Hitamynd af bænum komin á vefsjá
Nú er búið að taka hitamynd af Seltjarnarnesi og setja á kortasjá á heima síðu bæjarfélagsins. Myndatakan fór fram í liðnum mánuði og er Seltjarnarnesbær trúlega fyrsta sveitarfélagið á Íslandi sem hefur verið myndað í heilu lagi á þennan hátt. Myndatakan fór þannig fram að flogið var yfir nesið fjórum sinnum og myndað og myndirnar síðan settar saman í eina samfellda loftmynd.
Það sem greinir þessa mynd frá öðrum loftmyndum er að á henni má greina hita á yfirborði jarðar eða undir því. Ef myndin er skoðuð nákvæmlega má sjá hvíta bletti þar sem meiri hiti er en á öðum stöðum. Myndin er greinargóð til þess að finna vatnsleka í hitalögnum bæjarins og þegar hefur komið komið í ljós að hitaveitukerfið á Seltjarnarnesi lekur mjög lítið eða nánast ekkert. Einnig má sjá á myndinni ef bílaplönin eru heit – til dæmis ef ekki hefur verið skrúfað fyrir upphitun í þeim að sumrinu til þegar engin ástæða er til þess að dæla heitu vatni um rörakerfi í bílastæðum. Myndin er það nákvæm að greina má hverja byggingu og hvern reit og jafnvel má greina ef þök húsa eru heitari en önnur sem getur bent til gæða einangrunar. Hitamyndun veitir bæjarfélaginu margvíslegar upplýsingar – ekki síst þegar kemur að hitaveitu bæjarfélagsins en hún getur einnig notast eigendum húseigna og íbúum bæjarfélagsins. Slóðin á hitamyndina er www.map.is/seltjarnarnes/