Ég hef víða komið við

– segir Ellert B. Schram –

Schram systkinin með foreldrum sínum í sextugsafmæli Aldísar. Fremri röð fr.v. Anna Helga, Bryndís, Magdalena og Margrét.
Aftar röð fr.v. Ólafur, Ellert, Aldís, Björgvin eldri og Björgvn yngri. 

Ritstjórinn, alþingismaðurinn og fyrst og fremst KR-ingurinn Ellert B. hefur komið víða við á langri ævi og og verið í forystuhlutverki. Ellert var meðal annars formaður KSÍ, forseti ÍSÍ, varaforseti Knattspyrnusambands Evrópu og hefur nýlega látið af störfum formanns Félags eldri borgara. Í nýútkominni bók sem ber einfaldlega nafnið Ellert og rituð er af Birni Jóni Bragasyni rekur hann lífshlaup sitt í hispurslausri og líflegri frásögn, allt frá uppvaxtarárum á stóru heimili í Vesturbænum fram til dagsins í dag.  

 Vesturbæjarblaðið skrapp í morgunkaffi til hans og Ágústu konu hans í Sörlaskjólið á dögunum. Ellert er kvikur á fæti þrátt fyrir átta áratugi á meðal vor og finnst erfitt að komast ekki í golf á meðan golfvellir eru lokaðir af coronaveiruástæðum. Hann gengur um gólf í stofunni heima og fyrir utan gluggann fer kona með barnavagn hjá. Ellert orpnar svaladyrnar og ræðir um stund við konuna. Á meðan kemur Ágústa eiginkona hans með kaffi og marsipanköku. Þegar Ellert snýr aftur frá svaladyrunum hefur hann frásögn sína.

Flestir lögðu ættarnafnið niður

“Ég heiti Ellert og í upphafi bókarinnar kem ég að því hvaðan Schram nafnið er komið. Það kemur frá dana nokkrum sem kom hingað til lands á vegum danskra kaupmanna sem réðu flestu hér á landi eftir að dönsk yfirvöld uppgötvuðu að græða mætti á þessu volaða landi í norðri. Forfaðir minn hét Christian Gynther Schram og gerðist verslunarstjóri lítt þokkaðs kaupmanns á Djúpavogi 1795. Ættarnafnið þótti ekki merkilegra en svo að festir afkomendur Christian lögðu það niður utan einn sem hét Ellert. Hann drukknaði við Vestmannaeyjar en sonur hans bar nafn Christians. Kristján Gynter Schram. Sonur hans Ellert var afi minn. Þannig hefur Schram nafnið haldist í gegnum þennan legg þótt aðrir hafi hætt að nota það.”

Móðurafi og amma fluttu í fátækt í Reykjavík

“Ég man vel eftir Ellert afa. Hann féll frá 1961 orðinn 96 ára. Þegar hann var orðinn gamall maður lýsti hann tilverunni sem harðri. En fólk hafi haft mikið æðruleysi til að bera og borið vanda sinn í hljóði. Afi studdi Sjálfstæðisflokkinn og þá einkum Ólaf Thors. Hlustaði jafnan á ræður hans í útvarpinu en ef aðrir voru að tala lokaði hann fyrir. Sagði þá bara bulla. Ellert afa tókst að komast í Sjómannaskóla Markúsar Bjarnasonar, þaðan sem hann lauk prófi 1889 jafnframt því að stunda sjó. En ég er ekki bara af Schram ættinni,” heldur Ellert áfram. “Ég er Sunnlendingur í móðurættina. Aldís móðir mín var sunnlenskrar ættar. Brynjólfur faðir hennar var ættaður úr Landeyjum og Margrét móðir hennar, amma mín var einnig ættuð af Suðurlandi. Þau fluttu til Reykjavíkur þar sem fátækt og basl tók við þeim. Brynjólfur hinn afi minn stundaði sjómennsku og vann síðar við skipamóttöku. Það var á þeim tíma þegar verkamenn söfnuðust saman við höfnina snemma á morgnana og biðu þess að verkstjórinn benti á þá sem hann vildi fá til vinnu þann daginn. Misjafnt var hversu marga hann valdi og þeir sem hann gekk fram hjá máttu snáfa aftur heim. Síðar starfaði hann við Miðbæjarskólann en hann missti heyrnina. Ég man eftir öllu þessu fólki. Þau eignuðust níu börn. Þrjú dóu í bernsku og tveir synir þeirra fórust með Leifi heppna í Halaveðrinu 1925 þar sem 33 menn fórust.”

