Höfum allt að vinna með því að hægja á umferðinni
Gísli Marteinn Baldursson fjölmiðlamaður og fyrrum borgarfulltrúi birti nýlega grein á vefsvæði sínu þar sem hann tók málefni BYKO reitsins á horni Hringbrautar og Ánanausta til umfjöllunar og raunar mál Hringbrautarinnar allrar. Greinin vakti verulega athygli en nú er til umfjöllunar nýtt deiliskipulag BYKO reitsins og Hringbrautin er sífellt umræðuefni – ekki síst í Vesturbænum. Gísli Marteinn settist niður með Vesturbæjarblaðinu á dögunum og ræddi málin.
Gísli Marteinn segir margt gott við nýja deiliskipulagið. En margt annað veki sig til umhugsunar um svæðið í grennd við BYKO reitinn sem er utan deiliskipulagsins. Hann bendir á að nýja deiliskipulagið á BYKO reitnum nái yfir 3800 fermetra svæði að grunnfleti en fyrir utan það sé um 7300 fermetra svæði þar sem einungis er um hraðbrautarumhverfi að ræða sem sé auk þess mjög ljótt, illa nýtt, neikvætt og hættulegt fyrir alla aðra en þá sem eru á bílum. „Ég velti ég því fyrir mér af hverju arkitektar hjá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar létu ekki laga þetta umhverfi um leið og deiliskipulagið var gert. Almennt finnst mér að arkitektar hafi of mikinn áhuga á húsum en of lítinn áhuga á því sem gerist í kringum þau. Ég spyr af hverju þetta deiliskipulag var ekki látið ná yfir allan þann reit – líka hlutann sem eingöngu er ætlaður bílaumferð.“
Hefði mátt finna snjallar lausnir
Gísli segir að hæglega hefði mátt finna pláss fyrir 170 íbúðir í stað þeirra 70 sem nú er áformað að byggja án þess að tapa neinum gæðum. „Það hefði verið hægt að hanna þetta umhverfi sem heild þannig að JL húsið og nýja húsið á BYKO reitnum gætu kallast á og auðvelt að komast þarna á milli. Góðar arkitektastofur hefðu getað fundið snjallar lausnir á umferðarmálum, gert falleg útivistarsvæði og borgarumhverfi sem hentar öllum, ekki bara þeim sem vilja keyra hratt þarna í gegn.“ Gísli Marteinn segir að nú þegar sé margvísleg starfsemi við Hringbrautina gegn BYKO reitnum. „Í gamla JL Húsinu er rekið Hostel, þar er öflugur Myndlistarskóli til húsa og einnig veitingastaður þar sem verslun Nóatúns var til skamms tíma. Í nálægum húsum má einnig finna fjölbreytta starfsemi, apótek, fatahreinsun, bakarí, jógastúdíó og fleira sem kallar til sín fjölda fólks.“
Hringbrautin er hraðbraut
Gísli segir að þær hugmyndir sem liggi að baki deiliskipulaginu bendi ekki til þess að til standi að breyta Hringbrautinni úr hraðbraut í borgargötu. „Það er alþekkt staðreynd að þar sem fólki líður illa líður bílum vel og þar sem bílum líður illa þar líði fólki vel. Þótt bílar séu hluti samgönguflórunnar þá eru þeir fyrirferðamiklir. Þeir taka mikið pláss, valda slysum, loftmengun og hávaða og gera lifandi mannlífi erfitt fyrir. Hringtorgið á mótum Hringbrautar og Ánanausta er þannig hannað að enginn þarf að slá af hraðanum þegar beygt er af enda Hringbrautarinnar og inn á Ánanaustin til norðurs. Umferðin getur nánast haldið áfram á fullri ferð. Ökumenn eru bara að horfa á eftir bílnum á undan en ekki eftir fólki sem er við illan leik að reyna að komast þarna yfir. Þetta er enn undarlegra í ljósi þess að á næsta reit við BYKO reitinn er barnaskóli. Foreldrafélag Vesturbæjarskóla hefur barist fyrir því árum saman að umferðarhraðinn verið lækkaður framan við skólann en á það hefur ekki verið hlustað.
