Mikil uppbygging fyrirhuguð í Breiðholti

– Arnarbakki og hluti Fellanna fer í uppbyggingu –

Húsnæði við Arnarbakka 2. Gömlu þjónustuhúsin við Arnarbakka munu hverfa fyrir nýbyggingum.

Í nýútkomnum bæklingi þar sem fyrirhugaðar nýbyggingar í Reykjavík er kynntar er tveir staðir í Breiðholti sérstaklega teknir til umfjöllunar. Framkvæmdir á þeim stöðum voru fyrst kynnar með nýju aðalskipulagi Reykjavíkur og hverfisskipulagi Breiðholts. Þessir staðir eru við Arnarbakka í neðra Breiðholti og Völvufell í því efra. Á báðum þessum stöðum var í upphafi gert ráð fyrir þjónustustarfsemi fyrir nærliggjandi byggðir og byggt upp samkvæmt því. Í tímans rás hefur margt af þeirri þjónustu­starfsemi sem fór af stað hætt starfsemi og byggingar koðnað niður. Af þeim ástæðum var horft til endurbyggingar þessara staða með íbúðabyggingar og einnig að þjónustuhlutverk þessara svæða verði í fyrirrúmi eins og gert var ráð fyrir í upphafi.

Við Arnarbakka verður veitt heimild til niðurrifs á núverandi verslunar- og þjónustuhúsnæði í Arnarbakka 2 til 6, uppbyggingu námsmannaíbúða með verslunar- og þjónusturýmum auk íbúðarhúsnæðis á grænni þróunarlóð. Alls 90 íbúðir.  Við Arnarbakka 2 verða byggðar þrjár til fjórar hæðir en verslanir og þjónusta verður á jarðhæð og 26 íbúðir námsmanna á efri hæðum. Íbúðirnar verða ein­staklings- og fjölskylduíbúðir, eins til þriggja herbergja. Við Arnarbakka 4 á að reisa þrjár til fjórar hæðir með verslunar- og þjónusturými á jarðhæð. Gert er ráð fyrir 39 námsmannaíbúðum á efri hæðum, bæði einstaklings- og fjölskylduíbúðum. Lóðin við Arnarbakki 6 er hluti af grænum þróunarlóðum borgar­innar. Þar á að reisa hús með 25 íbúðum fyrir almennan markað, þrjár til fjórar hæðir.

Breytt við Völvufell

Breytt deiliskipulag fyrir Völvufell markast af Norðurfelli, Völvufelli, Suðurfelli og lóðarmörkum að raðhúsum við Yrsufell í samræmi við nýlegar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 til 2040 og hverfisskipulagi Breiðholts. Breytingin felst m.a. í nýjum námsmannaíbúðum og sérbýli á grænum þróunar­lóðum, ásamt endurskoðun þegar fenginna uppbyggingar­heimilda, alls 180 íbúðir. Við Drafnar­fell 2 til 4 verður heimilt að bæta tveimur hæðum ofan á húsið þannig að það verði þrjár hæðir. Allt að fimm íbúðir, verslun og þjónusta á jarðhæð. Við Drafnarfell 14 til 18 á að byggja tvær hæðir ofan á Drafnar­fell þannig að húsið verði fimm hæðir. Við Eddufell 2 til 4 verður heimilt að byggja tvær hæðir ofan á heimild um byggingu um tvær hæðir og verður því um sex hæðir að ræða. Allt verða 14 íbúðir, verslun og þjónusta á jarðhæð. Við Völvufell 1 til 11 verður heimilt að byggja raðhús; þriggja herbergja eða tvær íbúðir á hvorri hæð. Allt að 12 íbúðir. Við Völvufell 13 til 23 verður heimilt að byggja raðhús; þriggja herbergja eða tvær íbúðir á hvorri hæð. Allt að 12 íbúðir.

Hluti af grænu húsnæði

Hluti af grænu húsnæði framtíðarinnar verður við Völvufell 25 til 35: Heimilt verður að byggja raðhús; þriggja herbergja eða tvær íbúðir á hvorri hæð. Allt að 12 íbúðir. Við Völvufell 37 verður heimilt að byggja námsmannaíbúðir, tvær til fjórar hæðir. Allt að 50 fjölskylduíbúðir og einnig við Völvufell 43. Þar verður heimilt að byggja námsmanna­íbúðir, fjórar hæðir. Sameiginlegt rými á jarðhæð. Allt að 40 einstaklings­herbergi með sameign. Hluti af grænu húsnæði framtíðarinnar. Við Völvufell 45 verður heimilt að byggja eina hæð ofan á núverandi byggingu eða allt að sex íbúðir. Við Yrsufell 2 verður heimilt að byggja raðhús; þriggja herbergja eða tvær íbúðir á hvorri hæð. Allt að 12 íbúðir.

Mikil þörf er á uppbyggingu við Völvufell og víðar í Fellunum.

You may also like...