Í sveit í Borgarfirðinum   

Ellert segist hafa verið sendur í sveit eins og algengt var með börn á þessum tíma. “Ég var í sveit á sumrin frá því ég var átt ára til 14 ára. Ég var mest í Borgarfirði. Maður var bara um kyrrt á bænum þann tíma sem ég átti að vera. Enginn bíll var þar og ekki um neitt skutl að ræða. Sveitarsíminn var kominn og hann virkaði þannig að ef hringt var þá hringdi síminn á öllum bæjum sem voru tengdir við línuna. Og þá gátu menn hlustað um hvað var verið að tala í sveitinni. Og gerðu það held ég óspart.”

Fjórði flokkur KR í knattspyrnu árið 1950. 
Efri röð fr.v. Atli Helgason þjálfari, Garðar Árnason, Erlendur Guðmundsson, Pétur Axel Jónsson, Haraldur Baldursson, Gunnlaugur Baldursson, Ingólfur Babel og Daníel Benjamínsson. Fremri röð tr.v. Sveinn Jónsson, Ellert B. Schram, Þórólfur Beck, Heimir Guðjónsson, Magnús Ó. Schram, Leifur Gíslason og Pétur Stefánsson.

Eyrun nærri frusu

Svo tók fótboltinn við nokkuð sem Ellert er hvað þekktastur fyrir. “Ég fór að æfa með KR. Sumarið 1953 var ákveðið hjá KR að fara í ferðalag til Danmerkur. Ég var ekki í keppnissveitinni en fékk leyfi til þess að fara með. Við fórum með Drottningunni “Dronning Alexandrine” því flug var ekki í boði. Við vorum niðri í skipinu og það var frekar vont í sjóinn. Mig minnir að flestir, ef ekki allir hafi orðið sjóveikir. En þetta var mikið ævintýri fyrir stráka á þessum tíma. Ég man líka eftir því þegar mamma sendi okkur á skíði upp í KR skála. Veðrið var ekki gott og rútan komst ekki alla leið að skálanum vegna ófærðar. Við urðum að skríða á fjórum fótum síðasta spölinn. Mér varð mjög kalt á eyrunum og varð að passa þau lengi á eftir. Ég held að minnstu hafi munað að þau myndu verða fyrir kali en ég hélt þeim þó.”

Skrifaði fyrir Vísi öll háskólaárin 

“Ég var sex ár í Verslunar­skólanum. Eftir Melaskólann tók við eitt ár í gagnfræðaskóla í Vesturbænum og síðan fór ég í Verslunarskólann. Ég var þar í sex vetur því ég hélt áfram og lauk stúdentsprófi. Eftir það hafði ég hugsað mér að fara að vinna en var ýtt í háskólanám. Þá tók lögfræðin við. Ég man að Háskólinn átti engar ritvélar svo maður varð að taka ritvél með sér í skólann. Svo komst ég upp á að standa upp á fundum og tala – að flytja ræður. Það varð til þess að ég var kosinn formaður stúdentaráðs. Ég var líka að vinna við blaðamennsku á Vísi. Gunnar frændi minn Schram var ritstjóri og ég var stundum sendur niður á þing til þess að skrifa þingfréttir og sitja þingflokksfundi hjá Sjálfstæðisflokknum. Ólafur Thors var þá formaður og svo tók Bjarni Benediktsson við af honum. Ég var með annan fótinn á Vísi öll háskólaárin. Var með aðra höndina að skrifa í Vísi og einnig að ljúka náminu.”

Ellert ungur þingmaður og varaformaður útvarpsráðs. Á þeim tíma var ekki sjónvarpað í júlí og Ellert var ósáttur við að heimsmeistarakeppni í knattspyrnu yrði ekki send úr fyrr um haustið.

Sjálfstæðismenn sátu fyrir lóðum

Svo tóku önnur störf við af þingfréttaskriftinni “Já – þegar ég hafði lokið náminu var komið að því að finna aðra vinnu en að vera lausráðinn blaðamaður hjá Vísi. Ég var ráðinn í starf framkvæmdastjóra hjá borgarverkfræðingi. Þar var mikið að gera. Þetta var á þeim tíma þegar búið var í herbröggum út um allt. Verið var að vinna að því að losna við þá búsetuhætti. Til þessu þurfti að byggja yfir fólk. Á þessum tíma var mikið um að fólk væri með húsdýr inn í borginni. Þetta var arfur frá þeim tíma að sveitin náði langt inn í borgina. Fólk var með hesta og kindur og jafnvel kýr inn í borgarbyggðinni. Þessu þurfti að breyta en fara varð með gát að fólki. Húsdýrahald var tilfinningatengt hjá mörgum. Offors dugði ekki gagnvart því. En ég kynntist mörgu fólki fyrir vikið. Húsnæðiseklan var mikið og skortur á lóðum. Allir gátu ekki fengið byggingarlóð. Þannig var unnið hjá borginni að allar lóðarumsóknir voru sendar upp í Valhöll til að kanna hvort umsækjendurnir væri á flokkaskrá. Sjálfstæðismenn sátu fyrir. Ég hafði þó þá venja að hafa samband við forystumenn úr hinum flokkunum til að kanna hvort einhverja vanhagaði mjög um lóðir,”

