Eldri Seltirningar keyptu flestar íbúðirnar
Flestar íbúðirnar í fjölbýlishúsinu 1 til 5 við Hrólfsskálamel seldust á innan við einni viku eftir að þær komu í sölu en húsið hefur verið í byggingu í rúmt ár.
„Þessi blokk hefur slegið í gegn. Það stefnir allt í að allar íbúðirnar verði seldar áður en vikunni lýkur,“ sagði Ólafur Finnbogason fasteignasali hjá Miðborg en eignin fór í sölu miðvikudaginn 6. apríl. „Það sem er athyglisverðast við þessar sölur er að flestir kaupendur íbúðanna eru búsettir á Seltjarnarnesi. Hrólfsskálamelur 1 til 5 var í eigu fasteignafélagsins Upphaf sem aftur er í eigu fjárfestingarsjóðsins Gamma sem er að selja húsið. Í því eru 34 íbúðir en á aðeins nokkrum dögum hafa 23 þeirra selst. Íbúðirnar eru frá 74 fermetrum og upp í 220 fermetra og verð þeirra allt frá 40 milljónum króna í tæpar 200 milljónir. „Það skemmtilega við þetta er að kaupendur eru upp til hópa eldri Seltirningar sem eru að minnka við sig eða ungt fólk að kaupa sína fyrstu íbúð. Þessi mikla eftirspurn sýnir klárlega að það er mikil eftirspurn eftir húsnæði á Seltjarnarnesi,“ segir Ólafur. Á næstu vikum og mánuðum er gert ráð fyrir að á annan tug eigna kom til sölu á Seltjarnarnesi. Er það um að ræða einbýlishús og raðhús auk íbúða í fjölbýli.