Engin mislæg gatnamót í samgönguáætlun í bráð
Í umræðum um samgönguáætlun á Alþingis ræddi Jón Gunnarsson samgönguráðherra um að ekki hafi náðst samkomulag við skipulagsyfirvöld í Reykjavík um mislæg gatnamót á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar en að í samgönguáætlun væri reiknað með því að leggja þar mislæg gatnamót. Breiðholtsblaðið leitaði til Reykjavíkurborgar um hvernig þessu máli liði.
Samkvæmt upplýsingum frá borginni kemur fram að mislæg gatnamót á þessum stað séu ekki til umræðu. Í tillögu til samgönguáætlunar fyrir árin 2015 til 2026 sé reyndar lagt til að gerð verði mislæg gatnamót á þessum stað á þriðja tímabili og gert ráð fyrir einum milljarði í það verkefni á árunum 2023 til 2026 en sú tillaga hafi ekki verið samþykkt af Alþingi. Tillögum um slík gatnamót hafi verið hafnað af borgarráði árið 2006, meðal annars vegna þess að til þess að koma þeim fyrir þyrfti að flytja vestari kvísl Elliðaánna úr farvegi sínum vegna framkvæmdarinnar. Þessum hugmyndum hafi einnig verið mótmælt harðlega af íbúasamtökum Bústaðahverfis á sínum tíma. Í framhaldi af því hafi verið unnar tillögur um umfangsminni úrbætur á gatnamótunum og niðurstaðan orðið sú að loka vinstri beygju af Bústaðavegi á Reykjanesbraut á annatímum. Síðan þá hafa ekki borist erindi um gatnamótin frá Vegagerðinni til Reykjavíkurborgar. Í upplýsingum frá Reykjavíkurborg kemur fram að þetta verkefni sé ekki á samgönguáætlun Alþingis fyrir 2015 til 2018 sem samþykkt var af Alþingi 2016 og heldur ekki í langtímaáætlun samgöngumála fyrir árin 2011 til 2022 sem samþykkt var af Alþingi 2012.