Nýbyggingar við MR
Farið er að vinna að byggingarmálum Menntaskólans í Reykjavík og hafa hugmyndir arkitektanna Helga Hjálmarssonar og Lenu Helgadóttur um skipulag og byggingar á reit MR litið dagsins ljós. Lengi hefur verið barist fyrir því að fá leyfi til byggingar viðbótarhúsnæðis við skólann en fjármagn ekki fengist til framkvæmda.
Ekkert fjármagn er eyrnamerkt byggingum við Menntaskólann í Reykjavík í því fjárlagafrumvarpi sem nú er í meðförum Alþingis en menntamálaráðuneytið hefur sent teikningar og önnur gögn um stækkun skólans til borgaryfirvalda og annarra stjórnvalda sem málið heyrir undir. Málið á sér yfir tveggja áratuga sögu því árið 1995 hafi Helgi Hjálmarsson og Lena dóttir hans unnið samkeppni um skipulag á reit Menntaskólans. Skipulagið afmarkast af Amtmannsstíg, Þingholtsstræti, Bókhlöðustíg og Lækjargötu þar sem gert var ráð fyrir nýbyggingum á þann hátt að þær féllu vel að eldri byggingum sem látnar yrðu standa áfram. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur hefur þegar fjallað um málið og engin andstaða er af þess hálfu við byggingaráformin. Samkvæmt þeim er gert ráð fyrir að núverandi íþróttahús skólans verði endurbyggt fyrir bókasafnið en fjósið svonefnda, fyrir ofan gamla skólann, yrði gert að margmiðlunarveri. Gert er ráð fyrir að gamla KFUM húsið verði fjarlægt og í stað þess kæmi nýbygging með kennslustofum og á neðri hæð yrði aðstaða fyrir félagslíf nemenda, mötuneyti og fleira. Þá sé gert ráð fyrir því að í framhaldi af Casa Nova í áttina að Amtmannsstíg komi íþrótta- og samkomuhús.