Mun draga verulega úr umferð olíubíla um Vesturbæinn
Stór olíuprammi hefur verið keyptur hingað til lands. Olíupramminn tekur 1000 rúmmetra af eldsneyti í farmgeyma eða um farm 30 olíubíla. Með prammanum mun draga verulega úr olíuflutningum með bílum um Vestubæ Reykjavíkur og Miðborgina – nokkuð sem margir hafa beðið eftir.
Þetta er fyrsti olíupramminn sem Íslendingar eignast. Hann er í eigu Skeljungs og Skipaþjónustu Íslands og nefnist Barkur. Pramminn gengur ekki fyrir eigin vélarafli og því mun Togarinn sem er dráttarbátur Skipaþjónustunnar færa hann milli staða. Með prammanum er unnt að dæla eldsneyti í skip á sama tíma og löndun eða lestun fer fram og spara þannig dýrmætan tíma. Aukin umferð skipa til Reykjavíkur kallar á þjónustu af þessu tagi auk þess að létta á umferð á landi.