Melatorgið er gangandi vegfarendum erfitt
Gísli heldur áfram að ræða um hringtorgin. „Það má einnig sjá sömu áhrifin við Melatorgið. Þar er áberandi erfitt að komast yfir Hringbrautina og jafnvel einnig yfir Suðurgötuna sem þó er minni umferðargata. Tugir fótgangandi eru á hverjum degi að setja sig í hættu við að komast þar yfir enda þekkja það allir sem ekið hafa, að það er óþægilegt að þurfa að stoppa í miðju hringtorgi. Hringtorgin eru gerð fyrir bíla og þjóna þeim vel, en valda þeim sem nýta annan ferðamáta eða eru bara hluti af mannlífi viðkomandi staða erfiðleikum. Umferðarsérfræðing-arnir sem lærðu sín fræði á sjöunda áratuginum töldu að þeir gætu beint gangandi umferð að gönguljósum 200 metrum frá. Þess vegna hafa verið settar upp girðingar til smala fólkinu að þeim. En gangandi vegfarendur fara auðvitað bara stystu leið, hvort sem um er að ræða börn, ferðamenn eða aðra. Það getur hver sem er séð við Melatorgið, þar sem fólk er alltaf að paufast yfir, þótt gönguljós séu sitt hvoru megin við torgið. Lausnin er ekki fleiri veggir eða girðingar, heldur að hanna götuna þannig að allir aðrir en ökumenn bíla séu ekki í lífshættu við að fara í skóla eða sinna daglegu lífi.“
Hugmyndir úr fyrri tíma hugsun
Gísli Marteinn bendir á að víða um heim sé farið að vinda ofan af þessari hraðbrautahugsun. „Þessar hugmyndir eiga sér rætur í fyrri tíma hugsun. Margar götur í Reykjavík voru hugsaðar sem hraðbrautir fyrir bíla og ekkert hugað að því hvort eitthvert óhagræði myndi skapast af þeim. Hraðbrautir í íbúðabyggð eru tímaskekkja. Þetta snýst ekki um andúð á bílum heldur lífsgæði og tillitsemi. Þeir vegfarendur sem kjósa að nota bíla verða að taka tillit til umhverfisins. Það er engum vorkunn að aka á 30 kílómetra hraða eftir Hringbrautinni vegna þess að það er hraðinn sem skilur á milli feigs og ófeigs. Ég vil horfa á Ánanaustagatnamótin sem hluta af þeirri þróun sem verður að eiga sér stað við skipulag og gerð umferðarmannvirkja í stað þess að festa gamlar og úreltar hugmyndir í sessi til frambúðar. Á sjöunda áratuginum stóð til að byggja mislæg gatnamót á mótum Hofsvallagötu og Hringbrautar sem segir okkur sitthvað um hugsunina sem liggur að baki hönnun þessara gatna. Hringbrautin eins og hún er í dag er mikill farartálmi á milli bæjarhluta í Vesturbænum. Hringbrautin á að vera falleg, róleg borgargata, enda liggur hún þvert í gegnum íbúðahverfi, skólahverfi og íþrótta- og tómstundahverfi. Með nýrri hönnun þar sem eru breiðar gangstéttir, hjólastígar, gróður og róleg bílaumferð myndum við auka öryggi þeirra sem þurfa að sækja skóla eða íþróttir yfir götuna, og auka lífsgæði allra sem eiga leið um hana. Það er staðreynd að mun færri krakkar taka þátt í íþróttastarfi hjá KR úr nyrðri hluta Vesturbæjarins það er norðan Hringbrautarinnar en sunnan hennar. Foreldrar veigra sér við að láta börnin fara yfir þessa miklu umferðargötu sem er eins og stórfljót. Þeir sem enn eru fastir í gamla hugsunarhættinum leggja til göngubrýr og undirgöng, sem eru lausnir fyrir bílinn – ekki fyrir alla aðra. Slíkar lausnir eru aðeins gerðar til að Hringbrautin megi áfram verða hraðbraut þar sem ökumenn þurfa ekki að gæta að neinum öðrum vegfarendum. Áratugum saman kappkostuðu stjórnmálamenn og umferðarfræðingar að reyna að forða bílnum frá hvers kyns ónæði, eins og til dæmis gangandi vegfarendum eða börnum. En þessi hugmynd er komin á ruslahauga skipulagssögunnar og lausnin á götum eins og Hringbraut er að hanna hana sem rólega borgargötu, þar sem margir samgöngumátar geta þrifist.“
Svifryk eykur hættu á heilabilun
Ekki verður skilið við Gísla Martein án þess að minnast á mengun frá bílum og þess minnst að nýlega hafi akstur dísilbíla verið bannaður í nokkra daga í miðborg Oslóar vegna mengunar. Hann bendir á könnun sem nýverið hafi verið gerð í Kanada á afleiðingum af svifryki í andrúmsloftinu. „Það er staðreynd helstu áhrifavaldar svifryks eru mikil umferð, mikill hraði og nagladekk. Miðað við algengt veðurfar hér og þær hálkuvarnir sem beitt er á ekki að þurfa að aka bifreiðum á negldum hjólbörðum á höfuðborgarsvæðinu. Þeir dagar sem naglar veita einhverja vörn í umferðinni hér eru teljandi á annarri hendi. En öll þessi umferð veldur svifryki og þær hrannast nú upp rannsóknirnar sem sýna fram á skaðsemi þessi. Svifrykið sest fyrst og fremst að í öndunarfærum og það er engin tilviljun að þeir dagar sem mælast hæstir í svifryki, eru einmitt þeir dagar sem Reykvíkingar taka mest út af sprengitöflum úr apótekunum! Þetta var kannað í stórri rannsókn við lýðheilsudeild Háskóla Íslands. Ástæðan er sú að smæsta svifrykið fer ekki bara í öndunarfærin, heldur kemst alla leið út í blóðrásina.“ Og Gísli víkur að fleiru sem kom út úr kanadísku rannsókninni. „Þar kom annað í ljós sem kemur ef til vill á óvart. Svifrykið dreifir sér um blóðrásina frá lungunum út um allan líkamann – og einnig til heilans. Í kanadísku rannsókninni kom fram ótrúlega mikil fylgni á milli svifryks og heilabilunar eða elliglapa. Það eru 7% meiri líkur á að fólk sem býr innan 50 metra frá umferðargötum fái heilahrörnunarsjúkdóma. Við höfum allt að vinna með því að hægja á umferðinni og draga úr notkun nagladekkja eða hætta henni alveg.“