Skiptifatamarkaður í Gerðubergi
Skiptifatamarkaður með barnaföt hefur farið af stað í Breiðholti. Það er Rauði krossinn í Reykjavík sem stendur að baki markaðnum í samstarfi við Fjölskyldumiðstöðina í Breiðholti. Fyrsti markaðsdagurinn var í Gerðubergi föstudaginn 31. mars sl. Ætlunin var að hann yrði á jarðhæð Gerðubergs en vegna þess hversu vel viðraði þennan dag var ákveðið að hann væri haldinn á flötinni við suðurinngang hússins. Fjöldi fólks leit við í Gerðuberginu af þessu tilefni og skiptu ýmis klæði um eigendur.
Þorsteinn Valdimarsson verkefnastjóri hjá Rauða krossinum segir að hugmyndin að skiptimarkaðnum hafi orðið til hjá Rauða krossinum í Reykjavík. Félagið hafi markað sér þá stefnu að breiða starfsemi þess með markvissari hætti út til hverfa borgarinnar og í framhaldinu verið ákveðið að hefja leikinn í Breiðholti í ljósi þess að sérstaða hverfisins er nokkur. Hann segir að mikið hafi verið rætt um að vandamál séu þar til staðar en minna um hvar lausnir megi finna. „Við teljum að finna megi styrk í fjölmenningu og fjölbreytni í hverfinu og ætlum okkur meðal annars að reyna að draga hann fram í verkefnum okkar.“
Gott dæmi um samfélagsverkefni
Þorsteinn segir að enn sé verið að finna út úr því hversu reglulegur markaðurinn verður. Hugmyndin sé að hann verði í framtíðinni á laugardegi og verði haldinn einu sinni í mánuði líklega síðasta laugardag hvers mánaðar. Fram til vors verður hann hins vegar haldin annan hvern föstudag. „Skiptifatamarkaðurinn er fyrsta skrefið og gott dæmi um samfélagsverkefni sem gagnast almenningi í hverfinu. Flest barnafólk kannast við það hvernig börn vaxa upp úr fötum sem er nýbúið að kaupa. Skiptifatamarkaðurinn er einnig umhverfisvænn og eykur nýtingu hlutanna okkar, ásamt því að gagnast ekki síst efnaminni fjölskyldum sem þurfa þá ekki að kaupa nýtt. Við vinnum verkefnið í góðu samstarfi við fjölskyldumiðstöð Breiðholts í Gerðubergi, sem einmitt þjónustar mikið af þeim hópi og gat beint til okkar,“ segir Þorsteinn.
Vel á annað hundrað gestir
En hvernig tókst til á þessum fyrsta markaðsdegi. „Þetta tókst ótrúlega vel. Við höfðum veðurguðina með okkur í liði og gátum verið utandyra, höfðum auglýst vel í leikskólum hverfisins, hengt upp plaköt í verslanir, og notað facebook. Vissulega má alltaf gera betur, og okkar von er að þetta spyrjist út með þeim gestum sem mættu síðast en þeir voru að okkar mati vel á annað hundrað manns.“ Þorsteinn vill hvetja fólk til að koma með hreinar og heilar flíkur sem nýtast fjölskyldunni ekki lengur og skipta fyrir föt í réttum stærðum. Í Gerðubergi verður lager af barnafötum sem fólk getur fengið í skiptum. Þarna er einnig kjörið tækifæri fyrir fólk í hverfinu að hittast með börn sín, t.d. á leiðinni heim úr leikskóla. Ávextir, vatn og leikaðstaða verða á staðnum. Rauði krossinn vill hvetja áhugasama til að leggja verkefninu lið í sjálfboðastarfi, en sjálfboðaliðar munu að mestu annast uppsetningu og afgreiðslu á markaðnum.“