Gestum fjölgar ár frá ári
Listahátíðin Breiðholts Festival var haldin í þriðja sinn í Seljahverfinu og nágrenni í júní. Hátíðin var vel sótt og góð stemning á hátíðasvæðinu úti og inni. Hátíðin var fyrst haldin sumarið 2015 en á bak við hana eru aðstandendur hljóðversins Gróðurhúsið í Vogaseli sem í ár á 20 ára afmæli. Tilurð hátíðarinnar er að vekja athygli á þeirri list sem á sér stað í Breiðholtinu og kynna það fyrir íbúum hverfisins.
Hátíðin hefur til þessa að miklu leyti byggst á tónlist og myndlist auk fleiri atburða en að þessu sinni fékk leiklistin sinn hluta. Leiksýningin “Hún pabbi” sem sýnd var í Borgarleikhúsinu á liðnum vetri var sýnd á hátíðinni. Hún fjallar um samband Hannesar Óla Ágústssonar leikara við föður sinn sem er transkona. Tanja Leví, fatahönnuður og Loji Höskuldsson, mynd- og tónlistarmaður voru með innsetningu á verkinu “Upp með sokkana” í Ölduselslaug ásamt því að ýmsir þekktir tónlistarmenn tróðu upp. Þar á meðal voru þær Sóley, Ólöf Arnalds og hljómsveitin RuGl. Matarmarkaður var á svæðinu var þar sem tyrkneskur og nepalskur matur var á boðstólum meðal annars góðgætis úr Seljahverfinu. Nepalski maturinn er vinsæll og allt seldist upp þannig að aðstandendurnir þurftu að loka um stund og fara heim og elda. Ljóst er að hátíðin er að festast í sessi og orðspor hennar berst manna á milli. Það sést best á að sömu einstaklingarnir og fjölskyldurnar eru farnar að venja komur sína aftur að ári og gestum fjölgar ár frá ári.