Svalirnar féllu og okkar maður dó 

Þú varst líka alltaf í fótboltanum. “Ég var það. Lífið gekk út á að hittast, æfa og spila. Okkur KR-ingum gekk vel og við áttum margra sigra. Nokkrir voru valdir í landsliðið. Við lékum Evrópuleiki á árunum 1962 til 1963. Við urðum Íslandsmeistarar og vorum valdir í að spila leik á móti breska liðinu Liverpool. Ég var fyrirliðið liðsins en við unum ekki leikinn. En þetta var byrjunin. Við vorum komnir á kortið.” Ellert rifjar upp erfiðan atburð sem varð hjá íslenska landsliðinu á þessum tíma. “Á þessum tíma komst ég ekki alltaf með. Eitt sinn átti landsliðið að spila leik á móti Bretum í London. Ég átti af einhverjum ástæðu ekki heimangengt og var annar maður valinn í minn stað. Þegar þeir komu á hótelið þar sem þeir áttu að gista fór þessi maður út á svalir. Þá gerðist það að svalirnar hrundu. Maðurinn féll til jarðar og lést. Mér fannst eins og þetta væri mér að kenna. Ég hafði ekki farið með. Þessi hugsun ásótti mig.”

Spilaði sex leiki með KR með þingmennskunni 

“Ég hélt áfram að spila þar til ég var kostinn á þing 1971. KR gekk ekki nægilega vel um þær mundir og þeim hömuðust í mér að koma með þeim þrátt fyrir þingstörfin. Á endanum lét ég undan. Spilaði sex síðustu leikina með þeim og það tókst að bjarga KR frá því að falla. Annars var ég lengi að hætta í fótboltanum Hann togaði alltaf í mig. Ég spilaði með Skagaströnd eitt sumar. Var víst ólöglegur því ég skráði mig aldrei í liðið. Fór bara með þeim á völlinn.”

Yngstur og elstur á þingi

Þingseta Ellerts er kafli út af fyrir sig. Hann hefur setið með hléum lengur á þingi en flestir ef nokkur annar. Var yngstur á þingi þegar hann tók þar fyrst sæti. Var einnig elstur þegar hann settist þar um stund sem varamaður fyrir nokkru. Hann hefur líka gengt þingmennsku fyrir fleiri en einn flokk. Ellert tók þátt í prófkjöri hjá Sjálfstæðisflokknum 1978 og lenti í sjötta sæti. Fór fram fyrir Pétur Sigurðsson og Guðmund H. Garðarsson sem setið höfðu á þingi og höfðu ekki hug á því að hætta. “Geir Hallgrímsson formaður var í vanda. Hann hringdi í mig. Við ræddum þessa erfiðu stöðu. Ég sagði við Geir að ég skyldi skipta við þá. Ég féllst á að fara aftar á listann. Í áttunda sætið. Ég sá fram á að ég yrði varaþingmaður og yrði að fá mér aðra vinnu. Þá var ég ráðinn ritstjóri hjá Vísi og síðar DV Þarna sameinuðumst við Jónas Kristjánsson við ritstjórnina og störfuðum saman í 15 ár.”  

Síðasti ferðafélagi Bjarna 

Ellert var um tíma formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. “Bjarni Benediktsson sem var þá formaður flokksins hringdi til mín og vildi fá mig í ferð með sér. Hann var að fara með varðskipi kringum landið til þess að hitta fólk. Þegar við vorum komnir til Siglufjarðar átti ég að spila landsleik daginn eftir svo ég fór suður á undan honum. Bjarni kom suður á eftir mér en í sömu vikunni brenna þau hjónin inni á Þingvöllum. Ég var því síðasti ferðafélagi Bjarna í hans lífi.” 

Fór út í fússi og kom til baka sem krati

Ellert er aftur kosinn á þing 1983. “Þá var ég búinn að vera utan þings um tíma en til þess að sýna fram á að ég væri einhvers virði gaf ég kost á mér í fjórða sæti á lista Sjálfstæðisflokksins. Ég var kosin og fór í framhaldi af því fram á að verða ráðherra. Við því varð ekki orðið en ég hefði sennilega geta orðið formaður þingflokksins. En ég ákvað að ganga á dyr og skella á eftir mér. Ég var á þinginu þetta kjörtímabil en var einn. Tók ekki þátt í neinum störfum með þingflokkum. Ég hætti sem forseti ÍSÍ 2006 og bauð mig aftur fram til þings 2007. Þá sem krati.”

You may also like...