Margt að gerast í Tónlistarskólanum
Eitt og annað hefur drifið á daga Tónlistarskólans nú á vordögum. Fyrir utan venjubundna tónleika sem haldnir eru á þriggja vikna fresti þá var Degi Tónlistarskólanna gert hátt undir höfði. Þessi dagur er haldin á landsvísu en misjafnt hvað tónlistarskólar gera mikið úr þessu degi.
Á Nesinu var opið hús frá kl. 14:00 til 16:00 og var margt um manninn, mikil og stór dagskrá. Gestir og flytjendur voru á þriðja hundrað. Fram komu sólistar og smærri samspil í tónleikasalnum og síðan ýmiskonar hljómsveitir í æfingasalnum. Foreldrafélag skólalúðrasveitarinnar sá um kaffi og kökuhlaðborð þar sem gnótt af kræsingum voru seldar eru til fjáröflunar fyrir skólalúðrasveitina. Þessi blanda af tónlist og kaffihúsastemningu hefur reynst afar vel í gegnum árin og fólk látið vel af. Spiluðu í safninu á safnanótt Á safnanótt sem Bókasafn Seltjarnarnes stóð fyrir spiluðu flest allir blokkflautunemendur skólans nokkur lög fyrir gesti og gangandi. Einnig spilaði hljómsveit sem að hálfu leyti var skipuð kennurum hér úr skólanum fyrir gesti Safnanætur.
Tók þátt í SAMFÉS
Í mars vorum við með samspilstónleika þar sem nemendur spreyttu sig á ýmiskonar samspili bæði hefðbundnu sem óhefðbundnu. Þetta hefur verið hefð í skólanum um margra ára skeið og hafa sprottið uppúr þessu allskonar “grúbbur“ sem jafnvel hafa haldið áfram að æfa saman. Hljómsveit sem starfrækt er í skólanum tók þá í söngvakeppni SAMFÉS og gekk þeim gríðarlega vel í keppninni.
Æfingabúðir í mars
Lúðrasveitin fór í æfingarbúðir í marsmánuði. Jafnan er mikið eftirvænting fyrir ferðum þessum sem farnar eru á hverri önn. Það ríkir mikil spenna t.d. fyrir því hvert verður farið og hve lengi verður gist, hvar verði farið í sund og hvernig tónlist verði æfð. Í þessum ferðum er sá háttur hafður á að foreldrar koma með og sjá um matargerð og gæslu á milli þess sem æft er. Tónleikar lengra komina nemenda eru nýafstaðnir, þar spreyta sig þeir nemendur sem lengst eru komnir í náminu og er jafnan mikil eftirvænting eftir þessum tónleikum. Tónleikarnir tókust í alla staði mjög vel eins og endra nær. Þá má nefna að píanisti frá skólanum sem tók þátt í Nótunni þetta árið stóð sig með einstakri prýði.
Barnamenningarhátíð og vortónleikar
Framundan er Barnamenningarhátíð 27. apríl sem haldin verður á Eiðistorgi. Þar mun forskóli eitt og tvö munu koma fram og leika og syngja nokkur lög fyrir gesti. Mikill og langur undirbúningur hefur staðið yfir fyrir þennan viðburð og mikil spenna í krökkunum. Vortónleikar skólans verða aðra helgina í maí, áður en vorpróf taka við. Af þessu má sjá að það er heilmikið um að vera í Tónlist-arskólanum og vert að geta þess að nú stendur yfir innritun í skólann fyrir næsta skólaár.