Dýrt að halda lágu útsvari

— segir minnihluti bæjarstjórnar —

Minnihluti bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar bendir á að á síðastliðnum sex árum hafi halli A sjóðs bæjarsjóðs sem lögum samkvæmt eigi að vera rekinn í jafnvægi náð 1800 milljónum. 1800 milljónir bera vaxtakostnað upp á rúmlega 200 milljónir á hverju ári miðað við meðalvexti á lánum bæjarins og verðbólgu. Því sé dýrt fyrir íbúa bæjarins að halda lágu útsvari á sama tíma og ekki séu til peningar til að halda úti þeirri þjónustu sem íbúar kalla eftir og viðhalda þeim eignum sem við nú þegar eigum.

Minnihlutinn bendir á að framundan sé uppbygging nýs leikskóla sem mun kalla á lántöku upp á einn til tvo milljarða með tilheyrandi vaxtakostnaði. Stofnanir og samtök í bænum kalla eftir auknu viðhaldi og endurbótum á skólabyggingum, íþróttamannvirkjum, skólalóðum og félagsheimili bæjarins svo nokkur dæmi séu tekin. Minnihlutinn bendir á að bærinn hafi verið að ýta á undan sér viðhaldi og framkvæmdum vegna skorts á fjármunum á sama tíma og meirihlutinn flytur langar ræður um að reksturinn sé sterkur og forsendur séu fyrir því að lækka skatta.

Þá segir minnihlutinn ljóst að útsvarshækkunin sem samþykkt var af bæjarfulltrúum þvert á flokka hafi verið nauðsynleg til að verja rekstur bæjarins en einnig þurfi að leita nýrra leiða til að fjölga íbúum og selja lóðir til að fjármagna þær framkvæmdir sem bæjarfélagið standi frammi fyrir.  

You may also like...