Ölduselsskóli sigraði á jólaskákmóti TR og SFS

Olduselsskoli- A sveit 1

Skáksveitir Ölduselsskóla.

Olduselsskoli a og b sveit 1

Skáksveitir Ölduselsskóla. Einn keppanda Árna Benediktsson vantar á myndina.

Ölduselsskóli sigraði skólaskákkeppni barnaskólasveita á Jólaskákmóti TR og SFS 29. til 30. nóvember. Mótið er liðakeppni milli skólanna á Reykjavíkursvæðinu þar sem teflt er á fjórum borðum.

Skáksveit Ölduselsskóla hefur gert góða hluti á mótinu síðastliðin ár enda er sveitin skipuð reynslumiklum og hæfileikaríkum skákmönnum. Forkeppni barnaskólasveita borgarinnar er skipt í tvennt en Ölduselsskóli sendi tvær sveitir til keppni að þessu sinni. Liðsmenn A-sveitarinnar voru Óskar Víkingur Davíðsson, Mykhaylo Kravchuk, Stefán Orri Davíðsson, Baltasar Máni Wedholm Gunnarsson og Birgir Logi Steinþórsson, sem einnig tefldi fyrir B-sveit. Sú sveit var jafnframt skipuð Elfari Inga Þorsteinssyni, Viktori Má Guðmundssyni og Árna Benediktssyni. Liðsstjóri var Björn Ívar Karlsson, skákkennari frá Skákakademíunni. Skemmst er frá því að segja að A-sveit Ölduselsskóla sigraði allar skákirnar sínar í undanriðli með 24 vinninga af 24 mögulegum sem er ótrúlegur árangur. B-sveit skólans kom nokkuð á óvart með góðum árangri og lenti í 3. sæti sem einnig er glæsilegur árangur. Þetta þýddi að A-sveitin var komin í úrslit mótsins þar sem sveitin atti kappi við A- og B-sveitir Rimaskóla og A-sveit Háteigsskóla. Enn og aftur sýndu strákarnir úr Breiðholtinu yfirburði sína en þeir sigruðu af miklu öryggi í úrslitunum, fengu 10,5 vinning af 12 mögulegum, og enduðu vel fyrir ofan næstu sveit.

Afrakstur vinnu síðustu ára

Árangur skáksveita skólans á mótinu er afrakstur mikillar vinnu síðastliðinna ára. Strákarnir hafa allir æft stíft, bæði í skólanum, en einnig utan hans, m.a. með Skákfélaginu Huginn og Taflfélagi Reykjavíkur. Þess má einnig geta að tveir piltar úr sigursveitinni, bræðurnir Óskar Víkingur og Stefán Orri, tóku þátt í HM ungmenna sem fór fram fyrr í haust með góðum árangri. Boðið er upp á vikulegar skákæfingar í Ölduselsskóla í samvinnu við Skákakademíu Reykjavíkur. Fyrir þá krakka í Breiðholtinu sem hafa áhuga á skák má benda á ókeypis, opnar æfingar hjá Skákfélaginu Huginn á mánudögum frá kl. 17:15 til 19. Æfingarnar eru í Álfabakka 14a í Mjóddinni, inngangur er á milli Fröken Júlíu og Subway og er félagsheimilið á 3. hæð.

You may also like...