Spennandi nýjungar í sundlauginni
Nýlega var hafist handa við að skipta um rennibraut í Sundlaug Seltjarnarness. Sú gamla var orðin 11 ára gömul, úrsér gengin eftir mikla notkun. Ákveðið var að hafa þá nýju með svipuðu sniði með smávægilegum breytingum þó. Fremsti hlutinn var hækkaður um 50 cm þannig að hún er aðeins hraðari til að byrja með, liturinn er orðinn blár og dekkri sem gerir það að verkum að hluti hennar er í myrkri en litarákir í henni miðri gefa skemmtilega birtu inn.
Þó nokkrar breytingar voru gerðar á undirstöðum og lendingarkerið er frábrugðið því gamla. Þetta tvennt gerir það að verkum að töluvert rask varð á svæðinu í kringum hana sem þjónustumiðstöð bæjarins sér um að lagfæra. Eins kemur nýtt öryggishandrið efst í stiganum sem liggur upp í rennibrautina. Ekki er rennibrautin það eina nýja þetta vorið. Ný lyfta fyrir fatlaða var sett upp við dýpri enda laugarinnar til að auðvelda þeim aðgengi í laugarkerin. Þetta er lyfta sem fer lítið fyrir og er knúin af vatni einu saman og er frábær viðbót við sérhæfðan búningsklefa fyrir fatlaða. Við hvetjum alla sem ekki hafa treyst sér í laugina hingað til að mæta og prófa nýju græjuna. Til að byrja með verða starfsmenn til taks til þess að leiðbeina og kenna.
Framundan eru svo spennandi nýjungar í sundlauginni, eins og öflugir nuddstútar í nuddpottinn og í frumhönnun eru svokölluð “skiptiböð”, sem er viðurkennd lækningameðferð sem gengur út á að fara til skiptis í heitt og kalt vatn. Vonandi gengur það eftir á næsta vori og verður kynnt betur þegar það verkefni er lengra komið. Vert er að taka það fram að aðgengið í skiptiböðin verður þannig að allir, líka þeir sem ekki komast í kalda pottinn geta auðveldlega nýtt sér þau. Kaldi potturinn hefur heldur betur slegið í gegn og verður þetta enn ein viðbótin til heilsubótar fyrir sundlaugargesti.