-bamm. 

Allt í lagi, all-right, bimmbi-rimmmbi-rimm-bamm.

You may also like...