Unglingarnir elska bækur

Soffía Karlsdóttir 10x15

Soffía Karlsdóttir.

„Það gerir gæfumun fyrir gesti Bókasafnsins að fá þessa veglegu gjöf frá bænum,“ segir Soffía Karlsdóttir sviðsstjóri menningar- og samskiptasviðs Seltjarnarness, sem veitti viðurkenningu gjöf til kaupa á unglingaefni að andvirði hálfrar milljón króna. Það var bæjarstjóri Seltjarnarness, Ásgerður Halldórsdóttir, sem færði Bókasafni Seltjarnarness gjöfina fyrir hönd bæjarsjóðs í tilefni af 130 ára afmæli bókasafnsins 21. nóvember síðastliðinn. Auk þess fékk Bókasafnið nýjar hillur undir efnið og nýtt hljóð- og hátalarakerfi, sem á eftir að nýtast vel fyrir fjölbreytta viðburði í safninu.

Afmæli Bókasafnsins var fagnað með margvíslegum viðburðum en í sérstakri afmælisdagskrá var heiðursgestur Pálína Magnúsdóttir borgarbókavörður og fyrrum bókavörður á Seltjarnarnesi. Í vikunni á eftir var efnt til margvíslegra viðburða m.a. höfundakynningar með Auði Jónsdóttur, Jóni Kalman, Sigurði Pálssyni og Þórdísi Gísladóttur undir stjórn Hildigunnar Þráinsdóttur. Rithöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir átti bókmenntastefnumót við yngri kynslóðina og Jón Gnarr átti gott spjall við 10. bekkinga í Való þar sem hann hvatti þau óspart til að gefa heimspekibókmenntum góðan gaum.

Ná til barna með bókum fremur en tölvum

Bókasafn Seltjarnarness hefur verið í mikilli þróun undanfarið sem miðar að því að mæta breyttum tímum. „Það er staðreynd að útlán bóka hefur almennt verið að dragast saman, en á sama tíma erum við að upplifa mun meiri umferð um safnið,“ segir Soffía „Áskorunin felst í því að nýta þennan lögbundna menningarvettvang í starfi sveitarfélaganna sem best til þess að auðga líf bæjarbúa. Ég hef verið að skoða þróunina í öðrum löndum og heimsótti fyrir skemmstu þrjú bókasafnsútibú hjá New York Public Library og nokkur bókasöfn í Hollandi. Í fyrri heimsókninni lagði ég áherslu á að skoða unglingadeildir og naut þar fylgdar yfirmanns þeirra. Það sló mig í söfnunum í New York hversu mikil áhersla er lögð á gott og mikið aðgengi að tölvum fyrir börn og unglinga, en það kann að helgast af því að ef til vill er tölvueign almennings þar ekki eins mikil og hér. Í raun styrkti það mig í þeirri trú að setja ekki upp tölvur í unglingadeild okkar bókasafns, heldur freista þess að ná til barna og ungmenna í gegnum safnkostinn og reyna frekar að efla hann.

Töpuð barátta fyrir bókinni

Í Hollandsheimsókninni var mjög áberandi hvernig söfnin þar eru að vinna með samdráttinn í bókaútlánum með því að verja minna fé til innkaupa á bókum, geisladiskum og DVD myndum, en nýta það fremur í uppbyggingu á rýminu sjálfu, viðburðum og bókasafninu sem samastað fyrir ólíka hópa. Þeir sögðu beinlínis að baráttan fyrir því að ná upp fyrri útlánstölum efnislegra bóka væri töpuð. Á hinn bóginn hefur rafbókaútlánum hjá þeim fjölgað um 50%. Þetta er veruleikinn eins og hann blasir við og þróuninni verður líkast til ekki aftur snúið. Bókasöfnin á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við Forlagið og Landskerfi bókasafna eru þessa dagana að fara af stað með tilraunaverkefni sem snýr að útláni rafbóka og verður spennandi að kynna það þegar þar að kemur,“ segir Soffía.

