Breiðholt Festival verður haldið í ágúst
Breiðholt Festival verður haldið sunnudaginn 14. ágúst og fer hátíðin fram í skúlptúrgarðinum við Ystasel og næsta nágrenni í hjarta Seljahverfisins. Þetta er í annað sinn sem efnt er til þessarar hátíðar en að henni standa þau Sigríður Sunna Reynisdóttir, leikhúslistamaður og Valgeir Sigurðsson, tónlistarmaður ásamt Megan Horan sem er framkvæmdastjóri hátíðarinnar. Breiðholtsblaðið leit til þeirra í kaffispjall á dögunum.
Þau segja að markmið með Breiðholt Festival sé einkum tvíþætt. Annars vegar að vekja athygli á þeim fjölmörgu listamönnum sem tengjast Breiðholti og kynna þá listsköpun sem fer fram í hverfinu. Hins vegar vilji þau bjóða íbúum hverfisins að njóta menningarviðburða innan göngufæris við heimabyggð sína. „Við viljum einnig kynnast nágrönnum okkar í gegnum það sem við erum að gera auk þess að kynna listafólk og sköpun þess,“ segja þau. Göturnar sem liggja að skúlptúrgarði Hallsteins Sigurðssonar myndhöggvara voru sérstaklega skipulagðar á sínum tíma fyrir listafólk sem hafði áhuga á að sambyggja íbúðarhúsnæði og vinnustofur. Þekkt listafólk fékk úthlutað lóðum og má auk Hallsteins, sem enn býr og starfar við Ystasel, m.a. nefna Einar Hákonarson, listmálara, Ingunni Eydal, myndlistarmann, Örn Þorsteinsson, myndhöggvara, Sigurð G. Tómasson, fjölmiðlamann og Steinunni Bergsteinsdóttur, hönnuð sem nú hafa fært sig um set auk fleira listafólks.
Vinnustofur fyrir listamenn, hljóðver og útgáfustarfsemi
Gróðurhúsið og Bedroom Community hafa starfsemi sína í Vogaseli en um hvað er að ræða. Valgeir festi kaup á húsinu af Ingunni Eydal fyrir allnokkrum árum og nú hafa þau breytt því verulega frá hinni fyrri gerð. „Við tókum litla íbúð sem var undir útbyggingunni þar sem vinnustofa Ingunnar var á sínum tíma auk þess að taka hluta af stórum bílskúr og útbúa starfs- og gistiaðstöðu fyrir fólk sem hefur áhuga á koma og vinna að hugðarefnum sínum,“ segir Valgeir. Þegar tíðindamann bar að garði tók ungt listafólk á móti honum – fólk sem dvelur um þessar mundir í þeirri aðstöðu sem Sigríður Sunna og Valgeir hafa skapað djúpt inn í friðsæld og gróðurríki Seljanna. Á efri hæð útbyggingarinn-ar hefur verið komið fyrir fullkomnu upptökustúdíói fyrir hljóðverið Gróðurhúsið. „Við erum búin að breyta þessum hluta húsnæðisins talsvert og laga hann að þeirri starfsemi sem nú fer fram. Við vildum stækka glugga og auka birtu og loftgæði í upptökustúdíóinu. Stúdíó af þessari gerð eru oft dimm og stundum loftþung,“ segir Valgeir og bendir á að þau séu oft í miklu þéttbýli stórborga þar sem einangra verði stórborgarniðinn algerlega frá því verið sem er að gera innan dyra. Bedroom Community er plötu-útgáfa sem hefur miðstöð sína í hljóðverinu, en teygir anga sína um víða veröld þar sem meðlimir útgáfunnar koma víða að.
Verðum í kringum Vogaselið og Alaskadalinn
Breiðholt Festival er einkum sprottið upp úr starfsemi Gróðurhússins og Bedroom Community og frjóum hugmynda-heimi þeirra Sigríðar, Valgeirs og Megan. Dagskrá hátíðarinnar á síðasta ári var bæði óvenjuleg og fjölbreytt og vakti verulega athygli en hvað ætla þau að bjóða upp á að þessu sinni. „Við verðum líkt og á síðasta ári á svæðinu í kringum Alaskadalinn sem margir þekkja frá þeim tíma að Gróðrarstöðin Alaska var þar í námunda við bæjarstæði gamla Breiðholts sem byggðin hér heitir eftir. Viðburðir fara fram á nokkuð afmörkuðu svæði þar sem hægt verður að rölta á milli og tekur varla meira en fimm til tíu mínútur þannig að fólk geti kynnst og notið sem flestra dagskrárliða sem verða í boði. Þeir fara meðal annars fram í Skúlptúrgarði Hallsteins Sigurðssonar við Ystasel, Ölduselslaug, og í Gróðurhúsinu hljóðveri í Vogaseli svo nokkurs sé getið og það má einnig geta þess að bílastæði eru við ÍR heimilið og einnig við Ölduselsskóla“ segir Sigríður Sunna. Valgeir bendir einnig á að á hátíðinni verði sjónum beint að þeirri listsköpun og menningarlífi sem fer fram í Breiðholti, með þátttöku listamanna úr ýmsum listgreinum sem tengjast hverfinu á einn eða annan hátt.