Tónlistarskólinn fær nýjan flygil
Tónlistarskólinn á Seltjarnarnesi hefur eignast nýjan flygil fyrir sal skólans. Flygillinn sem fyrir var þjónaði sínu hlutverki vel í rúma þrjá áratugi og mun áfram nýtast til kennslu. Veturinn 2020 samþykkti þáverandi bæjarstjórn Seltjarnarness kaup á nýjum flygli fyrir Tónlistarskólann.
Ákveðið var að leita til Víkings Ólafssonar píanóleikara eftir aðstoð við val á flygli frá verksmiðjum Steinway& Sons í Hamborg í Þýskalandi en Víkingur hefur mikla reynslu af að velja hljóðfæri í tónleikasali, bæði hér heima og erlendis. Hann hefur til að mynda séð um val á flyglum í Hörpu.
Vegna mikillar eftirspurnar eftir Steinway hljóðfærum á Covidtímum var það ekki fyrr en í maí sl. sem Aðalheiður Eggertsdóttir deildarstjóri píanódeildar TS og Víkingur hittust í höfuðstöðvum Steinway í Hamborg til að velja hljóðfærið. Víkingur er aufúsugestur hjá Steinway og var vel tekið á móti honum og Aðalheiði. Búið var að undirbúa fimm flygla fyrir komu þeirra. Ekkert þeirra hljóðfæra stóðst væntingar en það gerði hins vegar hljóðfæri sem ekki var að fullu frágengið og stóð því enn í verksmiðjunni. Sá flygill hefur nú verið fluttur til landsins og er í varðveislu Tónastöðvarinnar sem hafði milligöngu um kaupin. Ákveðið var að bíða með að flytja flygilinn í skólann því fyrirliggjandi eru viðgerðir á þaki og gluggum húsnæðis skólans að Skólabraut.
Vonast er til að hægt verði að vígja nýja hljóðfærið á næsta ári en þá verður Tónlistarskóli Seltjarnarness 50 ára.