„Ég elska að lesa“

Starfsfólk bókasafnsins á ærið verkefni fyrir höndum að velja inn nýtt safnefni fyrir ungmenni bæjarins en til að átta sig á vilja og löngun þeirra efndi Bókasafnið til umræðufundar með unglingum og fulltrúum frá versluninni Nexus og rithöfundinum Bryndísi Björgvinsdóttur á nýliðinni Menningarhátíð. „Niðurstaðan úr því spjalli var í grófum dráttum að unglingunum fannst unglingabókmenntir oft of barnalegar og „lingóið“ ekki sannfærandi, segir Soffía. „Sumir sögðust sækja meira í enskar bækur því þær höfðuðu meira til þeirra. Í framhaldinu gerðum við könnun meðal allra 10. bekkinga í Valhúsaskóla þar sem við spurðum hvaða efni við ættum að kaupa inn, nú þegar við stöndum frammi fyrir þessu skemmtilega viðfangsefni að byggja upp nýja deild fyrir þau.

Spennubækur vinsælastar

Það kom okkur satt best að segja verulega á óvart að 80% nemendanna sögðust fremur kjósa að lesa efnislega bók fremur en hljóðbók eða rafbók. 76% svöruðu því játandi að þykja gaman að lesa bækur og létu fylgja með athugasemdir eins og „Já mér finnst það æðislegt“ og „Ég elska að lesa“. Þegar þau voru innt eftir því hvernig bækur þau vildu lesa voru 86% sem vildu bæði lesa bækur á íslensku og ensku og aðeins fáeinir völdu annan hvorn kostinn. Þegar kom að vali um innihald, með fleiri valmöguleikum en einum, vildu langflestir lesa spennubókmenntir eða 78% nemendanna en þar á eftir komu fyndnar bækur sem 66% vildu lesa, 48% kusu sakamálasögur og 40% fantasíur. Færri vildu síðan lesa annað eins og skemmtun/fróðleikur, rómantík, teiknimyndasögur, mangabækur, íþróttabækur/útivist og bækur um tónlist.

Lesa Laxness og Murakami

Ungmennin nefndu hvorki fleiri né færri en 32 höfunda þegar þeir voru beðnir um að nefna sinn eftirlætishöfund. Þar af voru 22 erlendir, 9 íslenskir og þessi eini sem út af stendur var Guð. Vinsældir höfundanna skiptust nokkuð jafnt. Meðal níu ungmenna var J.K. Rowling vinsælust, sex ungmenni nefndu John Green, Jón Gnarr og Þorgrím Þráinsson og þrír sögðu Rainbow Rowell, Suzanne Collins og Veronica Roth vera sína eftirlætishöfunda. Það er ljóst að þessi aldurshópur er ekki endilega að falla fyrir einhverju léttmeti því meðal höfunda sem nefndir eru til sögunnar eru Halldór Laxness og Haruki Murakami. Við spurðum hvort þau vildu hafa áhrif á innkaup safnsins og sögðust 30% vilja gera það og stungu upp á bókum sem eru vinsælar í Ameríku og á Norðurlöndum, myndasögum frá DC Comics og Marvel, heimspekibókum, bókum fyrir ungmenni og fullorðna, bókum og sögum af hinsegin fólki, Laxness og bókum sem verið er að selja í Eymundsson. Þessar upplýsingar munu reynast okkur starfsmönnum Bókasafnsins gott veganesti þegar við förum að kaupa inn fyrir nýju deildina og fyrirséð að við munum áfram leita til unglinganna okkar þegar við stöndum frammi fyrir endurnýjun safnkostarins,“ segir Soffía og bætir við að auk þessa standi til að auka til muna framboð á viðburðum fyrir unglinga á næsta ári.

Meðfylgjandi eru myndir eru m.a. frá viðburðum tengdum 130 ára afmæli Bókasafns Seltjarnarness.

 

130 ara afmaeli2 Bokasafn-Gnarr hofundkvöld2 Hofundakvold 130araafmaeli

You may also like...