Sögufrægt og friðað hús endurbyggt
Verið er að ljúka við endurbyggingu hússins Við Hafnarstræti 18. Vinna við emburbygginguna hófst í nóvember 2018 og hefur því staðið yfir í fjögur ár. Húsið var illa farið og því ekki um annað að ræða en að rífa það og endurbyggja. Húsinu var lyft um 90 sentimetra og ný viðbygging var byggð sunnan við það. Hlaðinn kjallari var undir hluta haussins og talið er að hann sé upprunalegur frá átið 1795. Nýr kjallari var byggður undir allt húsið. Húsið var endurbyggt með upprunalegum aðferðum og gamlir viðir í grind þess nýttir eftir því sem hægt var voru.
Forsögu málsins má rekja til þess að samþykkt var í Borgarráði Reykjavíkur í september 2017 að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna lóðarinnar nr. 18 við Hafnarstræti. Heimilað var að auka við bygginguna sem felst í að lyfta núverandi húsi upp um 90 cm, byggja kjallara undir það og nýja viðbyggingu sunnan við húsið, kjallara og tvær hæðir. Húsið er nú 680 fermetrar en verður eftir breytinguna 1.020 fermetrar. Þá var einnig heimilað að rífa skúra á baklóðinni. Húsið sjálft er friðað, enda talið hafa mikið varðveislugildi vegna menningarsögu og mikilvægis í götumynd. Skúrarnir voru ekki friðaðir.
Suðurhús ehf. er eigandi hússins. Fyrirtækið hefur sjálft annast endurbætur og breytingar, en kostnaður við þær er áætlaður um 600 milljónir. Feðginin Páll V. Bjarnason og Ólöf Pálsdóttir, arkitektar hjá P ARK teiknistofu sf., hönnuðu breytingarnar.
Chr. A. Jacobæus, P.C. Knudtzon, Martin Smith B. Muus og Co og Ditlev Thomsen
Í húsakönnun Minjasafns Reykjavíkur frá 2006 er saga hússins Hafnarstræti 18 rakin. Þar kemur fram að kaupmaður lét flytja hús á lóðina frá Keflavík árið 1795. Húsið sem hann flutti var einlyft og lét hann innrétta sölubúð í öðrum endanum en íbúð í hinum endanum. Jacobæus lét eftir það flytja annað hús á lóðina frá Keflavík og reisti það rétt vestan við hitt húsið og var ekki nema örlítið bil á milli þeirra. Hann lét síðan reisa nýtt hús þvert við vesturgaflinn á þessu húsi og fram með Kolasundi.
P.C. Knudtzon kaupir húsin árið 1838. Samkvæmt virðingargjörð frá 1844 var verslunarhúsið grindarhús með múrsteinum í grind, klætt listasúð og málað á norður- og austurhliðum, en hinar hliðarnar tvær voru tjargaðar. Borðþak var á húsinu. Auk verslunarhússins var pakkhús á lóðinni, Norðurpakkhúsið. Fyrir sunnan var salt- og kolageymsla. Sunnar á lóðinni var Suðurpakkhúsið og íbúðarhús frá 1818.
Sameiginlegt þak á öll húsin
Martin Smith kaupir árið 1852 búðina og Norðurpakkhúsið ásamt kola- og saltgeymsluhúsi sunnan við pakkhúsið. Íbúðarhúsið og Suðurpakkhúsið var selt Sigurði Melsted kennara 1854. Smith lét sameina sölubúðina og geymsluhúsið og setja síðan sameiginlegt þak á öll þrjú húsin með kvistum. Smith reif gamla kolageymsluhúsið sunnan við búðina árið 1867 og byggði nýtt í staðinn. Árið 1891 eignaðist B. Muus og Co. húsin og var þá verslunin kölluð Nýhöfn. Ditlev Thomsen eignaðist húsið um aldamótin og lét hann endurbæta það árið 1904 og var það þá járnklætt.
Breytt í tímanna rás
Húsinu hefur verið breytt í tímanna rás. Gluggar á neðri hæð hafa verið stækkaðir og dyrum breytt. Árið 1924 var sett á það mansard þak og þakhæð hússins breytt og hún hækkuð. Árið 1950 var sett viðarklæðning á neðri hæð hússins og gluggum breytt. Húsinu var enn breytt árið 1984 en þá var settur inngangur og gluggar á austurgafl hússins. Nokkrar ástæður eru taldar mæla með hækkun hússins nú. Það er áberandi lægst í umhverfinu og myndi sóma sér mun betur ef því væri lyft. Hafnarstræti 16 er nokkuð hærra eða tvær hæðir og ris. Húsin við austasta hluta Hafnarstrætis hafa flest verið endurnýjuð á undanförum árum og einnig gatan sjálf.